Mette Frederiksen
Mette Frederiksen | |
---|---|
Forsætisráðherra Danmerkur | |
Núverandi | |
Tók við embætti 27. júní 2019 | |
Þjóðhöfðingi | Margrét 2. Friðrik 10. |
Forveri | Lars Løkke Rasmussen |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 19. nóvember 1977 Álaborg, Danmörku |
Stjórnmálaflokkur | Jafnaðarmannaflokkurinn |
Maki | Erik Harr (g. 2003; skilin 2014) Bo Tengberg (g. 2020) |
Börn | 2 |
Háskóli | Álaborgarháskóli |
Mette Frederiksen (f. 19. nóvember 1977) er danskur stjórnmálamaður, núverandi forsætisráðherra Danmerkur og formaður danska Jafnaðarmannaflokksins. Hún hefur hefur setið á danska þjóðþinginu frá árinu 2001[1] og var vinnumálaráðherra í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt frá 2011 til 2014 og dómsmálaráðherra frá 2014 til 2015. Hún tók við af Thorning-Schmidt sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins þann 28. júní árið 2015.[2]
Frederiksen er önnur konan sem gegnir embætti forsætisráðherra Danmerkur og auk þess yngsti forsætisráðherra í sögu landsins.[3]
Æviágrip
Frederiksen fæddist í Álaborg. Faðir hennar var leturfræðingur en móðir hennar kennari.[1] Hún gekk í gagnfræðiskólann í Aalborghus og lagði stund á stjórnendanám og félagsvísindi við Álaborgarháskóla.[1] Eftir að hún útskrifaðist árið 2000 vann hún sem ráðgjafi fyrir ungmenni hjá danska alþýðusambandinu.[1]
Frederiksen var kjörin á danska þjóðþingið fyrir Kaupmannahafnarkjördæmi í þingkosningum í nóvember árið 2001.[1] Eftir kosningar árið 2005 var hún útnefnd talsmaður Jafnaðarmannaflokksins fyrir félagsmálefni.[1] Eftir kosningarnar varð hún einnig varaformaður þingflokks Jafnaðarmanna.[1]
Í maí árið 2010 komst það í hámæli að Frederiksen og aðrir leiðtogar Jafnaðarmanna hefðu skráð börn sín til náms í einkaskólum.[4] Frederiksen og flokksfélagar hennar voru sökuð um hræsni þar sem flokkurinn hafði lengi talað fyrir mikilvægi ríkisrekinna menntastofnana.[4] Árið 2005 hafði Frederiksen gagnrýnt foreldra sem sendu börnin sín í einkaskóla.[4] Frederiksen svaraði gagnrýnendum með því móti að viðhorf hennar til einkaskóla hefði mildast með árunum og að það hefði verið meiri hræsni hjá henni að setja eigin stjórnmálaframa í efra sæti en hag dóttur sinnar.[5]
Eftir að Frederiksen varð formaður Jafnaðarmannaflokksins hefur flokkurinn færst til vinstri í efnahagsmálum en lengra til hægri í innflytjendamálum.[6][7] Í nýlegri ævisögu sagði hún: „Í mínum augum er orðið æ ljósara að það eru lægri stéttirnar sem greiða kostnaðinn fyrir óhefta hnattvæðingu, fjöldainnflutninga og frjálsa hreyfingu vinnuafls.“[6]
Danska vinstriblokkin vann sigur í þingkosningum árið 2019 og Frederiksen lýsti í kjölfarið yfir vilja til að stofna minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins með stuðningi annarra vinstriflokka.[8] Þann 25. júní féllust Sósíalíski þjóðarflokkurinn, Einingarlistinn og Róttæki vinstriflokkurinn á að styðja minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins með Frederiksen sem forsætisráðherra. Frederiksen lýsti því yfir að ríkisstjórn hennar myndi minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70%, setja bindandi loftslagslöggjöf og hætta við áform um að senda erlenda sakamenn til afplánunar á eyjunni Lindholm.[3]
Árið 2020 gaf Frederiksen út tilskipun um að allir minkar í Danmörku skyldu aflífaðir vegna greiningar á stökkbreyttu afbrigði af veirusýkinni COVID-19 í dönskum minkabúum.[9] Um sautján milljónum dýra var lógað vegna tilskipunarinnar. Síðar kom í ljós að tilskipunin átti sér ekki stoð í dönskum lögum og árið 2022 komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu að Frederiksen hefði gefið danska þinginu villandi upplýsingar. Ekki var þó talið að hún hefði gert þetta af ásettu ráði.[10]
Minkamálið leiddi til þess að Frederiksen boðaði til nýrra kosninga sem fóru fram þann 1. nóvember 2022. Róttæki vinstriflokkurinn hafði hótað að styðja ella vantrauststillögu gegn stjórn hennar.[11] Í kosningunum voru Jafnaðarmenn áfram stærstir og vinstriblokkin viðhélt þingmeirihluta en Frederiksen ákvað engu að síður að mynda stjórn yfir miðju ásamt Venstre og Moderaterne, flokki fyrrum forsætisráðherrans Lars Løkke Rasmussen.[12][13]
Stjórnmálaskoðanir
Frederiksen er ötull andstæðingur vændis í Danmörku og hefur í mörg ár mælt með því að kaup á vændi verði gert ólöglegt líkt og í Svíþjóð, Noregi og Íslandi.[14] Rekstur vændishúsa og aðkoma þriðja aðila að vændissölu eru þegar ólögleg í Danmörku.
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Æviágrip á vef Þjóðþingsins“ (danska). Folketinget. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ „Portræt: Mette Frederiksen skal finde sin egen vej“ (danska). Politiken. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ 3,0 3,1 Andri Eysteinsson (25. júní 2019). „Mette Frederiksen fer fyrir nýmyndaðri minnihlutastjórn jafnaðarmanna“. Vísir. Sótt 26. júní 2019.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Simon Andersen (5. maí 2010). „Alle børn skal i folkeskolen... bare ikke mit barn!“ (danska). B.T. Nyheder. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ „Mette Frederiksen: Min datter kommer først“ (danska). Politiken. 6. maí 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. maí 2010. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ 6,0 6,1 Richard Orange (11. maí 2018). „Mette Frederiksen: the anti-migrant left leader set to win power in Denmark“ (enska). The Guardian. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ Naomi O'Leary (6. september 2018). „Danish left veering right on immigration“ (enska). Politico. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir (6. júní 2019). „Heltekin af pólitík frá 6 ára aldri“. mbl.is. Sótt 6. júní 2019.
- ↑ Ingunn Lára Kristjánsdóttir (4. nóvember 2020). „Allir minkar aflífaðir vegna stökkbreytingar á veirunni“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2022. Sótt 17. desember 2022.
- ↑ Atli Ísleifsson (1. júlí 2022). „Biður minkabændur innilegrar afsökunar eftir svarta skýrslu nefndar“. Vísir. Sótt 17. desember 2022.
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson (5. oktober 2022). „Frederiksen boðar til kosninga í Danmörku“. RÚV. Sótt 17. desember 2022.
- ↑ Atli Steinn Guðmundsson (14. desember 2022). „Fyrsta meirihlutastjórn í 30 ár“. mbl.is. Sótt 17. desember 2022.
- ↑ Kristján Már Unnarsson (15. desember 2022). „Mette Frederiksen sögð hafa tekið kröftuga hægri beygju“. Vísir. Sótt 17. desember 2022.
- ↑ Socialdemokrater vil forbyde købesex Berlingske 26. september 2009
Tenglar
- Mette Frederiksen Geymt 31 maí 2019 í Wayback Machine
- Folketingets biografi Geymt 19 ágúst 2007 í Wayback Machine
- Mette Frederiksen - Socialdemokratiet
- Mette Frederiksen - Personlige hjemmeside Geymt 5 júlí 2019 í Wayback Machine
Fyrirrennari: Lars Løkke Rasmussen |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |