Gabriele D'Annunzio
Gabriele D'Annunzio | |
---|---|
Fæddur | 12. mars 1863 Pescaria, Ítalíu |
Dáinn | 1. mars 1938 (74 ára) Gardone Riviera, Ítalíu |
Þjóðerni | Ítalskur |
Störf | Skáld, rithöfundur, blaðamaður, stjórnmálamaður, hermaður |
Flokkur | Ítalska þjóðernissambandið (1910–1923) Sögulega öfgavinstrið (1898–1900) Sögulega hægrið (1897–1898) |
Maki | Maria Hardouin (g. 1883) |
Börn | Mario (1884–1964) Gabriellino D'Annunzio (1886–1945) Ugo Veniero (1887–1945) Renata Anguissola (1893-1976) Gabriele Cruyllas (1897-1978) |
Undirskrift | |
Gabriele D'Annunzio, fursti af Montenevoso (12. mars 1863 – 1. mars 1938) var ítalskt skáld, blaðamaður, stjórnmálamaður og rithöfundur. Hann var áberandi í ítölsku bókmenntalífi frá 1889 til 1910 og síðar í ítölskum stjórnmálum frá 1914 til 1924. Verk hans sóru sig í ætt við svokallaða hnignunarstefnu (ítalska: Decadentismo).
D'Annunzio var meðal hvatamanna að baki inngöngu Ítalíu í fyrri heimsstyrjöldina við hlið bandamanna og barðist sjálfur í stríðinu sem herflugmaður. Hann tók þátt í nokkrum frægum hernaðaraðgerðum, meðal annars flugi yfir Vínarborg þar sem ítalskar herflugvélar vörpuðu áróðursbæklingum til Austurríkismanna. Að stríði loknu var D'Annunzio, líkt og margir ítalskir þjóðernissinnar, afar óánægður með skilmála Versalasamningsins, sem heimilaði Ítölum ekki að innlima mörg landsvæði sem þeir ásældust. Reiðin yfir þessum „limlesta sigri“ Ítala í styrjöldinni leiddi til þess að D'Annunzio og stuðningsmenn hans hertóku árið 1919 borgina Fiume (nú Rijeka í Króatíu) í von um að þvinga ríkisstjórn Ítalíu til að innlima hana. D'Annunzio réð yfir Fiume sem sjálfstæðu borgríki í rúmt ár með titlunum Duce og Commandante en neyddist til að láta af völdum í september 1920 þegar ítalski herinn endurheimti borgina og skilaði henni til Júgóslavíu.
D'Annunzio er gjarnan álitinn undanfari ítalsks fasisma. Hugmyndafræði hans og stílbrögð höfðu djúpstæð áhrif á Benito Mussolini og Fasistaflokkinn og stjórnarfar hans í Fiume varð fasistastjórn Ítalíu síðar um margt að fyrirmynd.[1]
Æviágrip
Gabriele D'Annunzio fæddist þann 12. mars 1863 í smábænum Pescara við Adríahafið. Faðir hans hafði um tíma verið bæjarstjóri í Pescara og bæjarfulltrúi í öðrum nærliggjandi bæ, Francavilla al Mare. Faðir Gabrieles kostaði hann til mennta og greiddi árið 1878 fyrir prentun á fyrsta útgefna ljóði sonar síns, sem var lofkvæði um Úmbertó konung. Næsta ár prentaði faðir Gabrieles útgáfu fyrstu ljóðabókar hans undir titlinum Primo vere.[2]
Verk D'Annunzio einkenndust af ögrandi lýsingum af lastahneigð manna og glæpsamlegu athæfi, algyðishyggju, sjálfsdýrkun og andúð á meðalmennsku. Ritstíll D'Annunzio varð umdeildur og margumræddur í bókmenntaheiminum, sér í lagi eftir að hann hóf að semja skáldsögur. Þrátt fyrir að verk hans væru umdeild nutu þau mikilla vinsælda hjá ítalskri alþýðu og D'Annunzio efnaðist vel á ritstörfum sínum.[3]
Árið 1910 glataði D'Annunzio landsetri sínu nálægt Flórens, Cappocina, í hendur skuldunauta sinna og flutti til Frakklands. Hann gaf út verk bæði á ítölsku og frönsku næstu árin. D'Annunzio var enn staddur í Frakklandi þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 og hann varð fljótt talsmaður þess að Ítalir skyldu ganga inn í styrjöldina við hlið bandamanna, þrátt fyrir að Ítalía ætti þá í bandalagi við Þýskaland og Austurríki. D'Annunzio var fylgjandi því að Ítalir beittu hervaldi til þess að þenja út landamæri sín og skapa stærra ríki fyrir allt fólk af ítölsku þjóðerni.[3]
Fyrri heimsstyrjöldin
Þegar D'Annunzio sneri heim til Ítalíu átti stríðsæsingur hans á móti Austurríki stóran þátt í því að Ítalir ákváðu að rifta bandalagi sínu við Miðveldin og gengu inn í styrjöldina ásamt bandamönnum. D'Annunzio gekk í ítalska herinn sem riddaraliðsforingi en bað síðan um að vera fluttur í fótgöngulið þar sem riddaraliðin gátu ekki tekið virkan þátt í æ vélvæddari hernaði styrjaldarinnar. Hann tók þátt í skotgrafahernaði á Karst-sléttunni en færði sig síðan yfir í sjóherinn. Þar stóð hann fyrir kafbátaárásum á skipahöfn Miðveldanna í Pula. Loks færði D'Annunzio sig yfir í flugherinn og tók þátt í frægu flugi yfir Vínarborg þar sem ítalskar herflugvélar vörpuðu áróðursbæklingum með texta eftir D'Annunzio yfir borgarbúa.[3]
D'Annunzio missti sjón á hægra auga í styrjöldinni og særðist illa á höku. Eftir að styrjöldinni lauk varð D'Annunzio talsmaður hreyfingar þeirra sem töldu að ítalska þjóðin hefði verið svívirt við samningu friðarskilmálanna þar sem landið fékk ekki að innlima mikið af því landsvæði sem ítalskir þjóðernissinnar töldu að Ítalía ætti með réttu. D'Annunzio gaf út ádeiluritið Contro uno e contro tutti (ís. Gegn einum sem öllum), sem kynti undir þjóðernisæsingi gegn friðarskilmálunum.[3]
Hernámið í Fiume og þróun fasismans
Árið 1919 hertóku D'Annunzio og hópur sjálfboðaliða sem studdu hann borgina Fiume (nú Rijeka í Króatíu), sem margir Ítalar höfðu viljað innlima í styrjöldinni en hafði orðið hluti af Konungsríkinu Júgóslavíu við stríðslok. D'Annunzio fór með einræðisvald í Fiume í fimmtán mánuði áður en ítalska stjórnin beitti valdi til að reka hann þaðan í samræmi við Rapallo-sáttmálann sem Ítalía hafði gert við bandamenn. Þrátt fyrir endalok hernámsins hafði D'Annunzio haft þau áhrif að árið 1924 var fallist á að veita ítalska konungsríkinu yfirráð yfir Fiume á ný.[3]
Á meðan D'Annunzio réð yfir Fiume þróaði hann stjórnaraðferðir sem áttu eftir að verða ein af fyrirmyndum ítalsks fasisma. D'Annunzio notaði fasískt skipulag og starfsaðferðir gagnvart hermönnum sínum, notaði rómverskar kveðjur, svartar skyrtur og húfur sem áttu eftir að vera hluti af einkennisklæðnaði fasista. Árið 1922 sagðist D'Annunzio ætla sér að „taka Róm“ ásamt stuðningsmönnum sínum en að endingu varð Benito Mussolini, sem hafði byggt upp fasíska þjóðernishreyfingu á svipuðum hugmyndum og D'Annunzio hafði þróað, fyrri til að ræna völdum með göngunni til Rómar í október 1922.[1]
Eftir styrjöldina var D'Annunzio sæmdur aðalstitlinum fursti af Montenevoso. Furstatitill hans var kenndur við fjall á nýjum austanverðum landamærum Ítalíu sem er nú í Slóveníu. Eftir hernámið í Fiume hætti D'Annunzio að mestu afskiptum af ítölskum stjórnmálum og dró sig til hlés á landareign sinni í Gargnacco við Garda-vatn, þar sem ítalska ríkið gaf honum höllina Il Vittoriale.[3] D'Annunzio tilkynnti nokkrum sinnum að hann hygðist snúa aftur á svið ítalskra stjórnmála en Mussolini gerði sitt besta til að einangra D'Annunzio til þess að hann gæti ekki orðið honum keppinautur. Eftir að Mussolini komst til valda veitti hann D'Annunzio háa styrki og ýmsar ívilnanir til þess að rithöfundinn vanhagaði ekki um neitt á setri sínu í Gargnacco. Mussolini fór stundum í heimsóknir til D'Annunzio til að heiðra hann þar til D'Annunzio lést árið 1938.[1]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 „D'Annunzio — Í klóm Mussolini“. Lesbók Morgunblaðsins. 1. febrúar 1931. bls. 25-27.
- ↑ Niels Th. Thomsen (1. júlí 1933). „d'Annunzio“. Heimilisblaðið. bls. 1-7.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Þórhallur Þorgilsson (5. mars 1938). „Skáldið og hermaðurinn Gabriele D'Annunzio“. Nýja dagblaðið. bls. 3-4.