Ramí

Ramí

Vísindaleg flokkun
Ríki: Plönturíki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Rósabálkur (Rosales)
Ætt: Netluætt (Urticaceae)
Ættkvísl: Boehmeria
Tegund:
nivea

Ramí eða kínagras (fræðiheiti: Boehmeria nivea) er blómjurt af netluætt (Urticaceae), ættuð frá Austur-Asíu. Ramí er fjölær jurt sem verður 1-2.5 m að hæð. Blöðin er hjartalaga 6-12 sm breið og hvít á neðra borði.

Ræktun

Heimsframleiðsla á ramítrefjum

Úr ramí hafa í meira en 6000 ár verið unnar jurtatrefjar til fatagerðar. Basttrefjar úr jurtinni eru unnar úr innri hluta barkar. Ramí uppskera er vanalega þrisvar á ári. Stönglar eru klipptir þegar þeir eru um 2 m háir, öll laufblöð skorin af og basttrefjarnar flysjaðar af með sérstökum hnífum og síðan látnar þorna. Fá má af einum hektara lands um 3.4 til 4.5 tonn af þurrkuðum stilkum. Það verður svo eftir vinnslu að um 1.2 tonnum af bastrefjum. Vinnsla á stilkunum fer þannig fram að fyrst er ytri börkurinn fjarlægður. Síðan er innri börkurinn skrapaður af með sérstökum hnífum og trefjarnar þvegnar og þurrkaðar og baðaðar í sterkju til að vinna það efni sem spunnið er úr.

Saga

Ramí hefur frá fornu fari verið ræktað í Kína og bændur nýtt trefjarnar til að vefa fatnað. Ramí hefur hugsanlega verið notað til að vefja inn egypskar múmíur. Það er erfitt að greina hvort um hör eða ramí er að ræða í klæði sem finnst í fornminjum en þar sem ramí er bakteríuhamlandi þá er líklegt að það hafi þótt heppilegt í múmíuvafninga.

Ramí var notað í fatnað sem hentaði heitu loftslagi. Ræktun á ramí hófst í Brasilíu kringum 1930 og náði hámarki um 1971 en hefur síðan dregist saman og aðrar tegundir eins og sojabaunir verið ræktaðar í staðinn og gerviefni notuð í vefnað.

Eiginleikar

Ramí er afar sterkt náttúrulegt trefjaefni. Það er jafnvel ennþá sterkara blautt en þurrt. Ramítrefjar hafa sérstaka eiginleika til að halda lögun sinni og vera slétt en ekki krumpað og ramí minnir á silki. Það er ekki eins endingarmikið og aðrar trefjar og er vanalega blandað öðrum trefjum eins og baðmull eða ull. Ramí hefur svipaða eiginleika og lín hvað varðar rakadrægni, þéttleika og efnisuppbyggingu. Ramí tekur ekki eins vel við lit og baðmull. Ramí efni er lítið teygjanlegt og getur brotnað ef það er brotið oft í sömu brot.