Viktor Orbán
Viktor Orbán | |
---|---|
Forsætisráðherra Ungverjalands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 29. maí 2010 | |
Forseti | László Sólyom Pál Schmitt János Áder Katalin Novák Tamás Sulyok |
Forveri | Gordon Bajnai |
Í embætti 6. júlí 1998 – 27. maí 2002 | |
Forseti | Árpád Göncz Ferenc Mádl |
Forveri | Gyula Horn |
Eftirmaður | Péter Medgyessy |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 31. maí 1963 Székesfehérvár, Ungverjalandi |
Stjórnmálaflokkur | Fidesz |
Maki | Anikó Lévai (g. 1986) |
Börn | Ráhel, Gáspár, Sára, Róza, Flóra |
Háskóli | Eötvös Loránd-háskóli Pembroke-háskóli, Oxford |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Viktor Mihály Orbán[1] (f. 31. maí 1963) er ungverskur stjórnmálamaður sem hefur verið forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010. Hann var áður forsætisráðherra landsins frá 1998 til 2002. Hann er núverandi formaður þjóðernissinnaða íhaldsflokksins Fidesz. Hann hefur gegnt forystu flokksins frá árinu 2003 og var áður formaður hans frá 1993 til 2000.
Æviágrip
Orbán fæddist í Székesfehérvár og nam lögfræði í Eötvös Loránd-háskóla, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1987. Hann nam stjórnmálafræði í stuttan tíma en hóf síðan sjálfur þátttöku í stjórnmálum í kjölfar byltinga ársins 1989. Hann gerðist leiðtogi stúdentahreyfingarinnar Bandalags ungra lýðræðissinna (Fiatal Demokraták Szövetsége) sem síðar varð að stjórnmálaflokknum Fidesz. Orbán varð þjóðþekktur stjórnmálamaður eftir að hann hélt ræðu við endurgreftrun Imre Nagy og annarra píslarvotta uppreisnar ársins 1956. Í ræðunni krafðist Orbán þess opinskátt að sovéskir hermenn hefðu sig á burt úr Ungverjalandi.
Eftir að kommúnisminn féll og lýðræði var komið á í Ungverjalandi var Orbán kjörinn á ungverska þjóðþingið og varð þar leiðtogi Fidesz árið 1993. Fidesz hafði í upphafi aðhyllst efnahagslega frjálshyggju og Evrópusamruna en undir forystu Orbán varð hann brátt þjóðernissinnaður hægriflokkur. Eftir að Fidesz unnu flest sæti á þingi í kosningum árið 1998 gerðist Orbán forsætisráðherra hægrisinnaðrar samsteypustjórnar og gegndi því embætti í fjögur ár.
Fidesz tapaði þingkosningum árin 2002 og 2006 með naumindum og Orbán var því leiðtogi stjórnarandstöðunnar í átta ár. Vinsældir ungverskra sósíalista döluðu mjög á seinna kjörtímabili þeirra og því tókst Orbán að vinna stórsigur í þingkosningum árið 2010. Orbán varð forsætisráðherra á ný með mikinn meirihluta á þingi og gerði stórtækar breytingar á ungversku stjórnarskránni. Breytingarnar gengu meðal annars út á að draga úr völdum ungverska stjórnlagadómstólsins svo ekki væri hægt að dæma ógild lög sem hefðu hlotið samþykki tveggja þriðju þingmanna. Jafnframt var sett nýtt aldurstakmark á dómaraembætti sem fól í sér að dómarar yrðu að fara á eftirlaun á lögbundnum eftirlaunaaldri.[2]
Fidesz hélt afgerandi þingmeirihluta sínum eftir kosningar árin 2014 og 2018.
Stefnumál Orbán eru mjög íhaldssöm bæði með tilliti til félagsmála og þjóðernismála. Hann hefur lýst stjórnarháttum sínum sem uppbyggingu svokallaðs „ófrjálslynds lýðræðis“.[3] Orbán hefur verið sakaður um einræðistilburði og um að skerða réttarríkið í Ungverjalandi með því að draga úr sjálfstæði dómstóla og úr málfrelsi.[4][5][6] Orbán hefur sett ríkisfjölmiðla Ungverjalands undir stjórn ráðs sem skipað er liðsmönnum Fidesz. Jafnframt verða sjálfstæðir fjölmiðlar að sækja um starfsleyfi frá stjórnvöldum og geta sætt sektum ef yfirvöld telja fréttaflutning þeirra ekki nógu hlutlausan. Einkareknum fjölmiðlum hefur einnig verið bannað að birta kosningaauglýsingar.[7]
Orbán hefur oft beint spjótum sínum að ungversk-bandaríska athafnamanninum George Soros og hefur vænt hann um að standa fyrir samsærum til að grafa undan Ungverjalandi. Á yngri árum hafði Orbán sjálfur þegið styrk frá stofnun Sorosar til að ganga í háskóla í Englandi en á stjórnmálaferli sínum hefur hann útmálað Soros sem ógn við ungverskt þjóðfélag.[8] Í kosningabaráttu sinni árið 2017 setti Orbán upp auglýsingaskilti þar sem Soros var kallaður „óvinur fólksins“ og árið 2018 kynnti Orbán lagafrumvarp undir nafninu „Stöðvum Soros!“ sem gera ólöglegt að aðstoða ólöglega innflytjendur eða flóttamenn við að dvelja í landinu.[9]
Þann 30. mars 2020 samþykkti ungverska þingið tillögu þess efnis að stjórn Orbáns geti stjórnað landinu með tilskipunum til þess að bregðast við kórónaveirufaraldrinum í landinu. Áætlað var að lögin vari þar til faraldurinn er liðinn en þeim fylgdi þó enginn formlegur tímarammi.[10][11] Ótakmörkuðu tilskipanavaldi Orbáns lauk þann 18. júní en þess í stað var samþykkt að lýsa yfir „læknisfræðilegu neyðarástandi“ sem heimilar stjórninni áfram að gefa út tilskipanir í ýmsum málefnum.[12]
Í júní árið 2021 setti stjórn Orbáns lög sem bönnuðu að börnum yrði kennt um hinsegin fólk í skóla.[13] Lögin eru hluti af frumvarpi sem á að nafninu til að snúast gegn barnaníði en þau banna meðal annars að börnum séu sýnt námsefni eða auglýsingar sem styðja réttindi hinsegin fólks.[14] Ungverjar sættu harðri gagnrýni af hálfu mannréttindahópa fyrir lögin og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, gekk svo langt að segja að landið ætti ekki lengur erindi í Evrópusambandið vegna þeirra.[15]
Orbán var endurkjörinn í þriðja sinn í þingkosningum í apríl 2022. Í kosningunum hafði sameinuð stjórnarandstaða boðið fram lista gegn Fidesz-flokki Orbáns en hafði deilt talsvert innbyrðis. Kosningarnar voru haldnar í skugga innrásar Rússa í Úkraínu, en Orbán hafði lagt áherslu á hlutleysi Ungverjalands í deilunni.[16]
Tilvísanir
- ↑ Orbánnak kiütötték az első két fogát Geymt 14 júní 2018 í Wayback Machine, Origo, 20. desember 2012; skoðað 21. júní 2018.
- ↑ „Q&A: Hungary's controversial constitutional changes“. BBC. 11. mars 2013. Sótt 8. apríl 2020.
- ↑ „Prime Minister Viktor Orbán's Speech at the 25th Bálványos Summer Free University and Student Camp“. 30. júlí 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. október 2020. Sótt 21. júní 2018.
- ↑ Meijers, Maurits; van der Veer, Harmen. „Hungary's government is increasingly autocratic. What is the European Parliament doing about it?“. washingtonpost.com. Washington Post. Sótt 21. júní 2018.
- ↑ „What to do when Viktor Orban erodes democracy“. economist.com. The Economist. Sótt 21. júní 2018.
- ↑ Kingsley, Patrick (10. febrúar 2018). „As West Fears the Rise of Autocrats, Hungary Shows What's Possible“. The New York Times. ISSN 0362-4331. Sótt 10. febrúar 2018.
- ↑ Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 168. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 978-3-030-41772-7.
- ↑ Bergmann, Eiríkur (2020). bls. 109.
{cite book}
:|title=
vantar (hjálp) - ↑ Róbert Jóhannsson (5. maí 2018). „„Stöðvum Soros" fyrir ungverska þingið“. RÚV. Sótt 11. september 2018.
- ↑ Þorgerður Anna Gunnarsdóttir (30. mars 2020). „Ungverskt lýðræði í ótímabundna sóttkví?“. mbl.is. Sótt 8. apríl 2020.
- ↑ Kjartan Kjartansson (30. mars 2020). „Orban fær ótímabunduð tilskipanavald“. Vísir. Sótt 8. apríl 2020.
- ↑ Lili Bayer (18. júní 2020). „Hungary replaces rule by decree with 'state of medical crisis'“. Politico. Sótt 15. júlí 2020.
- ↑ Oddur Ævar Gunnarsson (15. júní 2021). „Ungversk yfirvöld banna hinsegin námsefni“. Fréttablaðið. Sótt 25. júlí 2021.
- ↑ Kjartan Kjartansson (11. júní 2021). „Vilja banna að börnum sé kennt um hinsegin fólk“. Vísir. Sótt 25. júlí 2021.
- ↑ Kjartan Kjartansson (24. júní 2021). „Telur Ungverja ekki eiga erindi í ESB lengur“. Vísir. Sótt 25. júlí 2021.
- ↑ „Vinur Pútíns endurkjörinn sem forsætisráðherra“. mbl.is. 3. apríl 2022. Sótt 4. apríl 2022.
Fyrirrennari: Gyula Horn |
|
Eftirmaður: Péter Medgyessy | |||
Fyrirrennari: Gordon Bajnai |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |