Sörkvir yngri Karlsson

Mynt sem Sörkvir yngri lét slá.

Sörkvir yngri Karlsson (116417. júlí 1210) var konungur Svíþjóðar frá 1196 þar til honum var steypt af stóli 1208.

Hann var af Sörkvisætt, sonur Karls Sörkvissonar, sem var konungur Svíþjóðar 1161-1167, og konu hans, Kristínar Stígsdóttur. Hann var aðeins þriggja ára þegar Knútur Eiríksson lét drepa föður hans og settist sjálfur í hásætið. Móðir hans fór þá með hann til ættingja sinna í Danmörku og þar ólst hann upp.

Þegar Knútur konungur dó 1196 var sömu sögu að segja, synir hans fjórir voru of ungir til að verða konungar og því sneri Sörkvir heim til Svíþjóðar og var kjörinn konungur með stuðningi jarlsins Birgis Brosa. Sörkvir hafði gifst danskri aðalsjómfrú sem hét Benedikta Ebbadóttir eða Bengta Hvide fyrir eða um 1190 og átti með henni að minnsta kosti þrjú börn. Hún var dáin fyrir árið 1200, því þá giftist Sörkvir Ingigerði dóttur Birgis Brosa.

Erfðadeilurnar milli Sörkvisættar og Eiríksættar náðu hámarki á valdatíma Sörkvis yngri. Birgir Brosa, sem hafði verið mjög áhrifamikill, dó 1202 og Sörkvir gerði ársgamlan son sinn, Jóhann, að jarli í hans stað. Það líkaði sonum Knúts Eiríkssonar, sem höfðu alist upp við hirð Sörkvis, illa. Þeir fóru að gera kröfu til ríkis og voru gerðir eða fóru í útlegð til Noregs. Þeir sneru aftur með herlið árið 1205 og nutu stuðnings Birkibeina. Sörkvir vann þó sigur á þeim og felldi þrjá þeirra en sá fjórði, Eiríkur, komst undan.

Eiríkur sneri svo aftur í ársbyrjun 1208 með norskan liðsauka og tókst að vinna sigur á her Sörkvis, sem stýrt var af Ebba Súnasyni, fyrrverandi tengdaföður hans, í orrustunni við Lena 31. janúar. Eiríkur hrakti Sörkvi í útlegð til Danmerkur og tók sér sjálfur konungsnafn.

Sörkvir hafði verið í góðu sambandi við páfastól og stuðlaði að auknum áhrifum páfa í Svíþjóð en Eiríksættin vildi auka sjálfstæði sænsku kirkjunnar. Sörkvir naut því stuðnings Innósentíusar 3. páfa, sem reyndi að beita áhrifum sínum til að koma honum aftur á konungsstól, en Svíar sinntu því engu, enda var Sörkvir oft álitinn danskur konungur. Árið 1210 gerði hann innrás í Svíþjóð með stuðningi Dana og freistaði þess að ná krúnunni að nýju en féll í orrustunni við Gestilren 17. júlí.

Fólki jarl, sonur Birgis Brosa, féll í orrustunni við hlið Sörkvis. Sonur hans, Súni, er sagður hafa rænt Helenu, dóttur Sörkvis af fyrra hjónabandi, eftir orrustuna og gifst henni. Dóttir þeirra var Katrín, kona Eiríks konungs smámælta og halta.

Heimildir


Fyrirrennari:
Knútur Eiríksson
Svíakonungur
(11961208)
Eftirmaður:
Eiríkur Knútsson