John Curtin
John Curtin | |
---|---|
Forsætisráðherra Ástralíu | |
Í embætti 7. október 1941 – 5. júlí 1945 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 6. |
Landstjóri | Gowrie lávarður Hinrik prins, hertogi af Gloucester |
Forveri | Arthur Fadden |
Eftirmaður | Frank Forde |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. janúar 1885 Creswick, Ástralíu |
Látinn | 5. júlí 1945 (60 ára) Canberra, Ástralíu |
Þjóðerni | Ástralskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Elsie Needham (g. 1917) |
Trúarbrögð | Efahyggja |
Börn | 2 |
Undirskrift |
John Joseph Curtin (8. janúar 1885 – 5. júlí 1945) var ástralskur stjórnmálamaður sem var fjórtándi forsætisráðherra Ástralíu. Hann leiddi áströlsku þjóðina í seinni heimsstyrjöldinni og er gjarnan talinn með ástsælustu forsætisráðherrum Ástralíu.[1] Hershöfðinginn Douglas MacArthur sagði um Curtin að hann hefði verið „einn merkasti þjóðarleiðtogi stríðsáranna.“[2] Forveri Curtins, Arthur Fadden úr Sveitaflokknum, sagði um hann: „Að mínu mati var engin merkari persóna í áströlskum stjórnmálum á minni ævi en Curtin.“[3]
Æviágrip
Curtin fæddist í þorpinu Creswick í miðju fylkinu Victoriu. Faðir hans var lögregluþjónn af írskum ættum. Curtin hætti í grunnskóla þegar hann var tólf ára og hóf störf í verksmiðju í Melbourne. Hann gekk ungur að árum í ástralska Verkamannaflokkinn og Sósíalistaflokk Victoriu, sem var marxískur stjórnmálaflokkur. Hann samdi greinar í tímarit róttæklinga og sósíalista undir nafninu „Jack Curtin.“
Árið 1911 var Curtin ráðinn til starfa af framkvæmdastjórn stéttarfélags tréiðnaðarmanna. Á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar barðist hann gegn herkvaðningu í Ástralíu. Kvenréttindakonan Adela Pankhurst tók þátt í baráttunni.[4]
Curtin var frambjóðandi Verkamanna í kjördæminu Balaklava árið 1914. Hann var handtekinn í nokkra daga fyrir að neita að gangast undir skyldubundið læknispróf í tengslum við herkvaðninguna, þrátt fyrir að hann hafi vitað að hann myndi ekki standast prófið vegna sjónleysis. Á þessum tíma lagðist Curtin í óhóflega áfengisneyslu, sem átti eftir að sliga feril hans í mörg ár. Árið 1917 kvæntist hann Elsie Needham, systur þingmanns úr Verkamannaflokknum.
Stjórnmálaferill
Curtin settist að í Perth árið 1918 til að ritstýra blaðinu Westralian Worker, sem talaði máli verkalýðshreyfingarinnar. Hann naut rólegra andrúmsloftsins í Vestur-Ástralíu og pólitísk viðhorf hans urðu nokkuð hófsamari á þessum tíma. Hann var nokkrum sinnum frambjóðandi Verkamannaflokksins í þingkosningum áður en hann náði loksins á þing sem fulltrúi kjördæmisins Fremantle í kosningum ársins 1928. Hann vonaðist til þess að geta orðið ráðherra í ríkisstjórn James Scullin en drykkjuvandamál hans leiddu til þess að Curtin var útilokaður. Curtin tapaði þingsæti sínu í kosningum árið 1931 en komst aftur á þing árið 1934.
Þegar Scullin sagði af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins árið 1935 var Curtin óvænt kjörinn leiðtogi í hans stað með meirihluta atkvæða. Vinstri vængur flokksins og verkalýðshreyfingin studdu Curtin á móti keppinauti hans, Frank Forde, sem hafði stutt efnahagsstefnu Scullins. Stuðningsmenn Curtins fengu hann jafnframt til að lofa að hætta að drekka.
Flokkurinn bætti við sig nokkrum sætum í næstu kosningum árið 1937 en Sveitaflokkurinn undir forystu Josephs Lyons viðhélt rúmum meirihluta. Eftir dauða Lyons árið 1939 batnaði staða Verkamannaflokksins og aðeins munaði nokkrum sætum að Curtin tækist að vinna kosningar ársins 1940.
Forsætisráðherra
Curtin hafnaði tilboði Roberts Menzies forsætisráðherra um að stofna þjóðstjórn á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar af ótta við að fylgi Verkamannaflokksins myndi hrynja. Í október 1941 drógu tveir óháðir þingmenn stuðning sinn við stjórn íhaldsmanna til baka, sem leiddi til þess að Curtin varð forsætisráðherra.
Daginn eftir árásina á Perluhöfn þann 7. desember 1941 opnuðust Kyrrahafsvígstöðvar seinni heimsstyrjaldarinnar og Curtin neyddist því til að taka afar þýðingarmiklar ákvarðanir fyrir Ástralíu.
Curtin stofnaði til náins sambands við leiðtoga hers bandamanna á Suðvestur-Kyrrahafi, hershöfðingjann Douglas MacArthur. Curtin óttaðist að bandamenn myndu virða hagsmuni Ástrala að vettugi ef ekki væri sterk rödd sem talaði máli þeirra við yfirvöld í Washington. Hann óskaði þess af MacArthur að hann talaði máli Ástrala við Bandaríkjastjórn. Curtin gaf MacArthur stjórn á ástralska hernum, en undir yfirstjórn áströlsku ríkisstjórnarinnar.
Ástralska ríkisstjórnin hafði fallist á að fyrsta hersveit sín yrði flutt frá Norður-Afríku til Hollensku Austur-Indía. Í febrúar, eftir fall Singapúr og ósigur 8. deildar Ástralíuhers, reyndi Winston Churchill að flytja fyrstu áströlsku herdeildina til að styðja breska hermenn í Búrma án þess að ráðfæra sig við áströlsk stjórnvöld. Curtin krafðist þess að hermennirnir fengju að snúa heim til Ástralíu en féllst þó á að meirihluti 6. herdeildarinnar yrði skilinn eftir á Seylon.
Þann 19. febrúar gerðu Japanir spengjuárásir á Darwin. Þetta var fyrsta af mörgum loftárásum sem Ástralir urðu fyrir í styrjöldinni og hún undirstrikaði ógnina sem stafaði af Japönum í augum þjóðarinnar.
Undir lok ársins 1942, eftir orrusturnar um Kóralhaf, við Milne-flóa og herförina um Kokoda-slóðina, sem háðar voru gegn japönskum hersveitum nálægt ströndum Ástralíu, skynjaði ástralskur almenningur hættuna á japanskri innrás í landið. Í ágúst vann Verkamannaflokkurinn stærsta kosningasigur í sögu sinni.
Curtin lét breyta ástralskum varnarlögum svo hægt væri að senda varalið Ástralíuhers út fyrir landsteina Ástralíu, til landa í suðvesturhluta Kyrrahafs sem landstjórinn taldi skipta máli við varnir Ástralíu.[5] Þessar breytingar mættu mikilli mótstöðu gamalla stuðningsmanna Curtins í vinstri væng Verkamannaflokksins sem leiddir voru af Arthur Calwell.
Streitan af þessum innanflokksdeilum gróf mjög undan heilsu Curtins, sem tók að versna í byrjun ársins 1945. Curtin lést þann 5. júlí 1945, þá 60 ára gamall. Hann var grafinn í Perth þann 9. júlí.
Frank Forde tók við af Curtin sem forsætisráðherra fyrst um sinn, en veik úr embætti fyrir Ben Chifley eftir leiðtogakjör innan Verkamannaflokksins aðeins viku síðar.
Curtin er til þessa dags eini forsætisráðherra Ástralíu sem hefur verið kjörinn úr kjördæmi í Vestur-Ástralíu.
Tilvísanir
- ↑ „John Curtin“. Þjóðskjalasafn Ástralíu. Sótt 31. janúar 2022.
- ↑ General Douglas MacArthur, Reminiscences, Heinemann, London, 1967. Bls. 258.
- ↑ Formáli eftir R.J. Hawke við John Curtin - Saviour of Australia, Norman E Lee, Longman Cheshire, 1983. bls. 83.
- ↑ Jeff Sparrow (23. desember 2015). „'Wayward suffragette' Adela Pankhurst and her remarkable Australian life“ (enska). The Guardian. Sótt 1. febrúar 2022.
- ↑ „National Archives of Australia: National service and war, 1939–45“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. ágúst 2007. Sótt 1. febrúar 2022.
Fyrirrennari: Arthur Fadden |
|
Eftirmaður: Frank Forde |