Viktoría (ástralskt fylki)

Viktoría (e.Victoria) er fylki í suðausturhluta Ástralíu. Það er næstminnsta fylki landsins (það minnsta á meginlandinu), en líka það næstfjölmennasta með rúmar 5 milljónir íbúa. Höfuðborg fylkisins er Melbourne, næststærsta borg Ástralíu þar sem búa um 70% íbúa fylkisins. Evrópumenn settust fyrst að þar árið 1829 þar sem í dag er bærinn Portland og sex árum síðar settist fólk að í Melbourne. Frjálsir menn stofnuðu bæði þessi byggðarlög og þau voru því ekki fanganýlendur eins og flest fyrstu byggðarlög Breta í Ástralíu. Victoria tilheyrði upphaflega Nýja Suður Wales en var gerð að sérstakri nýlendu árið 1851, sama árið og þar fannst gull og gullæði hófst. Fylkið er mjög gróðursælt og meirihluti þess er skógi vaxinn. Áströlsku Alparnir ná yfir hluta fylkisins. Norðurlandamæri fylkisins liggja eftir Murrayfljóti sem er næstlengsta fljót Ástralíu (lengst er þverá þess Darling). Efnahagur fylkisins byggist enn að miklu leyti á námavinnslu þar sem grafið er eftir gulli eða kolum. Síðari tíma þróun hefur þó verið sú að ferðamannaþjónusta er farin að skipta meira og meira máli.

  Þessi Ástralíugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.