Luiz Inácio Lula da Silva
Luiz Inácio Lula da Silva | |
---|---|
Forseti Brasilíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 1. janúar 2023 | |
Varaforseti | Geraldo Alckmin |
Forveri | Jair Bolsonaro |
Í embætti 1. janúar 2003 – 1. janúar 2011 | |
Varaforseti | José Alencar |
Forveri | Fernando Henrique Cardoso |
Eftirmaður | Dilma Rousseff |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 27. október 1945 Caetés, Pernambuco, Brasilíu |
Þjóðerni | Brasilískur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Maria de Lurdes da Silva (g. 1969; d. 1971) Marisa Letícia Rocco Casa (g. 1974; d. 2017) Rosângela Lula da Silva (g. 2022[1]) |
Börn | Márcos Cláudio, Lurian, Fábio Luís, Sandro Luís, Luís Cláudio |
Háskóli | Serviço Nacional de Aprendizagem Industrial |
Undirskrift |
Luiz Inácio Lula da Silva (f. 27. október 1945), þekktastur sem Lula da Silva eða bara Lula,[2] er núverandi forseti Brasilíu. Hann gegndi embættinu fyrst frá 2003 til 2011 og sneri síðan aftur á forsetastól árið 2023.[3]
Lula er sósíalisti og stofnmeðlimur brasilíska Verkamannaflokksins (portúgalska: Partido dos Trabalhadores; PT). Stjórnmálastefnur hans eru kenndar við „lulisma“.
Á fyrstu forsetatíð sinni frá 2003 til 2011 naut Lula mikillar alþýðuhylli vegna efnahagsfarsældar og vinsælla velferðarverkefna sem stjórn hans stóð fyrir. Ásakanir um spillingu vörpuðu hins vegar skugga á stjórnartíð hans og rannsóknir á þeim gerðu Lula mun umdeildari eftir að hann lét af forsetaembætti. Lula var dæmdur í fangelsi árið 2018 vegna spillingarmála en dómurinn var ógiltur þremur árum síðar. Í kjölfarið bauð Lula sig aftur fram til forsetaembættis og tókst að vinna forsetakosningarnar sem haldnar voru árið 2022.
Æviágrip
Luiz Inácio Lula da Silva ólst upp í sárri fátækt. Foreldrar hans voru ólæsir og eignalausir og Lula lærði ekki að lesa fyrr en hann var tíu ára. Hann vann fyrir sér sem hnetusali og skóburstari á barnsaldri en fékk síðar vinnu í járniðnaðinum. Hann missti litla fingur annarrar handar í slysi þegar hann var að störfum í iðnaðarhverfi í São Paulo.[4]
Lula hafði lítinn áhuga á stjórnmálum á yngri árum en hann hóf virka þátttöku í verkalýðsbaráttu á áttunda áratugnum eftir að fyrsta eiginkona hans lést úr lifrarbólgu. Árið 1975 varð Lula da Silva leiðtogi 100.000 manna stéttarfélags járniðnaðarmanna. Í því embætti þótti Lula umbreyta landslagi brasilískrar verkalýðsbaráttu með því að bjóða herforingjastjórninni í landinu birginn.[4] Árið 1978 stýrði Lula verkfalli brasilískra bílaiðnaðarmanna sem var fyrsta meiriháttar verkfallið í Brasilíu síðan herforingjarnir tóku völdin árið 1964.[5]
Þegar Lula efndi til annars verkfalls árið 1980 lét herforingjastjórnin víkja honum úr stjórn stéttarfélagsins og handtaka hann.[6] Lula var í kjölfarið dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að efna til ólöglegs verkfalls og fyrir að hvetja til stéttabaráttu í Brasilíu.[7]
Fyrri forsetatíð (2003–2011)
Eftir endalok herforingjastjórnarinnar bauð Lula da Silva sig þrisvar fram til forseta áður en hann náði loks kjöri árið 2002. Hann tók við forsetaembætti þann 1. janúar 2003.[8]
Á fyrri forsetatíð sinni var Lula gjarnan kallaður einn vinsælasti stjórnmálamaður í sögu Brasilíu og einn vinsælasti leiðtogi á heimsvísu.[9][10][11] Stjórnartíð hans einkenndist af velferðarverkefnum eins og Bolsa Familia (ríkisstyrkjum til fátækra fjölskyldna) og Fome Zero (baráttu við matarskort og fátækt). Lula var áberandi á alþjóðasviðinu og kom meðal annars að samningaviðræðum um kjarnorkuáætlun Írans, baráttunni gegn loftslagsbreytingum og var lýst sem „manni uppfullum af metnaði til að breyta valdajafnvægi milli þjóða.“[12]
Á stjórnartíð Lula frá 2003 til 2008 minnkaði fjöldi Brasilíumanna undir fátæktarmörkum um tuttugu milljónir, úr um 49,5 milljónum í 29,5 milljónir. Tólf milljónir manns í afskekktum héruðum Brasilíu fengu á sama tíma aðgang að rafmagni í fyrsta sinn og lífsgæði Brasilíumanna jukust með ýmsum verkefnum ríkisstjórnarinnar. Jafnframt dró úr misskiptingu auðs sem hafði lengi einkennt Brasilíu og meðallaun fátæks fólks hækkuðu um átta prósent á áratugnum.[4]
Árið 2005 var stjórn Lula sökuð um umfangsmikla spillingu í Mensalão-hneykslinu svokallaða þegar Roberto Jefferson, fyrrum félagi í Verkamannaflokki forsetans, skýrði frá því að flokkurinn hefði mútað ýmsum þingmönnum með mánaðarlegum greiðslum upp á um 30.000 ríal til að styðja frumvörp stjórnarinnar. Jefferson upplýsti jafnframt að Marcos Valério, eigandi tveggja auglýsingafyrirtækja með góð tengsl við stjórnina, hefði verið eins konar fjármálastjóri flokksins og hefði dregið miklar fjárhæðir úr sjóðum ríkisfyrirtækja í hans þágu. Lula neitaði því að hafa vitað af spillingunni og brást við með því að stokka upp í stjórn sinni og reka fjölda áhrifamanna úr Verkamannaflokknum.[13]
Mensalão-hneykslið og önnur spillingarmál grófu nokkuð undan trausti almennings á Lula í aðdraganda forsetakosninga sem haldnar voru árið 2006 en vinsældir hans voru engu að síður áfram miklar.[14] Lula vann öruggan sigur í seinni umferð forsetakosninganna í október 2006 með um sextíu prósentum atkvæða, en vann þó ekki þann yfirburðasigur sem honum hafði verið spáð áður en upplýst var um spillingarhneysklin.[15]
Lula gegndi forsetaembættinu til loka seinna kjörtímabils síns, sem lauk þann 1. janúar 2011. Við honum tók starfsmannastjóri hans og flokkssystir, Dilma Rousseff, en þá hafði Lula sett sitt mark á brasilísk stjórnmál.
Ferill frá 2011 til 2023
Í október 2011 greindist Lula, sem hafði verið reykingamaður í 40 ár[16] með hálskrabbamein og hóf efnameðferð. Hann hefur síðan þá náð fullum bata.[17]
Snemma árs 2016 var Lula útnefndur starfsmannastjóri Rousseff forseta en Gilmar Mendes hæstaréttardómari beitti neitunarvaldi gegn útnefningunni vegna rannsókna á hugsanlegum ríkisglæpum sem þá stóðu yfir.[18][19] Í Brasilíu er embætti starfsmannastjóra ríkisstjórnarembætti sem er aðeins hægt að rétta yfir í sérstökum landsdómi. Þann 12. júlí 2017 var Lula sakfelldur fyrir peningaþvætti og fyrir að þiggja mútur. Hann var dæmdur í níu ára og sex mánaða fangelsi af Sergio Moro dómara.[20][21]
Dómur Moros gegn Lula var staðfestur af brasilískum alríkisdómstól þann 24. janúar 2018.[22] Vegna dómsins gat Lula ekki boðið sig fram til forseta á ný í forsetakosningunum 2018 líkt og hann hafði ætlað sér.[23][24] Í apríl gaf Lula sig fram til lögreglu til þess að hefja 12 ára fangelsisvist.[25]
Lula var sleppt úr fangelsi þann 8. nóvember árið 2019 eftir að hæstiréttur Brasilíu ályktaði að aðeins væri leyfilegt að fangelsa fólk eftir að allir möguleikar til áfrýjunar hefðu verið nýttir.[26] Í mars árið 2021 var dómurinn gegn Lula ógiltur af hæstaréttardómaranum Edson Fachin á þeim grundvelli að yfirvöld í borginni Curitiba hefðu ekki haft rétt til að sækja málin eins og gert var, heldur hefði átt að sækja málin til alríkisdómstóls í höfuðborginni Brasilíu.[27] Fullskipaður hæstiréttur landsins staðfesti dóm Fachins þann 16. apríl 2021. Þetta gerði Lula kleift að bjóða sig fram til opinbers embættis á ný.[28]
Í frekari umfjöllun Hæstaréttarins um upphaflega fangelsisdóminn gegn Lula var komist að þeirri niðurstöðu að Sergio Moro dómari hefði verið hlutdrægur í hans garð. Eftir að Moro dæmdi Lula í fangelsi varð hann um skeið dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jairs Bolsonaro, pólitísks andstæðings Lula.[29][30]
Endurkoma í forsetaembætti (2023–)
Árið 2022 ákvað Lula að bjóða sig fram í forsetakosningunum um haustið.[31] Lula vann nauman sigur gegn sitjandi forsetanum Jair Bolsonaro í annarri umferð forsetakosninganna þann 30. október, með um 50,83 prósent atkvæða gegn 49,17 prósentum Bolsonaro.[32] Lula tók við forsetaembætti á ný þann 1. janúar 2023.[33]
Um viku eftir að Lula sneri aftur á forsetastól gerði æstur múgur stuðningsmanna Bolsonaro árás á þinghúsið, forsetahöllina og hæstaréttinn í höfuðborginni Brasilíu. Um var að ræða fjölda stuðningsmanna Bolsonaro sem neituðu að viðurkenna sigur Lula da Silva í forsetakosningunum og vændu hann um kosningasvindl. Lögregla náði stjórn á byggingunum síðar um daginn og Lula hét því að þeir sem ættu hlut að máli, sem hann kallaði „skemmdarvarga og fasista,“ yrðu dregnir til ábyrgðar.[34]
Á fyrsta árinu eftir endurkomu Lula á forsetastól dróst skógareyðing í Amasónfrumskóginum saman um sextíu prósent. Skógareyðing frumskógarins hafði aukist gríðarlega á stjórnartíð Bolsonaros en stjórn Lula hefur í auknum mæli beitt viðurlögum gegn landtöku, beitt herafli til að stöðva ólöglega námuvinnslu, afmarkað stærri landsvæði sem yfirráðasvæði frumbyggja og opnað ný verndarsvæði.[35]
Tilvísanir
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (19. maí 2022). „Gerði hlé á kosningabaráttu til að ganga í hjónaband“. RÚV. Sótt 10. ágúst 2023.
- ↑ Alexei Barrionuevo (26. ágúst 2012). „Luiz Inácio Lula da Silva“ (enska). The New York Times. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Luiz Inácio Lula da Silva“ (portúgalska). Biblioteca da Presidência da República. Sótt 31. október 2017.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Helgi Hrafn Guðmundsson (28. ágúst 2010). „Brasilíumenn kjósa nýjan forseta“. Dagblaðið Vísir. bls. 24-25.
- ↑ „Horft í aðra átt“. Þjóðviljinn. 11. apríl 1982. bls. 5.
- ↑ Magnús Torfi Ólafsson (4. júlí 1980). „Páfi heimsækir kirkju í bandalagi við verkalýð gegn ríkisvaldi“. Helgarpósturinn. bls. 23.
- ↑ Kjartan Jónasson (10. apríl 1981). „„Walesa er frjálsari en Lula"“. Tíminn. bls. 6.
- ↑ Elizabeth 'Liz' Throssell (30. september 2010). „Lula's legacy for Brazil's next president“ (enska). BBC News. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Lula leaves office as Brazil's 'most popular' president“. BBC News. 2010. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „'The Most Popular Politician on Earth'“ (enska). Newsweek. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. desember 2010. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Lula's last lap“. The Economist. 8. janúar 2009. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Hemispheres“ (PDF) (enska). Tufts. 2004. Sótt 31. október 2017.
- ↑ Sveinn Sigurðsson (25. ágúst 2005). „Ekki siðbót, heldur ósvífin spilling“. Morgunblaðið. bls. 15.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (10. október 2006). „„Þeir hafa ef til vill lesið meira en ég"“. Morgunblaðið. bls. 16-17.
- ↑ „Forseti Brasilíu fékk ekki hreinan meirihluta í kosningum“. mbl.is. 2. október 2006. Sótt 12. janúar 2023.
- ↑ Rory Carroll (10. mars 2010). „Lula stubs out smoking habit“ (enska). The Guardian. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Brazil ex-President Lula diagnosed with throat cancer“ (enska). British Broadcasting Corporation. 29. október 2011. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Brazil judge blocks Lula appointment to government“. British Broadcasting Corporation. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Justice Gilmar Mendes suspends Lula's nomination as Chief of Staff“ (portúgalska). Correio Braziliense. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Lula é condenado a nove anos de prisão“ (portúgalska). Veja. 12. júlí 2017. Sótt 31. október 2017.
- ↑ „Brazil's Former President Found Guilty Of Corruption“. Huffington Post. 2017. Sótt 31. október 2017.
- ↑ Simone Preissler Iglesias og Bruce Douglas (24. janúar 2018). „Lula's Hopes of a Comeback Crushed By Unanimous Court Ruling“. Bloomberg News.
- ↑ „Moro explica por que Lula não será preso (por ora)“.
- ↑ „Brecha na lei da ficha limpa pode beneficiar Lula na eleicao de 2018“ (portúgalska). Folha de S.Paulo.
- ↑ „Lula gaf sig fram við lögreglu“. Vísir. 8. apríl 2018.
- ↑ „Brazil's former president Lula walks free from prison after supreme court ruling“ (enska). The Guardian. 8. nóvember 2019. Sótt 8. nóvember 2019.
- ↑ Atli Ísleifsson (9. mars 2021). „Ógildir dóm yfir Lula sem gerir honum kleift að bjóða sig fram á ný“. Vísir. Sótt 9. mars 2021.
- ↑ Ævar Örn Jósepsson (16. apríl 2021). „Hæstiréttur staðfesti ógildingu dóms yfir Lula“. RÚV. Sótt 12. janúar 2023.
- ↑ Sunna Ósk Logadóttir (31. október 2022). „Úr fangaklefa í forsetastól“. Kjarninn. Sótt 12. janúar 2023.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (16. ágúst 2022). „Kosningabaráttan í Brasilíu hefst formlega í dag“. RÚV. Sótt 12. janúar 2023.
- ↑ Brazil's Lula launches presidential campaign BBC, sótt 8. maí 2022
- ↑ „Lula nýr forseti Brasilíu eftir hnífjafna kosningu“. mbl.is. 30. október 2022. Sótt 30. október 2022.
- ↑ „Lula tekinn við í Brasilíu“. mbl.is. 1. janúar 2023. Sótt 1. janúar 2023.
- ↑ Gunnar Reynir Valþórsson (9. janúar 2023). „Þjóðarleiðtogar fordæma atburðina í Brasilíu“. Vísir. Sótt 9. janúar 2023.
- ↑ Haukur Már Helgason (3. ágúst 2023). „Eyðing Amazon-skógar Brasilíu dvínar um 60% milli ára“. Samstöðin. Sótt 7. ágúst 2023.
Fyrirrennari: Fernando Henrique |
|
Eftirmaður: Dilma Rousseff | |||
Fyrirrennari: Jair Bolsonaro |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |