Norræn tungumál
Norræn eða norðurgermönsk tungumál eru indóevrópsk tungumál sem aðallega eru töluð á Norðurlöndum. Þau tilheyra flokki germanskra tungumála.
Málsögulega eru norrænu málin yfirleitt flokkuð í tvo hópa:
- Austurnorræn tungumál sem eru danska og sænska.
- Vesturnorræn tungumál sem eru norska, færeyska og íslenska, ásamt útdauðu málunum norn, sem talað var nyrst á Bretlandseyjum fram á 18. öld, og grænlandsnorrænu, sem töluð var fram á 15. öld í byggðum norrænna manna á Grænlandi.
Taka skal fram að ýmsar svæðis- og stéttarmállýskur í Noregi, þar með talið bókmálið og ríkismálið hafa talist bæði til vestur- og austurnorrænna mála. Í héruðunum Bohuslän og Jamtlandi, sem tilheyrt hafa Svíþjóð síðan á 17. öld, finnast einnig mállýskur sem náskyldar eru norsku.
Einnig hafa norrænu málin flokkast í suður- norðurnorræn mál:
- Suðurnorræn tungumál sem eru danska ásamt suðursænskum mállýskum, sem einnig hafa verið nefndar austurdanskar mállýskur. Þær eru talaðar í Hallandi, á Skáni, í Blekinge og á Borgundarhólmi.
- Norðurnorræn tungumál sem eru öll önnur norræn mál.
Þriðja skilgreiningin flokkar norrænu málin í meginlands- og eyjamál:
- Norræn meginlandsmál sem eru danska, norska og sænska.
- Norræn eyjamál sem eru íslenska og færeyska, ásamt útdauðu málunum norn og grænlandsnorrænu.
Frekari fróðleikur
- Oskar Bandle (ed.), The Nordic Languages: An International Handbook of the History of the North Germanic Languages, Berlin 2005, ISBN 3-11-017149-X.
- Harald Hammarström, Robert Forkel and Martin Haspelmath (eds.), North Germanic, Jena 2017.
- Jóhannes Gísli Jónsson and Thórhallur Eythórsson, Variation in subject case marking in Insular Scandinavian, Nordic Journal of Liguistics, 28 (2005), 223–245.
- Iben Stampe Sletten, Norðurlandamálin með rótum og fótum, København, 2005.