Fabius Maximus

Stytta af Fabiusi Maximusi

Quintus Fabius Maximus Verrucosus Cunctator (um 280 f.Kr. – 203 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og hershöfðingi sem var áberandi í Öðru púnverska stríðinu, þar sem Rómverjar börðust við Karþagómenn.

Fabius var var af Fabii ættinni sem var valdamikil á þessum tíma og hafði alið af sér marga ræðismenn. Fabius var kjörinn einræðisherra (dictator) tvisvar, fyrst árið 221 f.Kr. og í síðara skiptið árið 217 f.Kr., eftir ósigur Rómverja gegn Hannibal í orrustunni við Trasimene. Hannibal var þá staddur með her sinn á Ítalíu eftir óvæntan herleiðangur sinn frá Íberíu yfir Alpana. Fabius gerði sér grein fyrir því hversu snjall hershöfðingi Hannibal var og kaus því að mæta honum ekki í stórum bardögum heldur að beita frekar skæruhernaði. Hann einbeitti sér sérstaklega að því að ráðast gegn þeim sem sáu um byrgðaflutninga fyrir Hannibal og þeim sem stunduðu hvers kyns fæðuleit. Einnig tók hann upp á því að skilja eftir sviðna jörð á landsvæðum sem hann taldi að Hannibal myndi fara um og takmarka þannig möguleika hans á því að verða hermönnum sínum úti um vistir. Fyrir þessa herkænsku, sem upphaflega var óvinsæl á meðal Rómverja, var Fabius kallaður Cunctator sem þýða má sem tefjarinn eða frestarinn. Árið eftir síðara einræðisherraár Fabiusar, 216 f.Kr., lutu Rómverjar í lægra haldi fyrir Hannibal í Orrustunni við Cannae sem var versti ósigur Rómverja í stríðinu. Árið eftir var Fabius skipaður ræðismaður (consul) og beitti þá áfram skæruhernaði sínum gegn Hannibal og mæltist það nú vel fyrir hjá Rómverjum. Fabius var á móti áætlun Scipios Africanusar um að ráðast gegn Karþagómönnum á sínu heimalandi í Norður-Afríku. Árið 203 f.Kr. veiktist Fabius og lést. Ári síðar sigraði Scipio Africanus Karþagómenn í Norður-Afríku í Orrustunni við Zama og batt með því enda á Annað Púnverska stríðið. Síðari kynslóðir Rómverja álitu Fabius vera mikla hetju og var hann kallaður „Skjöldur Rómar.“