Pétur mikli
| ||||
Pétur 1.
| ||||
Ríkisár | 7. maí 1682 – 8. febrúar 1725 | |||
Skírnarnafn | Pjotr Aleksejevítsj Romanov | |||
Fæddur | 9. júní 1672 | |||
Moskvu, Rússlandi | ||||
Dáinn | 8. febrúar 1725 (52 ára) | |||
Sankti Pétursborg, Rússlandi | ||||
Gröf | Dómkirkja Péturs og Páls, Sankti Pétursborg, Rússlandi | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Alexis Rússakeisari | |||
Móðir | Natalja Naryshkína | |||
Keisaraynja | Katrín | |||
Börn | 14, þ. á m. Elísabet |
Pétur 1. Rússakeisari eða Pétur mikli (rússneska: Пётр I Алексеевич, umrit. Pjotr I Aleksejevítsj; 9. júní 1672 – 8. febrúar 1725) ríkti yfir Rússlandi frá 7. maí 1682 til dauðadags. Fyrir 1696 var hann meðstjórnandi veiks hálfbróður síns, Ívans 5., undir forsjá hálfsystur sinnar Soffíu Alexejevnu. Hann reyndi að Evrópuvæða Rússland og með því að hefja útþenslustefnu til suðurs og vesturs tókst honum að gera Rússland að evrópsku stórveldi. Í Norðurlandaófriðnum mikla náði hann að sigra Svía, fá aðgang að Eystrasalti og stofna borgina Sankti Pétursborg á Kirjálaeiðinu sem hann hugðist gera að höfuðborg.
Æviágrip
Pétur mikli var sonur Alexis Rómanov Rússakeisara af seinna hjónabandi hans og barnabarn Mikaels, fyrsta keisara Rússlands af Rómanovættinni. Pétur erfði keisaratignina árið 1681 ásamt bróður sínum, Ívani. Ívan var þroskahamlaður og því stýrði systir þeirra, Soffía Alexejevna, sem ríkisstjóri í þeirra nafni á meðan Pétur var í námi. Pétur tók öll völd í sínar hendur árið 1689 og lét senda Soffíu í klaustur. Á námsárum sínum hafði Pétur orðið fyrir miklum áhrifum frá Vestur-Evrópu og þegar hann tók við ríki sínu fannst honum það vanþróað og gamaldags. Hann einsetti sér því að koma á umbótum til að nútímavæða Rússland og færa það nær hinum Evrópuveldunum.[1]
Rússneska þjóðskáldið Alexander Púshkín komst seinna svo að orði að Pétur hefði „höggvið upp á gátt glugga til vesturs“ með umbótastefnu sinni við stjórn Rússaveldis.[2] Árið 1697 hélt Pétur í leynilega för til Amsterdam til þess að læra skipasmíði. Hann dvaldi í Hollandi í fjóra mánuði og reyndi að stjórna Rússlandi á sama tíma með því að senda bréf til Moskvu. Á meðan Pétur dvaldi í Amsterdam sótti hann jafnframt fyrirlestra í líffræði og læknisfræði hjá líffærafræðingnum Frederik Ruysch. Að lokinni dvöl sinni í Hollandi heimsótti Pétur England til að kynna sér enska skipasmíði og dvaldi þar í boði Vilhjálms af Óraníu.[3] Þegar Pétur bjóst til brottfarar frá Englandi hafði hann ráðið sér sextíu sérfræðinga til þess að vinna ýmis störf við framþróun heima í Rússlandi.[4]
Umbótaherferð Péturs
Pétur reyndi að efla rússneska herinn með því að ráða til sín erlenda liðsforingja og efldi jafnframt málmvinnslu og vopnasmíði í Rússlandi. Hann sendi marga unga karlmenn til Vesturlanda til þess að nema fræði sem áttu að nýtast í hernaði og í borgasmíð, auk þess sem Pétur stofnaði skóla til að þjálfa herforingja, fallbyssuskyttur og stýrimenn.[2]
Pétur stóð jafnframt fyrir róttækum samfélagslegum breytingum innan Rússlands og gekk mjög hart fram til þess að fá þeim framgegnt. Pétur setti háa skatta til að fjármagna styrjaldir og framkvæmdir sínar og kom á herskyldu sem entist í 25 ár. Hann festi jafnframt bændaánauð í sessi þannig að bændur urðu formlega eign aðalsmanna.[5] Þá beitti Pétur sér gegn rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og reyndi að beygja hana undir vilja ríkisins, meðal annars með því að leggja niður patríarkið í Moskvu og skylda presta til að tilkynna yfirvöldum ef þeir urðu þess áskynja að einhver hallmælti keisaranum í skriftastól.[6]
Pétur gekk svo langt að reyna að breyta ásýnd rússnesku aðalstéttarinnar með því að setja lög sem bönnuðu sonum aðalsmanna að kvænast fyrr en þeir gátu sannað að þeir væru læsir og skrifandi. Þá neyddi hann aðalsfólk til að klæðast vestrænum tískufötum og reyndi að uppræta skeggtísku meðal rússneskra karlmanna. Pétur setti sérstakan „skeggskatt“ til að fá rússneska karla til að raka af sér alskeggin og frægt er að hann rakaði með eigin hendi skegg af hirðmönnum sínum.[2][7]
Ofríki og róttækni Péturs gerðu hann að umdeildum stjórnenda og rússneskir hefðarsinnar hafa ætíð haft horn í síðu hans og efast um ágæti umbóta hans. Margir rússneskir bændur sannfærðust blátt áfram um að andkristur væri sestur á keisarastól í Rússlandi. Aleksandr Solzhenítsyn sagði síðar um Pétur að hann hefði „troðið undir fótum trú fólksins, sál og siði.“[6]
Herfarir Péturs
Svíar réðu á þessum tíma yfir Eystrasaltinu og Pétur lenti snemma á valdatíð sinni í deilum við þá um áhrif í þessum heimshluta.[4] Stríð Rússa og Svía um yfirráð í norðurhluta Evrópu kallast Norðurlandaófriðurinn mikli. Pétur bað ósigur gegn Karli 12. Svíakonungi í orrustunni við Narva árið 1700 en í stað þess að fylgja sigrinum gegn Rússum eftir fór Karl að herja gegn Ágústi sterka Póllandskonungi. Á meðan Karl barðist gegn Pólverjum styrkti Pétur stöðu sína á Kirjálaeiðinu og hóf að byggja Sankti Pétursborg á Kirjálaeiðinu árið 1703 í því skyni að opna „glugga inn í Evrópu.“[4][8]
Vorið 1708 gerði Karl innrás í Rússland til að uppræta rússnesk áhrif í Eystrasalti. Karl vonaðist eftir aðstoð kósakka sem stóðu í uppreisn gegn Pétri en rússneska hernum tókst að vinna bug á höfuðsmanni kósakka, Ívan Mazepa, áður en her Karls náði til hans.[8] Pétur vann síðan úrslitasigur gegn Karli í orrustunni við Poltava árið 1709 og innsiglaði þannig yfirráð Rússa í finnsku Kirjálahéruðunum Ingermanlandi og Líflandi.[4]
Á meðal þeirra sem Pétur tók til fanga í herförum sínum um Lífland var líflensk bóndadóttir að nafni Katarína Skavronskaja. Pétur varð ástfanginn að henni og var fljótur að kvænast henni í stað kvonfangsins sem móðir hans hafði úthlutað honum þegar hann var sautján ára. Katrín varð keisaraynja Péturs og átti eftir að hafa mikil áhrif á stjórn hans.[4]
Pétur gerði Sankti Pétursborg formlega að nýrri höfuðborg Rússlands í stað Moskvu árið 1713. Hann reyndi að laða þangað erlenda kaupsýslumenn og lét byggja þar upp nýjan rússneskan Eystrasaltsflota. Hann lét jafnframt flytja stærðfræði- og siglingastofnanir til Pétursborgar frá Moskvu og stofnaði með þeim rússnesku Flotaakademíuna.[4] Pétur hafði látið byggja Sankti Pétursborg með miklu offorsi, meðal annars með því að neyða þúsundir fjölskyldna til að flytja þangað og þvinga hverja þeirra til að reisa hús af tiltekinni stærð eftir efnahag þeirra.[9]
Á sama tíma og Pétur barðist gegn Svíum átti hann í stríðum gegn Tyrkjaveldi í suðri. Í Prutstríðinu gegn Tyrkjum árin 1710-11 létu Rússar í minni pokann og urðu að hörfa frá Azov-virkinu við Svartahaf.[4]
Tilvísanir
- ↑ „Borg Péturs mikla“. Dagblaðið Vísir. 21. júní 2003. bls. 20-21.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Árni Bergmann (2004). Rússland og Rússar. Reykjavík: Mál og menning. bls. 33. ISBN 9979-3-2402-3.
- ↑ „Þegar Rússakeisari gerðist iðnlærlingur á Vesturlöndum“. Tíminn. 23. janúar 1983. bls. 4-5.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 „Pétur mikli“. Morgunblaðið. 19. júlí 1987. bls. 36-37.
- ↑ Rússland og Rússar. bls. 34.
- ↑ 6,0 6,1 Rússland og Rússar. bls. 36.
- ↑ „Pjetur mikli og hin rússneska þjóðarsál“. Lesbók Morgunblaðsins. 14. febrúar 1937. bls. 41-42.
- ↑ 8,0 8,1 „Karl XII“. Unga Ísland. 1. júní 1924. bls. 41-44.
- ↑ Rússland og Rússar. bls. 35.
Fyrirrennari: Fjodor 3. |
|
Eftirmaður: Katrín 1. |