Jigme Khesar Namgyel Wangchuck
| ||||
Jigme Khesar Namgyel Wangchuck
འཇིགས་མེད་གེ་སར་རྣམ་རྒྱལ་དབང་ཕྱུག་ | ||||
Ríkisár | 9. desember 2006 – | |||
Fæddur | 21. febrúar 1980 | |||
Katmandú, Nepal | ||||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Jigme Singye Wangchuck | |||
Móðir | Tshering Yangdon | |||
Eiginkona | Jetsun Pema (g. 2011) | |||
Börn | Jigme Namgyel Wangchuck Jigme Ugyen Wangchuck Sonam Yangden Wangchuck |
Jigme Khesar Namgyel Wangchuck (dsongka: འཇིགས་མེད་གེ་སར་རྣམ་རྒྱལ་དབང་ཕྱུག་; f. 21. febrúar 1980) er konungur Bútans og fimmti konungurinn af Wangchuck-ættinni. Hann var krýndur konungur þann 6. nóvember árið 2008. Hann var þá yngsti konungur í heimi.[1]
Titill hans í heimalandinu er Druk Gyalpo, sem merkir „drekakonungurinn“.
Æviágrip
Jigme Khesar Namgyel Wangchuck er elsti sonur gamla konungsins Jigme Singye Wangchuck, sem sagði af sér árið 2006, og þriðju eiginkonu hans, Tshering Yangdon drottningar.[2] Hann á eina alsystur og einn albróður, auk fjögurra hálfsystra og þriggja hálfbræðra sem faðir hans átti með öðrum eiginkonum sínum.
Eftir að hafa lokið grunnskólanámi í Bútan nam Jigme Khesar Namgyel Wangchuck í Bandaríkjunum og síðan í Oxford og útskrifaðist þaðan með gráðu í alþjóðasamskiptum og stjórnmálafræði.[3] Hann hefur mikið ferðast erlendis í opinberum erindagjörðum fyrir Bútan og hefur gegnt virkum hlutverkum í ýmsum menningar-, efnahags- og menntasamtökum.
Í desember árið 2005 tilkynnti konungurinn Jigme Singye[4] að hann hygðist segja af sér svo sonur hans gæti orðið konungur árið 2008 og hóf strax að fela Jigme Khesar Namgyel opinberar skyldur sínar.[5] Afsögn konungsins fór fram þann 14. desember 2006 og Jigme Khesar tók við krúnunni.[6]
Vinsældir erlendis
Þegar Jigme Khesar Namgyel Wangchuck var krónprins Bútans hjálpaði hann við skipulagningu 60 ára krýningarafmælis Bhumibol Adulyadej Taílandskonungs þann 13. júní 2006 ásamt meðlimum konungsfjölskyldna 25 ríkja. Jigme prins, sem var yngsti konunglegi gesturinn, vakti mikla athygli í taílenskum fjölmiðlum. Taílenskir fjölmiðlar gáfu honum viðurnefnið „draumaprinsinn“ og birti myndir og fréttir af honum á hverjum degi, jafnvel í nokkrar vikur eftir að hann sneri heim til Bútans.[7]
Í skoðanakönnun sem stofnunin ABAC hjá Assumption-háskólanum í Taílandi lét gera mældist Jigme Khesar Namgyel Wangchuck sem vinsælasti konunglegi gesturinn í landinu. Sumum þótti þessi könnun draga úr alvarleika viðburðarins og nokkrum klukkustundum eftir birtingu hennar lét framkvæmdastjóri ABAC, Nophadol Kanika, taka hana úr birtingu.[8]
Taílenska vefsíðan Pantip fjallaði mikið um heimsókn krónprinsins og birti meðal annars mynd af honum í fylgd með óþekktri konu. Taílensk slúðurblöð birtu síðan myndina. Taílenska rannsóknarlögreglan hleypti í kjölfarið af stokkunum rannsókn á uppruna ljósmyndarinnar, sem var álitin brot á friðhelgi einkalífs prinsins.[9]
Fjölskylda
Þann 13. október 2011 kvæntist konungurinn Jetsun Pema, sem var þá stúdent og 21 árs.[10] Hún er ekki af konungaættum og hjónaband þeirra vakti því nokkra athygli.[11] Þau eiga tvo syni og eina dóttur:
- Jigme Namgyel Wangchuck krónprins, f. 5. febrúar 2016;[12]
- Jigme Ugyen Wangchuck prins,[13] f. 19. mars 2020;[14]
- Sonam Yangden Wangchuck prinsessu, f. 9. september 2023.
Tilvísanir
- ↑ „Le plus jeune roi du monde couronné à Thimphou“. france24.com. Agence-France presse. 6. nóvember 2008. Sótt 15 júlí 2024.
- ↑ Genealogy.
- ↑ His Royal Highness Crown Prince Dasho Jigme Khesar Namgyal Wangchuck
- ↑ WANGCHUCK DYNASTY. 100 Years of Enlightened Monarchy in Bhutan. Lham Dorji
- ↑ “Bhutan king announces abdication”, BBC, 18. desember 2005.
- ↑ Patrick French, Enter the Dragon King, Vanity Fair, 13. apríl 2009.
- ↑ “Red hot Prince Charming” Geymt 23 júní 2006 í Wayback Machine, The New Paper, 21. júní 2006.
- ↑ “Abac backs down on poll on royals”, The Nation, 22. júní 2006.
- ↑ “DSI sweeps into action over Jigme photograph” Geymt 3 mars 2016 í Wayback Machine, ThaiDay, 28. júní 2006.
- ↑ „Konunlegt brúðkaup í Bútan“. mbl.is. 13. október 2011. Sótt 16. júlí 2024.
- ↑ „Konungur Bútan giftist“. Vísir. 13. október 2011. Sótt 16. júlí 2024.
- ↑ „Drekaprins fæddur í Bútan“. mbl.is. 6. febrúar 2016. Sótt 16. júlí 2024.
- ↑ „Le prénom du deuxième garçon du roi du Bhoutan dévoilé...“. Histoires Royales (franska). 30. júní 2020. Sótt 30. júní 2020.
- ↑ „La reine du Bhoutan a accouché : le roi et la reine sont parents d'un deuxième petit prince“. Histoires Royales (franska). 19. mars 2020. Sótt 19. mars 2020.