Hinrik 4. Frakkakonungur
| ||||
Hinrik 4.
| ||||
Ríkisár | 2. ágúst 1589 - 14. maí 1610 | |||
Skírnarnafn | Henri de Bourbon | |||
Fæddur | 13. desember 1553 | |||
Pau, Frakklandi | ||||
Dáinn | 14. maí 1610 (56 ára) | |||
París, Frakklandi | ||||
Gröf | Kirkja heilags Díónýsíusar, París | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Anton af Navarra | |||
Móðir | Jóhanna 3. af Navarra | |||
Drottning | (1572) Margrét af Valois (1600) Marie de' Medici | |||
Börn | - |
Hinrik 4. Frakkakonungur eða Hinrik 3. af Navarra (13. desember 1553 – 14. maí 1610) var konungur Navarra frá 1572 og konungur Frakklands frá 1589. Hann var fyrsti konungurinn af ætt Búrbóna sem var grein af ætt Kapetinga.
Hinrik var sonur Jóhönnu 3., drottningar Navarra, og eiginmanns hennar, Antons hertoga af Vendôme, sem fékk titilinn Konungur Navarra þegar hann gekk að eiga Jóhönnu. Hún var eindreginn húgenotti og gerði kalvínisma að ríkistrú í Navarra en Antoine virðist ekki hafa haft mikla trúarsannfæringu því hann skipti hvað eftir annað um trúarbrögð. Hinrik var skírður til kaþólskrar trúar en alinn upp sem mótmælandi og hóf þátttöku í Frönsku trúarbragðastyrjöldunum á unglingsaldri.
Móðir Hinriks dó 9. júní 1572 og hann tók þá við völdum í Navarra (faðir hans hafði látist 1562). Áður en Jeanne dó hafði verið gengið frá samkomulagi um að Hinrik gengi að eiga Margréti af Valois, systur Karls 9. Frakkakonungs og dóttur Hinriks 2. og Katrínar af Medici. Brúðkaupið var haldið í París 19. ágúst um sumarið en þann 24. ágúst hófust Bartólómeusarvígin og leiðtogum húgenotta sem höfðu komið til borgarinnar til að vera við brúðkaupið var slátrað og í kjölfarið öllum mótmælendum sem til náðist í París. Hinrik skapp naumlega með hjálp konu sinnar og neyddist til að játa kaþólska trú. Hann var kyrrsettur við frönsku hirðina en snemma árs 1576 tókst honum að komast til Suður-Frakklands, þar sem hann afneitaði kaþólskunni og gerðist að nýju einn af leiðtogum húgenotta.
Árið 1584 dó Frans hertogi af Anjou, yngsti bróðir Hinriks 3., þáverandi Frakkakonungs. Samkvæmt þeim erfðalögum sem giltu um frönsku krúnuna áttu systur konungs og börn þeirra engan erfðarétt og svo vildi til að næsti erfingi að krúnunni var Hinrik Navarrakonungur, sem var afkomandi Loðvíks 9. Frakkakonungs í karllegg. En þar sem hann var húgenotti voru leiðtogar kaþólikka afar ósáttir og þetta hratt af stað nýrri lotu í Frönsku trúarbragðastyrjöldunum, sem hefur verið kölluð „stríð Hinrikanna þriggja“, það er að segja Hinriks Frakkakonungs, Hinriks Navarrakonungs og Hinriks hertoga af Guise, helsta herforingja kaþólikka, sem sjálfur er sagður hafa haft augastað á krúnunni. Um jólin 1588 leiddi Hinrik Frakkakonungur svo Hinrik hertoga og bróður hans, kardínálann af Guise, í gildru og lét lífverði sína drepa þá. Sjálfur var hann drepinn af launmorðingja 2. ágúst 1589.
Konungur Frakklands
Hinrik af Navarra varð þá konungur Frakklands en gekk ekki þrautalaust að ná völdum. Kaþólska bandalagið barðist af krafti á móti honum en það sem meðal annars háði baráttu þess var skortur á heppilegum valkosti í hásætið. Reynt var að lýsa föðurbróður Hinriks, Karl kardínála af Bourbon, konung en sá hængur var á að hann var fangi Hinriks. Þegar hann dó ári siðar studdu kaþólikkar Ísabellu Klöru Evgeníu, dóttur Filippusar 2. Spánarkonungs og Elísabetar af Valois, systur Hinriks 3., en það mætti mikilli mótstöðu því margir óttuðust aukin áhrif Spánverja. Hinrik tókst þó ekki að ná París á sitt vald.
En 25. júlí 1593 afneitaði Hinrik kalvínismanum og gerðist kaþólikki til að tryggja sér stuðning þegna sinna. Húgenottar voru vitaskuld ósáttir við þá ákvörðun en sú saga hefur lengi verið sögð að Hinrik hafi sagt „París er þó alltaf einnar messu virði“. Hann var krýndur konungur Frakklands 27. febrúar 1594. Árið 1598 gaf hann út Nantes-tilskipunina sem tryggði mótmælendum trúfrelsi og batt þar með enda á borgarastyrjöldina.
Hinrik var vinsæll hjá þegnum sínum, sem kölluðu hann Hinrik mikla (Henri le Grand), Hinrik góða (Le bon roi Henri) eða græna glæsimennið (Le vert galant), sem vísar meðal annars til kvenhylli hans. Hann var líka hermannlegur, glaðvær, djarfur og hraustur, algjör andstæða við síðustu konungana af Valois-ætt, sem voru heilsuveilir, daufgerðir og stóðu í skugga móður sinnar, Katrínar af Medici. Hann hafði mikinn áhuga á velferð þegna sinna og var umburðarlyndur í trúmálum.
Þó átti Hinrik marga óvini og voru honum sýnd nokkur banatilræði. Á endanum var hann myrtur af kaþólskum trúarofstækismanni, François Ravaillac.
Hjónabönd
Hjónaband Hinriks og Margrétar af Valois var ekki hamingjusamt og þau eignuðust engin börn saman. Þau höfðu slitið sambúð áður en Hinrik tók við frönsku krúnunni en nú þurfti að tryggja ríkiserfðirnar. Sjálfur vildi hann reyna að láta ógilda hjónabandi og ganga að eiga ástmey sína, Gabrielle d'Estrées, sem hafði þegar fætt honum þrjú börn. Hann elskaði hana heitt og hún var einn helsti ráðgjafi hans. Sú fyrirætlun þótti mörgum mikið óráð en Hinrik stóð fastur við sitt og sótti um ógildingu hjónabandsins og leyfi til að giftast aftur til páfa. Fáeinum dögum seinna, 9. apríl 1599, fæddi Gabrielle andvana son fyrir tímann og dó næsta dag.
Páfi brást vel við ósk Hinriks og ógilti hjónaband hans og Margrétar. Í október árið 1600 gekk hann að eiga Maríu de'Medici, dóttur stórhertogans af Toskana. Hinrik var farinn að nálgast fimmtugt og bráðlá á að eignast erfingja. Á því varð heldur engin bið, sonurinn Loðvík fæddist ellefu mánuðum síðar og síðan fimm börn til viðbótar. Loðvík var aðeins átta ára þegar faðir hans var myrtur og var móðir hans gerð að ríkisstjóra.
Heimild
- Fyrirmynd greinarinnar var „Henry IV of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. ágúst 2010.
Fyrirrennari: Jóhanna 3. |
|
Eftirmaður: Loðvík 13. | |||
Fyrirrennari: Hinrik 3. |
|
Eftirmaður: Loðvík 13. |