Þúsund og ein nótt
Þúsund og ein nótt (arabíska: كتاب ألف ليلة وليلة - kitāb 'alf laylah wa-laylah; persneska: هزار و یک شب - ḥezār-o yak šab) er safn af sögum frá ýmsum höfundum og úr ýmsum ritum. Sögurnar eiga rætur að rekja til Arabíu, Indlands, Persíu, Egyptalands og Sýrlands meðal annars, allt frá fornöld til miðalda. Talið er að safnið sjálft megi rekja til 8. eða 9. aldar. Safnið er til í mörgum útgáfum en allar eiga þær það sameiginlegt að innihalda rammafrásögn um konunginn Sjarjar og konu hans Sjerasade. Sumar af sögunum eru síðan sjálfar rammafrásagnir. Fjöldi sagnanna (eða nóttanna) er líka misjafn eftir útgáfum.
Þekktustu sögurnar úr sagnasafninu eru sögurnar af Alí Baba, Aladdín og Sindbað sæfara, en engin þeirra er úr elstu útgáfum safnsins.
Útgáfur
Þúsund og ein nótt kom fyrst út í íslenskri þýðingu Steingríms Thorsteinssonar árið 1857.