Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina
Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina (enska The Hitchhiker's Guide to the Galaxy skammstafað HHGTTG, eða H2G2) eftir Douglas Adams var upphaflega útvarpsleikrit sem sent var út af BBC í Bretlandi. Í dag hafa verið gefnar út fimm bækur, sjónvarpsþættir, tölvuleikur, hljómplata, tvö leikrit og kvikmynd var frumsýnd í maí 2005. Þó allar þessar útgáfur fjalli um sama söguþráðinn þá er mikill munur á sögunum og eru þær oft í algerri þversögn við aðrar útgáfur. Eina undantekningin á þessu er að upptaka af fyrstu útvarpsseríuna sem gefin var út sem hljómplata var eftir sama handriti og með næstum því sömu leikurum og útvarpsserían.
Bækurnar eru oft kallaðar þríleikur í fimm hlutum og njóta gríðarlegra vinsælda í heiminum í dag. Vinsældirnar má að hluta til rekja til furðulegra aðstæðna og persóna og mjög svarts húmors.
Saga útvarpsþáttanna
Fyrsta Hitchhiker's Guide to the Galaxy útvarpsleikritið var frumflutt árið 1978 á BBC Radio 4. Þótt þessi sería hafi lítið verið kynnt og send út seint á miðvikudagskvöldum þá fékk hún mjög góðar viðtökur. Var hún oft endurflutt og seinna gefin út á hljómplötu. Adams hefur alla tíð þakkað Peter Jones, sem ljáði bókinni rödd sína, hinar gífurlegu vinsældir sem útvarpsseríurnar hafa notið, en samband þeirra var það náið að þegar Jones lést árið 2000 tók Adams að sér að sjá um þátt sem BBC gerði til minningar um hann.
Vegna vinsælda fyrstu seríunnar ákvað Douglas Adams að gefa hana út í bókarformi og kom hún út árið 1979. Næsta útvarpssería kom út árið 1980 og var búin til bók úr þeirri seríu líka. Eftir það var framleiðslu útvarpsþáttanna hætt og hélt sagan áfram og komu út nokkrar bækur í viðbót. Íslensk þýðing Kristjáns Kristmannssonar kom út hjá bókaútgáfunni Bjargi árið 1999.
Sjónvarpsþættirnir
Vegna vinsælda bókanna og útvarpsseríanna var gefin út sjónvarpssería árið 1981 og tóku flestir leikarar útvarpsþáttanna þátt í gerð þeirra. Miðað við tækni í kvikmyndaheiminum árið 1981 þóttu sjónvarpsþættirnir vera meistarasmíði.
Bækurnar
- Leiðarvísir puttaferðalangsins um himingeiminn (e. Hitchhikers Guide to the Galaxy) — 1979
Fjallar um atburði úr fyrstu fjórum útvarpsþáttunum.
- Veitingastaðurinn við endimörk alheimsins — The Restaurant at the End of the Universe — 1980
Fjallar um ca. helminginn af annarri útvarpsseríunni (7. til 12. þáttur) og endar svo á efni úr 5. og 6. þætti.
- Life, the Universe and Everything — 1982
- So Long, and Thanks For All the Fish — 1984
- Mostly Harmless — 1992
Douglas Adams gaf líka út smásögu sem kallast Young Zaphod plays it safe en efni þeirrar smásögu tengist ekki mikið efninu í þríleiknum.
Útvarpsseríur þrjú til fimm
Seint á árinu 2003 var þriðja útvarpsserían framleidd af Above the Title Productions fyrir BBC Radio 4 og hún flutt í september og október 2004. Fjórða og fimmta serían voru síðan fluttar í maí og júní 2005. Þessar seríur komu svo út á geisladiskum fljótlega eftir frumflutninginn í útvarpi.
Voru þessar seríur unnar upp úr þriðju, fjórðu og fimmtu bókinni af leikstjóranum Dirk Maggs. Hafði hann hugsað sér að gera það í góðri samvinnu við Douglas Adams en hann dó árið 2001 áður en þeir gátu unnið að handritunum. Mörg atriði í handritunum eru samt sem áður komin beint frá Douglas og fékk hann meira að segja að leika Agrajag í þessum seríum. Þessar seríur eru næstum því að öllu leyti beint upp úr bókunum Life, the Universe and Everything, So Long, and Thanks For All the Fish og Mostly Harmless þrátt fyrir að þriðja bókin Life, the Universe... byrji þar sem fyrsta útvarpsserían endaði. Það þýðir að það er eins og önnur útvarpsserían gerðist aldrei og er í góðu samhengi við þá staðreynd að útgáfur af sögunni eru aldrei í góðu samhengi við hverja aðra.
Nokkur veginn sömu aðalleikarar og voru í fyrstu tveimur seríunum léku í nýju seríunum fyrir utan Peter Jones (Bókin) og Richard Vernon (Slartibartfast). William Franklyn og Richard Griffiths (sem leikur einnig í kvikmyndinni) koma í stað þeirra og Jane Horrocks leikur Fenchurch og Samantha Béart leikur Random. Þess má geta að Douglas Adams leikur (handan grafar) hlutverk vansælu framhaldlífsverunnar og margfalt fórnarlamb Arthur Dent, Agrajag. Þá leikur Sandra Dickinson Triciu McMillan, en hún lék alter ego-ið Trillian í sjónvarpsþáttaröðinni.
Kvikmyndin
Eftir að hafa flakkað á milli kvikmyndavera og ýmissa leikstjóra í tvo áratugi var sagan loksins gefin út í kvikmyndaformi með Martin Freeman sem Arthur, Mos Def sem Ford, Sam Rockwell sem Beeblebrox og Zooey Deschanel sem Trillian, með Alan Rickman sem Marvin og Stephen Fry sem Bókin.
Kvikmyndin fer mjög langt frá öðrum útgáfum af sögunni. Ástarþríhyrningur á milli Arthur, Zaphod og Trillian leikur mjög stórt hlutverk og heimsóknir til Vogsphere og Vitlvodle VI bætast við. Eins og fyrsta bókin þá fjallar kvikmyndin um atburði úr fyrstu fjórum útvarpsþáttunum.
Persónur
- Arthur Dent — Maður frá Jörðinni
- Ford Prefect — Rithöfundur frá The Hitchhikers Guide sem fór til Jarðarinnar til að endurbæta kaflann um Jörðina
- Zaphod Beeblebrox — Fyrrum Forseti vetrarbrautarinnar
- Tricia McMillan (Trillian) — Stjarneðlisfræðingur frá Jörðinni
- Skipstölvan Eddie — Glaðlynda stjórntölvan um borð í geimskipinu Heart of Gold. Aðrar vélar í skipinu hafa persónuleika.
- Marvin — Þunglynt vélmenni
- Vógonarnir — Viðbjóðslegar verur sem semja þriðju verstu ljóð alheimsins, Tákn skriffinnsku og pólitíkur.
- Gag Halfrunt — heilasérfræðingur Zaphods (Sálfræðingur)
- Hvítu Mýsnar — Létu byggja Jörðina á sínum tíma
Heimildir
Douglas Adams at The BBC, a celebration of the author's life and work; BBC Audiobooks; 2004