Hákon Aðalsteinsfóstri

Hákon Aðalsteinsfóstri með bændum við blót á Mæri. Málverk eftir Peter Nicolai Arbo.

Hákon Aðalsteinsfóstri (d. um 961) eða Hákon góði var konungur Noregs um miðja 10. öld. Hann var yngsti sonur Haraldar hárfagra og hafði alist upp frá tíu ára aldri við hirð Aðalsteins (Aethelstans) Englandskonungs.

Hákon sneri aftur heim frá Englandi þegar hann var um tvítugt. Eiríkur konungur bróðir hans var þá orðinn mjög óvinsæll. Hann flúði land þegar Hákon kom og var hann þá þegar tekinn til konungs. Hann hafði verið skírður í Englandi og hafði með sér presta til Noregs en þurfti að kasta kristninni þegar hann tók við ríkinu, að minnsta kosti í orði.

Gunnhildur kóngamóðir, kona Eiríks blóðaxar, hafði sest að í Danmörku ásamt fjórum sonum þeirra og þaðan herjuðu þeir á ríki Hákonar með tilstyrk Haraldar blátannar Danakonungs, sem líklega var bróðir Gunnhildar. Þeir fóru í þrjár herferðir til Noregs og í þeirri seinustu, 960 eða 961, tókst þeim að særa Hákon konung til ólífis. Hann átti engan son og elsti sonur Eiríks og Gunnhildar, Haraldur gráfeldur, tók við ríkinu.

Heimildir


Fyrirrennari:
Eiríkur blóðöx
Konungur Noregs
(um 935 – um 961)
Eftirmaður:
Haraldur gráfeldur