Scipio Africanus

Þessi grein fjallar um rómverska herforingjann sem sigraði Hannibal í öðru púnverska stríðinu. Um aðra menn með sama nafni sjá Scipio.
Scipio Africanus

Publius Cornelius Scipio Africanus Majorlatínu: P·CORNELIVS·P·F·L·N·SCIPIO·AFRICANVS¹) (235 – 183 f.Kr.) var herforingi í öðru púnverska stríðinu og rómverskur stjórnmálamaður. Hans er minnst fyrir að hafa sigrað Hannibal Barca frá Karþagó í Orrustunni við Zama. Fyrir vikið hlaut hann viðurnefnið Africanus en var auk þess nefndur „hinn rómverski Hannibal“. Hann er almennt talinn með bestu herforingjum hernaðarsögunnar.

Scipio Africanus tilheyrði Scipio greininni af Cornelia ættinni, sem var ein af helstu aðalsættunum í Róm. Faðir Scipios, sem einnig hét Publius Cornelius Scipio, féll í bardaga í Íberíu í Öðru púnverska stríðinu. Scipio Africanus tók í kjölfarið við stjórn herafla Rómverja á Íberíu og barðist þar meðal annars við Hasdrubal, bróður Hannibals. Scipio sannaði sig sem snjall herstjórnandi á næstu árum og tókst, árið 206 f.Kr. að binda enda á veru Karþagómanna á Íberíu þegar hann sigraði þá í Orrustunni við Ilipa. Í kjölfarið höfðu Rómverjar völd á stórum svæðum á Íberíuskaganum og gerðu að skattlandinu Hispaniu.

Árið 204 f.Kr. hélt Scipio til Norður-Afríku með herafla og tók þar með átökin til heimalands Karþagómanna. Til að bregðast við þessu var Hannibal kallaður heim frá Ítalíu. Scipio og Hannibal mættust svo í Orrustunni við Zama, árið 202 f.Kr., þar sem Rómverjar unnu afgerandi sigur. Orrustan reyndist vera sú síðasta í stríðinu því Karþagómenn gáfust upp stuttu síðar. Scipio var fagnað sem hetju í Róm þegar hann hélt upp á sigurinn yfir Hannibal og fékk hann viðurnefnið Africanus. Eftir stríðið tók Scipio lítinn þátt í stjórnmálum Rómar og settist að lokum í helgan stein í Campaniu.

Neðanmálsgreinar

Heimild


  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.