Pýramídinn mikli í Gísa

29°58′41″N 31°07′53″A / 29.97806°N 31.13139°A / 29.97806; 31.13139

19.aldar ljósmynd

Pýramídinn mikli í Gísa er pýramídi í Gísa í Egyptalandi. Hann er hið elsta af sjö undrum veraldar og jafnframt það eina þeirra sem enn stendur. Þótt oft sé talað um alla þrjá pýramídana á Giza-svæðinu sem hluta af heimsundrunum sjö, er það samt aðeins sá stærsti sem telst til þeirra. Hann er ekki aðeins stærstur þeirra, heldur líka elstur. Hann er talinn vera frá 2580 f.Kr. og á að hafa verið um 20 ár í byggingu. Hann var stærsta mannvirki heims í meira en 40 aldir. Hann er byggður úr kalksteini með fínpússuðu yfirborðslagi, sem er þó að langmestu leyti horfið í dag.

Talið er þrjár kynslóðir faraóa af fjórðu konungsættinni hafi reist pýramídana, en veldistími þeirrar ættar er jafnan talinn gullöld Egyptalands til forna. Faraóarnir þrír hétu Khufu, Khafre og Menkaure. Khufu-pýramídinn er því nefndur eftir egypska faraóinum Khufu og er almennt talinn vera gröf hans.

Mannvirkið

Pýramídinn mikli

Pýramídinn mikli stendur á Gísa-sléttunni, sem er núna í úthverfi Kaíró-borgar. Hann er 137 m á hæð í dag en var upphaflega 146 m. Ástæðan fyrir þessum mismun er sú að það vantar toppsteininn (gríska: pyramidion) ofan á hann en einnig hefur hann veðrast í gegnum árin. Hver grunnlína er 233 m, svo flatarmálið er 54.289 m² en rúmmál hans er um 2,5 milljón m³. Pýramídinn er talinn vega um 6 milljón tonn, þótt erfitt sé að gera sér fullkomlega grein fyrir þyngd hans. Mannvirkið er talið byggt úr ca. 2,5 milljón kalksteinblokka sem vega að meðaltali um 2,5 tonn en steinarnir eru misstórir og minnka eftir því sem ofar dregur. Kalksteinarnir sem mynda burðarvirki pýramídans voru fengnir í næsta nágrenni við Gísa og einnig frá Gísasléttunni sjálfri. Þyngstu steinarnir í pýramídanum eru granítsteinar sem koma frá námu í Aswan sem er um 870 kílómetra frá Gísa. Þessir steinar eru taldir vega allt að 80 tonnum og eru staðsettir efst innan í pýramídanum; sem þak svokallaðs Konungsherbergi og í miklu og dularfullu fimm hæða mannvirki sem staðsett er fyrir ofan Konungsherbergið og er stundum talið hafa þann tilgang að dreifa þyngd. Ekki eru allir fræðimenn sammála um það. Hvíti kalksteinninn sem myndaði ysta lag pýramídans hefur lengi verið talin koma frá Turanámunum, sem eru austan megin við Nílarfljót. Vísindarannsóknir hafa samt ekki getað staðfest þetta. Einnig má finna mjólkurstein (enska: alabaster) og basaltsteina í pýramídanum.

Í dag telja fræðimenn að líklega hafi bygging pýramídans tekið um 14-20 ár og að henni hafi unnið u.þ.b. 30.000–50.000 frjálsir verkamenn á launum, en ekki þrælar eins og lengi var talið. Í upphafi var pýramídinn klæddur sléttum og slípuðum hvítum kalksteini, en í dag er svo til ekkert eftir af þeirri klæðningu. Talið er að þessi klæðning hafi verið svo vel pússuð að pýramídinn hafi glansað í sólskini. Einnig hefur hann þá glitrað í tunglskininu, sem hefur eflaust hjálpað mörgum villtum ferðalangi í eyðimörkinni. Helsta ástæða þess að klæðninguna vantar í dag er mikill jarðskjálfti sem varð árið 1301 e.Kr. en þá hrundi megnið af henni utan af pýramídanum. Þaðan tíndi fólk upp blokkirnar og notaði í byggingar í kring, sem enn má sjá í dag. Því er það í raun óvarið burðarvirkið sem við sjáum.

Hæsta bygging heims

Pýramídinn mikli var talinn stærsta bygging heims í yfir 40 aldir, það var ekki fyrr en á 19. öld sem honum var ýtt úr fyrsta sætinu. Árið 1300 var lokið við byggingu turnsins á Lincoln Cathedral í Englandi. Hann var 160 m hár og hrifsaði þá efsta sætið af Pýramídanum. En árið 1549 hrundi þessi turn í óveðri og endurheimti þá Pýramídinn fyrsta sætið. Eftir þetta voru nokkar byggingar og turnar reist sem voru svipuð á hæð og Pýramídinn, flestar í kringum 150 m. Það var svo ekki fyrr en Eiffelturninn reis árið 1889 að hann varð óumdeilanlega hæsta bygging heims, en hann er 300 m.

Verkvit

Alls kyns mál

Mikið verkvit liggur að baki byggingar Khufu-pýramídans. Jafnvel í dag væri erfitt að endurtaka slíkt nákvæmnisverk. Byggingin snýr nákvæmlega í höfuðáttirnar fjórar, svo aðeins skeika um 3 mínútur frá hánorðri. Grunnlínurnar hliðanna eru svo til jafnar á allar hliðar, þó er um 19 cm skekkja á milli lengstu og stystu grunnlínanna. Einnig eru réttu hornin á grunnfletinum nákvæm, eitt er aðeins tvær sekúndur úr gráðu frá fullkomnu 90° horni. Efsti punktur Pýramídans er beint yfir miðpunkti grunnflatarins.

Grunnflöturinn

Ein merkileg en fremur lítt þekkt staðreynd um grunnflöt Pýramídans er sú að hann er ekki fullkominn ferningur. Í rauninni er hann fjögurra horna stjarna, þar sem hver lína gengur örlítið að sér í miðjunni. Þetta er svo lítið að ómögulegt er að sjá það með berum augum, það er aðeins hægt úr lofti og á ákveðnum tíma dags. Þetta var því ekki uppgötvað fyrr en árið 1940, en fræg ljósmynd tekin úr lofti sýnir hvernig skuggamynd Pýramídans ljóstrar þessu upp.

Notkun pí

Greinileg stærðfræðikunnátta er líka til staðar við nánari skoðun á Pýramídanum. Sem dæmi virðast hönnuðir Pýramídans hafa þekkt „“ (π = 3.1416). Ummál grunnflatar mannvirkisins er jafnlangt ummáli hrings sem hefur sama radíus og hæð Pýramídans. Það er að segja, 2 x pí x hæð = ummál grunnflatar. Einnig er mögulegt að segja að tvöföld grunnlína hans deilt með hæðinni jafngildi pí. Ólíklegt þykir að pí hafi fyrir tilviljun gengið upp í hlutföllin milli þessara miklu stærða (þ.e. lengdar og hæðar), svo líklegt þykir að þeir hafi þekkt hlutfallið.

Smíði pýramídans

Beinar skábrautir
Hlykkjandi skábrautir

Helstu tilgátur fræðimanna ganga út á að við byggingu pýramídanna hafi skábrautir verið notaðar til að flytja blokkirnar upp og brautin stækkuð eftir því sem verkinu miðaði áfram. Nærtækasta efnið í þær væri sandur og mögulega var einhver vökvi, t.d. vatn eða mjólk, notaður til að smyrja yfirborðið svo auðveldara væri að draga steinblokkirnar. Tvær megintilgátur eru uppi hvað varðar lögun skábrautanna. Annars vegar væri hægt að hafa beina skábraut á einni hliðinni. Hins vegar væri mögulegt að láta skábrautina hlykkjast meðfram pýramídanum.

Þó nokkrir hnökrar eru samt á þessum kenningum. Gallinn við hlykkjóttar skábrautir er að ekki hefði verið mögulegt að ljúka við allan Pýramídann á þann hátt. Fræðimenn ímynda sér því að vogarstangir af einhverju tagi hafi verið notaðar við efsta hlutann. Hins vegar hefði verið mögulegt að ljúka við Pýramídann upp á topp með beinni skábraut. Rúmmál hennar hefði þó, við verklok, verið orðið um þrisvar sinnum meira (um 8 milljón m³) en rúmmál sjálfs Pýramídans (um 2,5 milljón m³), sem þykir draga úr sennileika tilgátunnar. Auk þess hafa engin ummerki um risavaxnar skábrautir af þessu tagi fundist, aðeins hafa verið grafnar upp mun minni brautir sem gætu aðeins hafa nýst við lítinn hluta uppbyggingarinnar.

Aðrar tilgátur

Þar sem hinar opinberu skýringar sagnfræðinga virðast ekki nógu sannfærandi fyrir suma, spretta aðrar tilgátur og tilraunir oft upp. Nýlega varpaði franski arkitektinn Jean-Pierre Houdin fram þeirri tilgátu að um að Pýramídinn væri að um 70 hundraðshlutum byggður innan frá, með eins konar innri skábraut. Með hjálp tölvutækni gat hann sýnt fram á að þetta væri í raun mögulegt. Einnig létu bandarískir loftaflsfræðingar reyna á tilgátu sína um að hægt væri að nýta vindorku til að flytja stóra steina á milli staða, gagnstætt hinni opinberri kenningu um að menn hefðu dregið þá. Með einfaldri svifdrekatækni tókst loftaflfræðingunum að reisa 4 tonna þunga broddsúlu (gríska: obelisk) upp á endann.

Innviðir pýramídans

Þverskurður

Veggirnir inni í Pýramídanum eru allir auðir og án áletrana, fyrir utan nokkra veggi nálægt Konungsherberginu, þar sem finna má nokkur hálfgerð klessuverk. En í Pýramídanum mikla, ólíkt öðrum pýramídum á svæðinu, eru mun fleiri göng og herbergi og einnig er gerð hans öll vandaðri. Gengið er inn í Pýramídann á norðurhliðinni. Inni í Pýramídanum eru þrír klefar, allir á lóðréttum ási, hver upp af öðrum. Sá neðsti er grafinn inn í berggrunninn sem Pýramídinn hvílir á en hann er ófrágenginn, þar hefur aðeins verið gróflega höggvið í steininn.

Steinkistan í Konungsherberginu.

Konungsklefinn

Hann er stærstur klefanna þriggja, 10,45 m langur, 5,20 m breiður og 5,80 m á hæð. Það er um það bil tvöfaldur teningur, líkt og einn teningur ofan á öðrum. Klefinn er talinn hafa átt að vera hinsti dvalarstaður konungs, en þar hafa aldrei fundist nokkur ummerki um lík né neitt annað sem tengist líksmurningum Forn-Egypta. Eina sem er og hefur fundist í Konungsklefanum er þó steinkista (gríska: sarcophagus). Hún er höggvin úr heilum granítsteini en furðulegt þykir að bæði gangurinn og hurðaropið inn í herbergið er smærra en umfang kistunnar. Stórt brot er á einu horni kistunnar og athygli vekur að kistan er ekki merkt né skreytt á neinn hátt. Því lítur út fyrir að konungurinn hafi aldrei verið grafinn þar. Leiðin inn í Konungsklefann er hins vegar mjög mikilfengleg, en hún liggur um mikinn gang, um 47 m langan og 8,48 m að hæð.

Drottningarklefinn

Hann er í miðjunni og minnstur klefanna, um 5,74 x 5,23 m að flatarmáli. Tilgangur klefans er enn hulinn, en ein tilgátan er þannig að þar hafi svokallað serbab verið, eins konar hilla þar sem styttu af hinum jarðsetta er stillt upp. Samt lítur út fyrir að klefinn hafi aldrei verið notaður, gólf hans var til dæmis ekki slípað og fleira ekki frágengið. Enn ein tilgátan um þennan klefa er sú að Forn-Egyptar hafi byrjað á þessum klefa en síðan einfaldlega hætt við og byggt heldur stærri klefa fyrir ofan, en þar er einmitt Konungsklefinn.

Göng

Nokkur mjög mjó og löng göng liggja út úr bæði Drottningar- og Konungsklefanum. Þau beinast að stjörnum en Forn-Egyptar voru miklir stjörnuáhugamenn. Suðurgöngin frá Konungsklefanum benda beint á belti Óríons, þar sem það hefur verið á tímum Forn-Egypta. Suðurgöng Drottningarklefans benda svo á Síríus, sem er skærasta stjarnan á norðurhimninum og í stjörnumerkinu Canis Major eða Stóra-Hundi. Norðurgöng Konungsklefans benda beint á stjörnuna Túban í Drekamerkinu, sem er rétt hjá Pólstjörnunni. En norðurgöng Drottningarklefans benda einmitt á pólhverfustjörnurnar, til dæmis pólstjörnuna í Ursa Minor eða Litla-Birni.

Samt þykja þessi göng enn mjög dularfull, þar sem tilgangur þeirra er ekki ljós. Vitað er að Forn-Egyptar trúðu því að guðirnir byggju á himninum, svo sú staðreynd að göngin beinast að skærum stjörnum gæti vel tengst þeim. Sumir telja að þetta hafi átt að hjálpa nýlátnum sálum að rata til himinsins.

Tengt efni

Heimildir