Jean-Paul Belmondo

Jean-Paul Belmondo (9. apríl 1933–6. september 2021) var franskur leikari sem upphaflega sló í gegn í kvikmyndum eftir leikstjóra frönsku nýbylgjunnar á 7. áratug 20. aldar. Hann vakti fyrst athygli í kvikmyndinni Lafmóður (À bout de souffle) eftir Jean-Luc Godard frá 1960. Hátindi frægðar sinnar náði hann þó á 8. áratugnum þegar hann lék aðalhlutverk í fjölda vinsælla spennumynda eftir ýmsa leikstjóra. Eftir miðjan 9. áratuginn sneri hann aftur í leikhúsið og eftir heilablóðfall árið 2001 hætti hann að mestu að leika.
