Jedótímabilið (japanska江戸時代, Edo-jidai), líka nefnt Tokugawa-tímabilið (Tokugawa-jidai) er tímabil í sögu Japans sem nær frá 1603 til 1868. Upphaf tímabilsins miðast við það þegar Tokugawa Ieyasu varð sjógun eða herstjóri og gerði Jedó (núverandi Tókýó) að stjórnarsetri. Á þessum tíma var sjóguninn æðsti stjórnandi ríkisins og Japanskeisari hafði aðeins trúarlegt hlutverk. Tímabilinu lauk með Meiji-endurreisninni á síðari hluta 19. aldar þegar hefðbundnir titlar lénsveldisins (sjógun, daímýó og samúræ) voru lagðir niður og löggæsluumdæmi tekin upp.