Yvette Lundy

Yvette Lundy
Yvette Lundy árið 2014.
Fædd22. apríl 1916
Dáin3. nóvember 2019 (103 ára)
Épernay, Frakklandi
StörfKennari, andspyrnumaður

Henriette Yvette Lundy (22. apríl 1916 – 3. nóvember 2019) var frönsk andspyrnukona sem var handtekin á tíma hernáms Frakklands í seinni heimsstyrjöldinni og fangelsuð í einangrunarbúðunum Ravensbrück og Buchenwald.

Æviágrip

Yvette Lundy fæddist til bændafjölskyldu frá Beine (nú Beine-Nauroy), nærri Reims.[1] Hún átti tvær systur (Berthe og Marguerite) og fjóra bræður (André, René, Georges og Lucien).[2] Í fyrri heimsstyrjöldinni neyddist fjölskylda hennar til þess að flýja þorpið, sem var nærri víglínunum í orrustunni um Champagne. Fjölskyldan settist að í Oger á meðan á stríðinu stóð.

Árið 1938 tók Yvette Lundy við kennarastöðu í Gionges og vann jafnframt sem ritari bæjarstjórans í þorpinu.[1][2] Yvette flúði frá svæðinu í maí árið 1940 þegar orrustan um Frakkland hófst en sneri aftur í júlí sama ár.

Eftir að Þjóðverjar hertóku Frakkland sá Yvette um að útvega strokuföngum úr fangabúðum nasista í Bazancourt fölsk skilríki. Hún gerði slíkt hið sama fyrir fjölskyldu Gyðinga að beiðni vinkonu sinnar í París. Yvette veitti Frökkum skjól sem voru á flótta undan nauðungarvinnu Þjóðverja ásamt andspyrnumönnum úr frönsku andspyrnusveitinni Possum.[3]

Þann 19. júní árið 1944 handtóku Gestapo-liðar Yvette í Gionges. Til þess að hylma yfir systkinum sínum laug hún því í yfirheyrslu að hún væri einkabarn foreldra sinna. Yvette var sett í fangelsið í Châlons-sur-Marne og síðan flutt í fangabúðir í Romainville. Mánuði síðar var hún flutt í pyntingarbúðirnar Neue Bremm og síðan til Ravensbrück, þar sem hún hlaut fanganúmerið 47.360.[2]

Þann 16. nóvember árið 1944 var Yvette flutt til Buchenwald undir fanganúmerinu 15.208 og skráð í Kommando-þrælkunarbúðirnar í Schlieben. Rússneski herinn frelsaði Yvette og aðra fanga í búðunum úr haldi þann 21. apríl árið 1945. Yvette og aðrir fangar úr hópnum hennar gengu að minnsta kosti 200 kílómetra til Halle og fengu flug þaðan til Parísar, þar sem þau hlutu gistingu í boði stjórnvalda á glæsihótelinu Lutetia.

Eftir stríðið varð Yvette Lundy ein af hetjum andspyrnuhreyfingarinnar í Marne. Frá árinu 1959 fór hún að tjá sig í auknum mæli um þátttöku sína í andspyrnuhreyfingunni og um fangavist sína í Þýskalandi. Hún heimsótti meðal annars skóla til að segja sögu sína og varð afar vinsæl meðal franskra nemenda.[2][4]

Yvette gaf út sjálfsævisöguna Le Fil de l’araignée árið 2012.[5] Yvette var ein fyrirmyndin að persónunni Mademoiselle Lundi í kvikmyndinni Liberté, sem kom út árið 2009. Hún lést í Épernay þann 3. nóvember árið 2019.[6]

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 Jean-Pierre Husson; Jocelyne Husson. „Yvette Lundy, déportée à Ravensbrück, une grande figure de la Résistance marnaise“ (franska). Sótt 4. nóvember 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Yvette Lundy, figure de la Résistance, est morte“ (franska). Le Monde. 3. nóvember 2019.
  3. „And­spyrnu­hetja fall­in frá“. mbl.is. 4. nóvember 2019. Sótt 5. nóvember 2019.
  4. „Décès d'Yvette Lundy, figure de la Résistance française“ (franska). Le Figaro. 2019. Sótt 5. nóvember 2019.
  5. „Yvette Lundy, 101 ans et toujours résistante“ (franska). L'Express. 2017. Sótt 5. nóvember 2019.
  6. Eric Turpin (2019). „Mort d'Yvette Lundy, à l'âge de 103 ans, une grande figure de la résistance“ (franska). France Bleu. Sótt 5. nóvember 2019.