Optimist

Optimist-keppni á Großen Brombachsee í Þýskalandi.

Optimist (eða optimist-kæna en einnig nefnd bjartsýnisjulla eða bjartsýnisskúta) er lítil ferköntuð opin kæna (julla) með eitt spritsegl sem er hönnuð sem kennslu- og skemmtiskúta fyrir börn. Optimist-kænan var upphaflega hönnuð af bandaríska skútuhönnuðinum Clark Mills árið 1947 og varð fljótlega vinsæl í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum. Núna er Optimist ein vinsælasta kæna heims með 132 þúsund skráða báta og væntanlega marga óskráða. Áður fyrr var algengast að smíða kænuna heima fyrir úr borðum eða krossviði, enda miðaðist hönnun hennar við það, en nú til dags eru fjöldaframleiddar Optimist-kænur úr trefjaplasti algengastar. Hönnunin var stöðluð árið 1960 og gerðin varð einsleit 1995.

Optimist-kænan er ferköntuð með flötu stefni og nánast flötum botni. Hún er með fellikjöl í miðjunni og mastrið kemur nánast upp úr stefninu að framan svo pláss sé fyrir siglingamanninn að aftan. Hún er 2,3 metra löng og vegur aðeins 35 kíló tóm.

Optimist er viðurkennd alþjóðleg keppnisgerð af Alþjóða siglingasambandinu.

Tenglar