Sjávarfang

Jan van Kessel; Kyrralífsmynd með sjávarfangi.

Sjávarfang er allt það sem kemur úr sjónum og haft er til matar, hvort sem það er þari eða sjávardýr. Algengast er þó að nota orðið yfir fisk og skelfisk. Sjávarfang er mikilvæg uppspretta fæðu í mörgum samfélögum manna.

Þörungar sem sjávarfang

Stórþörungar

Stórþörungar (þari) eru rauð- eða brúnleitir þörungar sem eru notaðir í matvæli eða íblöndun í matvæli. Einnig eru þeir notaðir sem áburður fyrir gróður. [1]

Smásæir þörungar

Meðal smásærra þörunga eru grænþörungar og blágrænbakteríur (áður blágrænþörungar). Þessir þörungar eru notaðir í heilsuvörur eins og til dæmis fæðubótarefni, snyrtivörur, lyfjavirk efni og bætiefni í matvæli eða fóður. Spirulina eru blágrænbakteríur. Þeir eru næringarrík fæða og innihalda meira af æskilegum næringarefnum en nokkur önnur þekkt planta, korn eða jurt. Spirulina hjálpar til við að vernda ónæmiskerfið, lækka kólesteról og hjálpar til við að taka upp steinefni. [2]

Þörungar í framleiðslu

Þörungar sem þykkingarefni

Úr rauðþörungum (Gelidium og Gracilaria ættkvíslum) er unnið hleypiefnið agar fyrir sælgæti og önnur matvæli. Agar er einnig mikið notaður í rannsóknavörur eins og til dæmis örveruæti. Hreinsaða sykran agarósi er notuð til dæmis í rafdráttargel, frumuhjúpun og fleira. Þessi markaður er stöðugur þar sem framboð er nóg.

Brúnþörungar (Ascophyllum, Durvillaea, Ecklonia, Laminaria, Lessonia, Macrocystis) eru notaðir sem alginöt (algin) til að þykkja vatnslausnir þar sem þeir mynda stöðug hitaþolin gel með Ca++. Þeir eru til dæmis notaðir í textílprent (þykkja litalausnir), matvæli (sósur, drykki, krem, hlaup, kjötvörur), líftækni (immobilized cells), heilbrigðisiðnað (sáraumbúðir, lyfjahjúp), pappírsiðnað og fleira. Markaðurinn er mestur í textílprentun og þá aðallega í Asíu og Tyrklandi. [3]

Þörungar til manneldis

Það er aldagömul hefð í Japan, Kína og Kóreu að nýta þörunga til manneldis en þeir eru oft ríkir af steinefnum, snefilefnum og vítamínum. Sem dæmi um matvæli má nefna sushi, wasabi, nori, kombu.[4] Söl og marinkjarni eru vel þekkt fæða hérlendis.

Þörungar sem fæðubótarefni

Arthrospira eða spirulina eru notaðir sem uppbót fyrir vannærða. Einnig eru til gögn um það að þeir hafi veiruhemjandi og frumuhemjandi virkni en það er ekki enn fullrannsakað. [5]

Clorella sp eru grænþörungar og eru þeir ónæmisörvandi. [6]

Dunaliella sp eru einnig grænþörungar og innihalda litarefnið Beta-karotene sem er forveri A-vítamíns. [7]

Haematococcus pluvialis er líka grænþörungur en hann inniheldur litarefnið astaxanthin sem er notað í fiskafóður og er antioxidant.[8]

Nokkrar tegundir brúnþörunga hafa fjölsykrur sem gefa vísbendingar um ónæmiseflingu, veiruhemjandi og örveruhemjandi áhrif. Gerðar hafa verið tilraunir á Írlandi með þróun á drykkjum með þörungaextröktum. [9]


Þörungar í snyrtivörum

Rauðþörungurinn Porphyridium sp er með fjölsykrur með súlfathóp og hefur hann hemjandi áhrif á herpes veiruna eða frunsu eins og hún er kölluð. Þessi þörungur er ákjósanlegur í húðvörur þar sem hann er bólguhemjandi og hefur sólarvarnar og sefjandi áhrif. Einnig er hann olíukenndur og er því hentugur fyrir krem. Þessi rauðþörungur er ræktaður á þurru landi í Ísrael. [10]

Þörungar eru einnig notaðir í margt annað eins og t.d fóður (fiska, sæeyru, húsdýr), líf-eldsneyti (biodiesel, bio-oil), tilraunir (vatnshreinsun (nitursambönd og þungmálma), mengaðan jarðveg, þurrkað mjöl) og efnaverksmiðjur (framleiðsla verðmætra efna í stórþörungum, genaklónun úr örþörungum). [11]

Plöntusvif - Svifþörungar

Svif eru örsmáar lífverur sem fljóta um í höfum og vötnum. Þessar lífverur eru of smáar til að geta fært sig um set af eigin rammleik og reka því með straumum. Svif skiptist í plöntusvif, dýrasvif og bakteríusvif. Í plöntusvifi þá er hver planta aðeins ein fruma. Svifþörungar hafa auk blaðgrænu gul og brún litarefni og aðgreining í flokka er meðal annars byggð á mismunandi litarefnum.


Helstu flokkar svifþörunga:

Kísilþörungar geta myndað setlög sem eru gerð úr skeljum þeirra (kísilgúr). Kísilgúr er nýttur í margs konar vörur, þar á meðal í síur, sem mjúkt slípiefni (t.d. í tannkrem), sem rakadrægt efni svo sem í kattasand og sem uppistöðuefni í dýnamíti þar sem hann er látinn draga í sig nítróglyserín.

Á Bíldudal er verksmiðja sem nýtir kísilþörunga til framleiðslu á skepnufóðri. Mjólkin sem kýrnar framleiða er fyrir vikið fituríkari og próteinríkari en annars.

Heimildir

  1. What are Macroalgae?. Macroalgal indicators - OzCoast Australian Online Coastal information (2008)“ (html). 2008.
  2. MICROALGAE. Microalgae (various oleaginous species)(2006)“ (html). 2006.
  3. ALGE. Alge (2009)“ (html). 2009.
  4. ALGAE--THE SCUM OF THE EARTH. (1998)“ (html). 1998.
  5. Spirulina Scientific Reference Library. Spirulina Source (2000)“ (html). 2000.
  6. Chlorella. (2009)“ (html). 2009.
  7. Duniella: Physiology, Biochemistry and Biotechnology (html).
  8. Astaxanthin in Nature. Astaxanthin“ (html). (2004 - 2008).
  9. Brown marine algae mined for functional ingredients. NUTRA ingrediens (2000 - 2009)“ (html). (2000 - 2009).
  10. The potential of production of sulfated polysaccharides from Porphyridium. SpringerLink (2005)“ (html). (2005).
  11. Öndvegissetur í sjávarlíftækni. Iðnaðar og viðskiptaráðuneytið, Matvælasetur UNAK, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Hjörleifur Einarsson (2003)“ (html). (2003).
  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.