Wolfgang Amadeus Mozart

Teikning af Wolfgang Amadeus Mozart frá 1789 eftir Doris Stock.

Wolfgang Amadeus Mozart (27. janúar 17565. desember 1791) var eitt mikilvægasta og áhrifamesta tónskáld klassíska tímabilsins í evrópskri tónlist. Þrátt fyrir stutta ævi náði Mozart að koma frá sér rúmum átta hundruð verkum af öllum gerðum tónverka sem tíðkuðust á hans tíma. Hann samdi óperur, sinfóníur, píanókonserta, píanósónötur og kammerverk sem mörg eru talin með því besta sem samið hefur verið af slíkri tónlist.

Mozart fæddist í Salzburg sem þá var sjálfstætt furstadæmi í Heilaga rómverska ríkinu, en er nú innan Austurríkis. Hann sýndi undraverða tónlistarhæfileika frá barnæsku. Fimm ára gamall gat hann leikið bæði á fiðlu og píanó og samdi lög sem hann flutti við hirðir Evrópu. Faðir hans fór með hann í tónleikaferðir um Evrópu og þrisvar til Ítalíu. Þegar Mozart var 17 ára varð hann hirðtónskáld við hirð biskupsfurstans í Salzburg, en varð brátt leiður og hélt af stað í leit að betri stöðu.

Eftir komu hans til Vínarborgar árið 1781 missti hann stöðu sína sem hirðtónskáld í Salzburg. Hann bjó áfram í Vín þar sem hann naut frægðar en átti erfitt með að framfleyta sér. Lokaár sín í borginni samdi hann margar af sínum þekktustu sinfóníum, konsertum og óperum. Sálumessan hans var ókláruð þegar hann lést, aðeins 35 ára gamall. Margt er á huldu um dauða hans sem hefur leitt til alls kyns vangaveltna og flökkusagna um það hvernig hann bar að.

Ævi

Æska

Mozart-fjölskyldan kemur fram. Vatnslitamynd eftir Louis Carrogis Carmontelle frá 1763.

Mozart fæddist í Getreidegasse 9 í Salzburg. Daginn eftir fæðinguna var hann skírður Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart í dómkirkjunni í Salzburg. Sem fullorðinn maður notaði hann sjálfur nafnið „Wolfgang Amadè Mozart“. Leopold Mozart (1719–1787), faðir Wolfgangs, var frá Augsburg í Bæjaralandi og var tónlistarmaður við hirð Sigismunds von Schrattenbach erkibiskups í Salzburg, sem jafnframt var fursti yfir borginni. Móðir Wolfgangs, Anna Maria Mozart (1720–1778) fædd Pertl, var fædd í Salzburg. Wolfgang var yngstur sjö systkina, en aðeins tvö þeirra komust á legg: Wolfgang og eldri systir hans, Maria Anna Mozart (1751–1829), kölluð Nannerl.

Leopold Mozart lék á fiðlu í hljómsveit erkibiskupsins. Hann var lítt þekktur sem tónskáld en reyndur tónlistarkennari. Sama ár og Wolfgang fæddist gaf hann út vinsæla kennslubók í fiðluleik, Versuch einer gründlichen Violinschule. Þegar Nannerl var sjö ára gömul hóf hún píanónám hjá föður sínum og þriggja ára bróðir hennar fylgdist með. Mörgum árum síðar sagði hún frá því að hann hefði eytt löngum stundum við píanóið og leitað uppi hljóma. Hún sagði að þegar hann var fjögurra ára hafi Leopold kennt honum nokkur einföld lög sem hann gat þá leikið villulaust. Fimm ára var hann farinn að semja tónlist.

Fyrstu tónsmíðar Mozarts er að finna í Nótnabók Nannerl þar sem Leopold skrifaði lög fyrir dóttur sína að æfa á píanóið. Þetta eru 12 mjög stutt lög frá árunum 1761-1764. Á þessum árum var Leopold eini kennari barna sinna og kenndi þeim tungumál og aðrar námsgreinar auk tónlistar. Wolfgang tók sjálfur upp á því að semja tónverk og reyna að læra á fiðlu, sem kom föður hans á óvart. Eftir því sem tónsmíðahæfileikar Wolfgangs komu betur í ljós hætti Leopold sjálfur að semja tónlist.

Tónleikaferðir

Mozart 14 ára í Veróna 1770. Málverk eftir Giambettino Cignaroli.

Frá 1762 hóf Mozart-fjölskyldan að ferðast til hirða aðalsfólks í Evrópu þar sem Nannerl og Wolfgang komu fram sem undrabörn og fluttu þar tónlist. Fyrstu tónleikarnir af þessum toga voru við hirð kjörfurstans Maximilíans 3. af Bæjaralandi í München. Í kjölfarið komu þau fram við keisarahirðina í Prag og Vínarborg. Eftir það héldu þau í þriggja og hálfs árs tónleikaferðalag þar sem þau komu við í München, Mannheim, París, London, Dover, Haag, Amsterdam, Utrecht, Mechelen og aftur París, og svo heim í gegnum Zürich, Donaueschingen og München. Í ferðinni kynntist Wolfgang fjölda tónlistarmanna og verkum þeirra. Johann Christian Bach (sonur Johanns Sebastians Bach) sem hann hitti í London, hafði sérstaklega mikil áhrif á hann. Átta ára gamall samdi hann sína fyrstu sinfóníu sem faðir hans skrifaði líklega upp fyrir hann.

Ferðirnar voru erfiðar og aðstæður sem fjölskyldan bjó við oft frumstæðar. Þau urðu oft að bíða eftir því að fá boð og greiðslu frá aðalsfólki, og veiktust öll alvarlega; fyrst Leopold (í London sumarið 1764) og svo bæði börnin (í Hag sumarið 1765). Þau sneru aftur til Vínarborgar 1767 og bjuggu þar til ársloka 1768.

Eftir að hafa eytt ári í Salzburg héldu Leopold og Wolfgang einir til Ítalíu og dvöldu þar frá 1769 til 1771. Líkt og áður reyndi Leopold að koma tónsmíðahæfileikum sonar síns á framfæri. Wolfgang hitti tónskáldin Josef Mysliveček og Giovanni Battista Martini í Bologna og fékk inngöngu í hinn virta tónlistarskóla Accademia Filarmonica di Bologna. Til er sú flökkusaga af Mozart á Ítalíu að hann hafi hlýtt á verkið Miserere eftir Gregorio Allegri tvisvar í Sixtínsku kapellunni og eftir það getað skrifað það niður eftir minni. Þannig hafi orðið til fyrsta óheimila afritið af þessu vel geymda leyndarmáli Vatíkansins. Ýmsir hafa efast um bæði uppruna og sannleiksgildi þessarar sögu.

Meðan Mozart dvaldi í Mílanó samdi hann sína fyrstu óperu, Mitridate, re di Ponto, sem sló í gegn og var flutt 21 sinni. Þetta varð til þess að hann var ráðinn til að semja fleiri óperur. Hann sneri tvisvar aftur til Mílanó ásamt föður sínum (ágúst-desember 1771 og október 1772 til mars 1773) til að vera við frumsýningar óperanna Ascanio in Alba og Lucio Silla. Leopold vonaði að þetta yrði til þess að hann fengi stöðu og erkihertoginn, Ferdinand íhugaði að ráða hann, en hætti við vegna andstöðu móður sinnar, Maríu Teresu, við að ráða „gagnslaust fólk“. Undir lok ferðarinnar samdi Mozart einsöngsmótettuna Exsultate, jubilate.

Salzburg

Eftir að hafa farið um helstu borgir Evrópu og haldið þar tónleika sem undrabarn var hann ráðinn sem hirðtónskáld til erkibiskupsins af Salzburg. Honum líkaði ekki við vinnuveitanda sinn og eftir nokkurra ára vist sagði hann upp og hélt til Vínar.

Árin í Vín

Þar sem honum tókst ekki að fastráða sig vann hann lausavinnu, þ.e. hann samdi, og fékk borgað fyrir, eitt og eitt verk eftir pöntun. Nokkru eftir að Mozart kom til Vínar fór heilsu hans að hraka og um það leyti er hann sá fram á að hann mundi hugsanlega ekki ná sér af þeim veikindum keypti eldri maður af honum sálumessu til handa konunni sinni. Fljótlega fékk hann þó þá tilfinningu að hann væri að semja sína eigin sálumessu.

Andlát

Þann 5. desember 1791 lést Mozart af veikindum sínum í sárafátækt og var jarðaður í ómerktri gröf. Hann kláraði aldrei sálumessuna, en lærisveinn hans Franz Xaver Süssmayr lauk við hana eftir að Joseph Eybler, annar og virtari lærisveinn hans og vinur, hafði beðist undan verkinu. Goðsögnin segir að nokkrir vinir tónskáldsins hafi sungið messuna yfir honum, nokkru eftir greftrunina sjálfa.

Eftirmæli

Eftir dauða hans hefur nafn Mozarts hins vegar orðið eitt mesta og arðbærasta vörumerki heims þar sem það kemur nú fyrir, ásamt brjóstmynd af tónskáldinu, á flestu sem hægt er að ímynda sér þar með töldu bjór, marsipankúlum og Hollywood-kvikmynd.

Tenglar