Carl Theodor Zahle

Carl Theodor Zahle
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
28. október 1909 – 5. júlí 1910
ÞjóðhöfðingiFriðrik 8.
ForveriLudvig Holstein-Ledreborg
EftirmaðurKlaus Berntsen
Í embætti
21. júní 1913 – 21. apríl 1920
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriKlaus Berntsen
EftirmaðurOtto Liebe
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. janúar 1866
Hróarskeldu, Danmörku
Látinn3. febrúar 1946 (80 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurRóttæki vinstriflokkurinn (Det Radikale Venstre)
MakiMathilde Henriette Trier
HáskóliKaupmannahafnarháskóli
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður

Carl Theodor Zahle (19. janúar 18663. febrúar 1946) var danskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Danmerkur frá 1909 til 1910 og aftur frá 1913 til 1920. Hann var einn af stofnendum Róttæka vinstriflokksins (Det Radikale Venstre) árið 1905.

Zahle átti frumkvæði að því að samið var um ný sambandslög milli Danmerkur og Íslands árið 1917, sem leiddi til þess að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í persónusambandi við Danakonung í nóvember næsta ár. Stjórn Zahle kom einnig á kosningarétti kvenna í Danmörku og Íslandi árið 1915.

Æviágrip

C.Th. Zahle fæddist í Hróarskeldu og var sonur skósmiðsins[1] Christians Lauritz Gottlieb Zahle og konu hans, Karenar Emilie Dreyer. Hann varð snemma lýðræðissinnaður og áhugasamur um stjórnmál. Zahle hlaut lögfræðigráðu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1890 og vann síðan um hríð í blaðamennsku. Hann var ritstjóri hjá fréttablöðunum Arhus Amtstidende (1890–1891) og hjá Politiken þar til hann gerðist málafærslumaður árið 1894.

Stjórnmálaferill

Zahle var kjörinn á þjóðþing Danmerkur árið 1895 og sat þar til ársins 1928. Frá 1928 til 1939 sat hann svo á landsþinginu. Hann var einn af stofnendum Vinstriumbótaflokksins (Venstrereformpartiet) árið 1895 og gekk á fjármálaráð þjóðþingsins árið 1901.

Árið 1905 kom upp ágreiningur milli Zahle og J. C. Christensens forsætisráðherra um útgjöld til varnarmála sem leiddi til þess að Zahle og félagar hans klufu sig úr Vinstriumbótaflokknum og stofnuðu Róttæka vinstriflokkinn í maí árið 1905. Zahle varð fyrsti formaður nýja flokksins. Á fyrsta flokksfundi Róttæka vinstriflokksins studdi Zahle drög að stefnuskrá eftir Ove Rode og P. Munch.[2] Í stefnuskránni var meðal annars mælt fyrir um hlutleysi Danmerkur í hernaðardeilum, niðurskurð í framlögum til varnarmála, og pólitísk réttindi fyrir konur, þjónustufólk og lífeyrisþega.[2]

Í skopmyndum sem birtust af Zahle í dönskum fréttablöðum var hann oft sýndur sem Inúíti, bæði vegna þess að hann hafði mikinn áhuga á norðurslóðum og vegna þess að í móðurætt átti hann forfeður frá Grænlandi.[3]

Forsætisráðherratíðir

Í október árið 1909 átti Zahle frumkvæði að vantrauststillögu gegn ríkisstjórn Ludvigs Holstein-Ledreborg og stofnaði í kjölfarið minnihlutastjórn.[4] Næsta ár kallaði Zahle til þingkosninga þar sem ríkisstjórn hans hafði ekki nægan stuðning á þingi til að setja ný kosningalög sem Zahle vildi koma í gegn. Eftir kosningarnar þurfti Zahle að eftirláta forsætisráðherraembættið vinstrimanninum Klaus Berntsen.[5] Árið 1911 varð Zahle borgarstjóri og héraðsfógeti í Stege.

Zahle varð aftur forsætisráðherra árið 1913 eftir að róttæklingar og jafnaðarmenn unnu meirihluta á þingi. Þessi ríkisstjórn sat til ársins 1920, en það tímabil spannaði upphaf og endi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þegar stríðið braust út var helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar að tryggja hlutleysi Danmerkur, og þetta heppnaðist ekki síst fyrir tilstilli utanríkisráðherrans Eriks Scavenius.[1] Þrátt fyrir hlutleysið leiddi stríðið til aukinna stjórnarafskipta af samfélagsmálum svo hægt væri að tryggja öruggar birgðasendingar til Danmerkur. Á þessum tíma setti ríkisstjórn Zahle lög sem gáfu konum kosningarétt, bæði í Danmörku og Íslandi. Jafnframt var kosningaréttur á landsþingið útvíkkaður til almennings.[6]

Zahle og sambandslögin

Vorið 1917 sendi Jón Magnússon, forsætisráðherra Íslands, fyrirspurn til Zahle um að Ísland fengi eigin siglingafána. Líklega töldu Íslendingar óhættara að geta flaggað eigin fána á stríðsárunum, sérstaklega ef Danmörk yrði hertekin og dönsk skip yrðu skotmörk bandamanna. Zahle bauð Íslendingum þess í stað að ganga til viðræðna um að taka sambandslögin upp að nýju í heild sinni.[7] Gengið var til samningaviðræðna um ný sambandslög Danmerkur og Íslands næsta ár. Fulltrúar Róttæka vinstriflokksins, Jafnaðarmanna og Vinstriflokksins tóku sæti í samninganefnd við Íslendinga en Íhaldsmenn héldu sig utan nefndarinnar þar sem þeir vissu að stjórnarflokkar Zahle væru reiðubúnari en þeir til að gefa Íslendingum aukið sjálfstæði. Sambandslögin leiddu að endingu til þess að Ísland var viðurkennt sem frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku í lok ársins 1918.

Zahle lagði sambandslagafrumvarpið fyrir danska þingið þann 13. nóvember árið 1918 og flutti langa ræðu því til stuðnings. Hann kenndi íhaldsstjórnum Danmerkur um að spilla sambandi Dana við Ísland og sagði það óhjákvæmilegt að Ísland yrði fullvalda ríki. Hann sagði þó að samband Íslands og Danmerkur yrði samkvæmt lögunum meira en aðeins persónusamband við konung þar sem lögin kvæðu einnig á um gagnkvæman ríkisborgararétt og sameiginlega stjórn utanríkismála. Þá sagði hann að það gæti „aldrei þjónað hagsmunum smáþjóðar eins og Dana að undiroka aðra enn smærri þjóð“ og að Danir hlytu að „styðja eindregið rétt hverrar þjóðar til að búa við frelsi og sjálfstæði“.[8]

Síðari ferill

Eftir að stríðinu lauk var mikill hluti stjórnarandstöðunnar mjög argur út í stjórn Zahle: Hún hafði verið of vinveitt Þjóðverjum í stríðinu og daglegt líf Dana hafði orðið fyrir miklum óþægindum af reglugerðum sem Zahle-stjórnin hafði sett. Vegna ósigurs Þjóðverja í stríðinu og hugmynda Woodrows Wilson Bandaríkjaforseta um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna var spurningin um stöðu Suður-Jótlands og Flensborgar aftur komin upp á borðið. Stjórnarandstaðan vildi innlima Flensborg í Danmörku sama hver útkoman yrði úr atkvæðagreiðslu meðal íbúanna en Zahle neitaði að undirrita tilskipun þess efnis. Á þessum tíma brutust út meiriháttar deilur á vinnumarkaðnum og varað var við verkfalli sem ætti að byrja þann 9. apríl.[9] Þann 29. mars bað Kristján 10. konungur Zahle að segja af sér og Zahle afhenti honum uppsagnarbréf sitt þann 21. apríl.[9] Afsögn Zahle leiddi til páskakreppunnar svokölluðu árið 1920 þar sem róttæklingar og jafnaðarmenn litu á afskipti konungsins sem stjórnarskrárbrot.

Zahle varð aldrei forsætisráðherra aftur en hann varð dómsmálaráðherra frá 1929 til 1935 í ríkisstjórnum Thorvalds Stauning. Hann hafði áður gegnt því embætti samhliða forsætisráðherraembættinu í eigin ríkisstjórnum og hafði ávallt beitt sér fyrir uppbyggingu dansks réttarríkis.

Tilvísanir

Tilvísanir
  1. 1,0 1,1 „Zahle forsætisráðherra“. Óðinn. 1918. Sótt 15. september 2018.
  2. 2,0 2,1 Christiansen (1991), bls. 53
  3. Gunnar Þór Bjarnason (2018), bls. 306.
  4. Christiansen (1991), bls. 174
  5. Christiansen (1991), bls. 179
  6. Busck, Steen og Henning Poulsen(Red.), Danmarks historie i grundtræk (Aarhus Universitetsforlag, 2002) bls. 311.
  7. Saga Íslands, 10. bindi, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík (2009), bls. 295.
  8. Gunnar Þór Bjarnason (2018), bls. 307-309.
  9. 9,0 9,1 Christiansen (1991), bls. 291
Heimildir
  • Christiansen, Niels Finn, Bind 12. Klassesamfundet organiseres. 1900-1925, Gyldendal og Politikens Danmarkshistorie, 1991
  • Gunnar Þór Bjarnason (2018). Hinir útvöldu. Sögufélag. ISBN 9789935466174.
  • Michaelsen, Jens, Den unge C. Th. Zahle 1866-1901, Odense Universitetsforlag, 1979.


Fyrirrennari:
Ludvig Holstein-Ledreborg
Forsætisráðherra Danmerkur
(28. október 19095. júlí 1910)
Eftirmaður:
Klaus Berntsen
Fyrirrennari:
Klaus Berntsen
Forsætisráðherra Danmerkur
(21. júní 191321. apríl 1920)
Eftirmaður:
Otto Liebe