Sækýr

Sækýr
Sækýr
Sækýr
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Spendýr Mammalia
Ættbálkur: Sirenia
Ætt: Trichechidae
Gill, 1872
Ættkvísl: Trichechus
Linnaeus, 1758

Sækýr eða sænaut [1] er stórt sjávarspendýr af ættbálknum Sirenia en hann þróaðist út frá fjórfættum landspendýrum fyrir meira en 60 milljónum ára. Fullorðin sækýr mælist frá 2,5 til 4,5 metra á lengd og getur orðið allt að 700 kg.

Sækýr

Þessar sérkennilegu skepnur er oft kallaðar góðu eða ljúfu risarnir. Nafngiftin kemur af því hve stórar þessar skepnur geta orðið og hve friðsælar þær eru.

Talið er að sækýr hafi áður verið landdýr en gengið í sjóinn fyrir 60 miljón árum. Nánasti frændi þeirra á landi er fíllinn, húð þeirra er svipuð og hjá frændum þeirra fílunum, augu sækúa eru svipuð en þá er líka upptalið hvað er líkt með þeim. Sækýr eru með ljúfustu spendýrum. Sem dæmi um hve friðsamar þær eru er að þær synda alltaf í burtu frá vandræðum ef þess er kostur, þá er talið að sækýr eigi enga náttúrulega óvini. Til eru þrjár tegundir sækúa og eru þær allar í útrýmingarhættu. Þær eru Amazon-sækýrin, vestur-afríska sækýrin og vestur-indíska sækýrin sem aðallega verður fjallað um hér. Allar eru þær svipaðar í útliti og líkjast mest litlum kafbátum þegar þær láta sig líða gegnum vatnið. Meðalsækýr er rúmir þrír metrar á lengd og 450 kg. Þær geta þó orðið mun stærri eða allt upp í fimm metrar og 1600 kg. Kvendýrin eru yfirleitt stærri. Sækýr lifa í allt að 70 ár ef þær eru í góðu náttúrulegu umhverfi og 30 til 35 ár ef þær eru fangaðar.

Ýmsar sögur fara af því hvernig enskt heiti sækýrinnar, „manatee“, er til komið. Orðið kemur líklega frá Karíbum og þýðir „brjóst“ en sækýrin hefur afkvæmi sitt á spena eins og önnur spendýr. Íslenska heitið sækýr kemur væntanlega af því að þær eru stórar og eru lengi að melta gróðurinn sem þær éta, rétt eins og kýr. Latneska tegundarheitið manatus þýðir að hafa hendur, en sækýr eru þekktar fyrir að nota framhreifana til að slíta upp gróður, kroppa í bakka og snerta hvor aðra og hluti sem þær eru forvitnar um.

Lifnaðarhættir

Sækýr eiga enga þekkta óvini nema manninn, vegna þess hve hægt þær fara, en meðalsundhraði þeirra er 3-5 km á klukkustund. Þar sem þær sækja mest af fæðu sinni nálægt árbökkum og ströndum lenda þær oft í árekstrum við hraðbáta, sjóþotur og veiðarfæri manna. Sækýr hafa þykka grófa húð, stutta og breiða hreyfa og flatan breiðan sporð. Nasir þeirra lokast þegar þær kafa og lungu þeirra liggja langsum ólíkt öðurm spendýrum en það eykur jafnvægi þeirra í vatninu. Þær eru með marga vöðva sem umlykja lungun og gera að verkum að þær geta andað hraðar frá sér en önnur spendýr og því verið fljótar að fara í kaf aftur. Sækýr geta kafað í allt að 15 mínútur í einu en venjulega koma þær upp til að anda á 3-5 mínútna fresti. Sækýr hafa engin ytri eyru en innri eyru þeirra eru mjög vel þroskuð og þær heyra afar vel. Þær gefa frá sér margs konar hljóð og nota þau í samskiptum sín á milli, hver móðir hefur sérstakt hljóð fyrir sinn kálf og hver kálfur ákveðið hljóð fyrir sína móður. Þegar þær eru á sundi krækja þær oft saman höndum (hreifum). Sækýr eru mikið fyrir að snerta hver aðra og hjálpast að við að hreinsa hver annarri sníkjudýr og gróður sem festist á þeim. Þær eru félagslyndar en þurfa samt að hafa visst svigrúm útaf fyrir sig, þær ferðast stundum í hópum en líka einar, það er ekkert forystudýr og allir jafn réttháir í hópnum. Sækýr á öllum aldri leika sér og oft saman, þær eiga auðvelt með að læra og bregðast fljótt við nýjum áreitum.

Stofninn

Í Flórída eru taldar vera um 2000 sækýr en heimsstofninn af vestur-indískum sækúm er talinn vera 3000 dýr. Á veturna sækja þær upp í ár og uppsprettur þar sem vatnið er hlýrra, stundum sjást allt að 300 sækýr við sömu uppsprettuna.

Fengitími og afkvæmi

Sækýr fjölga sér hægt, kýr þarf að ná fimm til níu ára aldri til að verða kynþroska en tarfurinn verður ekki kynþroska fyrr en níu ára. Þegar kemur að fengitíma leika dýrin sér mikið saman, klóra hvert öðru á maganum, faðmast og kyssast, síðan skiljast leiðir og þrettán mánuðum seinna fæðist kálfurinn. Sækýr eiga oftast bara einn kálf í einu þó einstaka tvíburar fæðist. Kálfurinn er 25 til 39 kíló og 1,2 metrar við fæðingu, hann er á spena í allt að tvö ár og fylgir móður sinni enn lengur. Spenarnir eru fyrir aftan hreifana, kálfurinn stingur hausnum uppí „handarkrikann“ og drekkur í kafi. Þegar kálfurinn er mánaðargamall byrjar hann að narta í mjúkan gróður og þegar hann er um ársgamall er hann orðinn 1,8 metra langur og 300 kg. Kálfur fer aldrei langt frá móður sinni þessi fyrstu tvö ár, hann sefur undir hreifum hennar, ofan á baki eða jafnvel á sporði hennar, þau kallast á í sífellu, móðirin kennir kálfinum að velja þann gróður sem hann étur, hvar hann finni ferskt vatn til að drekka, leikur við hann og leggur jafnvel fyrir hann þrautir en hún skammar hann líka og stundum fær hann flengingu. Ef sækýr finnur kálfinn sinn í hættu syndir hún á milli kálfsins og hættunnar og síðan stýrir hún kálfinum frá hættunni.

Fæða og hirða

Sækýr eru að éta í allt að níu klukkutíma á dag. Fæðan er ýmis vatnagróður og laufblöð sem falla af trjám. Magi sækúnna er með sérstakar bakteríur sem auðvelda meltinguna en samt tekur það næstum sjö daga að melta. Fullorðin sækýr étur um 45 kíló af gróðri á dag. Þær hafa engar framtennur en byrja á því að merja matinn með hörðum gómunum og síðan tyggja þær með jöxlunum sem eru 24 til 32. Jaxlarnir eyðast og falla út en nýir koma upp í staðinn aftast og þrýsta tönnunum fram. Eftir hverja máltíð þrífa sækýr tennurnar ýmist með litlum steinvölum sem þær rúlla upp í sér og milli tannanna og spýta svo út úr sér eða með greinum sem þær jóðla á. Þær hafa líka sést nota kaðla, til dæmis í akkerisfestum báta sem tannþráð. Sækýr virðast mjög þrifnar og hjálpast að við að hreinsa hrúður, sníkjudýr og gróður hver af annarri.

Óvinurinn, maðurinn

Eins og fyrr segir er maðurinn eini óvinur sækýrinnar. Þar sem sækýr eru forvitnar og vingjarnlegar við manninn koma þær oft upp að þeim og bátum þeirra með þeim afleiðingum að þær lenda í skrúfublöðum og netum. Einnig leita þær að ferskvatni til að drekka hjá mannfólki sem lætur vatn renna í slöngum fyrir þær. Oft er allskonar dót þar í kring sem þær forvitnast um og jafnvel smakka á og veldur þeim svo tjóni eða dauða. Sett hafa verið lög til verndar sækúm í Flórída þar sem hraði báta og annarra sjófarartækja hefur verið takmarkaður, einnig eru ákveðnar reglur um hversu nálægt þeim megi synda.

Þjóðsögur um sækýr

Fyrir langa löngu voru sagnir meðal sjómanna um að þeir hefðu séð gullfallegar skepnur sitja á skerjum. Þegar þeir sigldu framhjá heyrðu þeir sérkennileg hljóð sem minntu á konur að syngja. Þegar þeir sáu síðan sporðinn héldu þeir að þetta væru hálfar konur og hálfir fiskar. Þeir kölluðu þær sírenur eða hafmeyjar. Íslenskar þjóðsögur hafa líka að geyma sagnir um sækýr, þær áttu að lifa í sjónum en villast stundum á land, í sögunum voru þessar sækýr eins og venjulegar kýr nema með blöðru yfir grönunum, ef tókst að sprengja blöðruna urðu kýrnar alveg eins og landkýr með þeirri undantekningu að þær voru alltaf gráar að lit og er sá litur enn kallaður sægrár. Einnig mjólkuðu þær betur en langaði alltaf í sjóinn aftur.

Tilvísanir

Tenglar