Josip Broz Tito
Josip Broz Tito | |
---|---|
Јосип Броз Тито | |
Forseti Júgóslavíu | |
Í embætti 14. janúar 1953 – 4. maí 1980 | |
Forsætisráðherra | Listi
|
Varaforseti | Listi
|
Forveri | Ivan Ribar (sem forseti forsætisnefndar alþýðuráðs Júgóslavíu) |
Eftirmaður | Lazar Koliševski (sem forseti forsetaráðs) |
Forsætisráðherra Júgóslavíu | |
Í embætti 2. nóvember 1944 – 29. júní 1963 | |
Forseti | Ivan Ribar Hann sjálfur (frá 1953) |
Forveri | Ivan Šubašić |
Eftirmaður | Petar Stambolić |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 7. maí 1892 Kumrovec, Króatíu-Slavoníu, austurrísk-ungverska keisaradæminu |
Látinn | 4. maí 1980 (87 ára) Ljubljana, Júgóslavíu |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistasamband Júgóslavíu |
Maki | Pelagija Broz (1920–1939), skilin Herta Haas (1940–1943) Jovanka Broz (1952–1980) |
Börn | Zlatica Broz, Hinko Broz, Žarko Leon Broz, Aleksandar Broz |
Starf | Herforingi, byltingarmaður, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Josip Broz Tito (kýrillískt stafróf: Јосип Броз Тито), fæddur undir nafninu Josip Broz (7. maí 1892 – 4. maí 1980) var júgóslavneskur kommúnisti, byltingarmaður og stjórnmálamaður sem var helsti pólitíski leiðtogi Júgóslavíu frá árinu 1943 til dauðadags árið 1980.[1]
Í seinni heimsstyrjöldinni var Tito leiðtogi júgóslavnesku andspyrnuhreyfingarinnar, sem oft var talin farsælasta andspyrnuhreyfing í hernumdu landi á stríðsárunum.[2] Eftir stríð varð hann forsætisráðherra og síðan forseti Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Á valdatíma sínum var Tito oft gagnrýndur fyrir gerræðislega stjórnarhætti[3] og fyrir bælingu á pólitísku andófi en sumir sagnfræðingar líta engu að síður á hann sem „velviljaðan einræðisherra“.[4] Hann var vinsæll leiðtogi bæði í Júgóslavíu og erlendis á sínum tíma.[5]
Innanlands var litið á Tito sem sameiningartákn[6] og hann rak innanríkisstefnu sem miðaði að því að viðhalda friðsamlegri sambúð ríkjanna innan júgóslavneska ríkjasambandsins. Tito vakti einnig athygli á alþjóðasviði sem helsti foringi Samtaka hlutlausra ríkja ásamt Jawaharlal Nehru frá Indlandi, Gamal Abdel Nasser frá Egyptalandi og Sukarno frá Indónesíu.[7] Túlkun Titos á kommúnisma er kennd við hann og nefnist títóismi.
Æviágrip
Josip Broz fæddist í þorpinu Kumrovec í Króatíu og var sonur króatísks föður og slóvenskrar móður. Hann var kvaddur í austurrísk-ungverska herinn og gegndi enn herþjónustu þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914. Árið 1915 var Josip Broz yfirliðþjálfi 90 króatískra fótgönguliða sem börðust á móti rússneska hernum í Karpatafjöllum. Hann særðist og var tekinn til fanga af rússneskum hermönnum og dvaldi í rúmt ár sem stríðsfangi í búðum nærri Kazan.[8]
Broz var sleppt úr haldi ásamt fleiri stríðsföngum eftir febrúarbyltinguna í Petrograd árið 1917. Hann tók þátt í októberbyltingunni og gekk síðar til liðs við varðsveit rauðliða í Omsk.[8]
Þegar Broz sneri heim var búið að stofna sjálfstætt konungsríki í Júgóslavíu. Hann gekk óðara til liðs við neðanjarðarhreyfingu kommúnista þar í landi en var tekinn höndum og dæmdur í fimm ára fangelsi árið 1930. Eftir lausnina úr fangelsi flúði hann til Austurríkis og gerðist starfsmaður júgóslavneska kommúnistaflokksins, sem hafði verið bannaður í heimalandinu.[9] Josip Broz Tito var fulltrúi á 7. heimsþingi Komintern og kenndi við tvo flokksskóla kommúnista í Moskvu, Vesturskólann og Lenínskólann.[10]
Hann var aðalritari (síðar formaður) Kommúnistasambands Júgóslavíu (1939–80) og átti síðar eftir að leiða skæruhernað júgóslavneskra andspyrnumanna gegn hernámi nasista (1941–45).[11] Eftir að stríðinu lauk varð Tito forsætisráðherra Júgóslavíu (1944–63), síðan forseti (síðar forseti til lífstíðar) (1953–80) sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu. Frá árinu 1943 til dauðadags var hann marskálkur Júgóslavíu og æðsti yfirmaður júgóslavneska hersins. Í kalda stríðinu var Tito virtur beggja megin við Járntjaldið og hlaut 98 erlend heiðursverðlaun, þar á meðal í Frakklandi og Bretlandi.
Tito var helsti hönnuður síðara júgóslavneska ríkisins, sósíalísks ríkjasambands sem entist frá árinu 1942 til ársins 1992. Þrátt fyrir að vera einn stofnenda Kominformsins, alþjóðasambands kommúnistaflokka, varð Tito fyrsti meðlimur þess sem óhlýðnaðist yfirráðum Sovétríkjanna og sá eini sem tókst að segja sig úr Kominforminu og reka áfram eigin túlkun á sósíalisma. Tito studdi sjálfstæðar brautir til sósíalisma (sem stundum voru kallaðar „þjóðerniskommúnismi“). Árið 1951 innleiddi hann sjálfsstjórnarkerfi verkamanna sem skar Júgóslavíu mjög úr hópi annarra sósíalískra ríkja. Eftir að hafa innleitt kerfi byggt á markaðssósíalisma óx hagkerfi Júgóslavíu á sjötta og sjöunda áratugnum en skrapp aftur saman á þeim áttunda. Í innanríkismálum beitti Tito sér fyrir bælingu á þjóðerniskennd stakra ríkja innan Júgóslavíu og ræktun „bræðralags og sameiningar“ á milli þeirra.
Eftir að Tito lést árið 1980 óx ágreiningur milli júgóslavnesku lýðveldanna á árunum 1991–92 og ríkið leystist upp í hriðu styrjalda og óeirðar sem entist út áratuginn og hefur enn áhrif á mörg fyrrverandi júgóslavnesk lýðveldi.
Tenglar
- Ritsafn Títós á Marxists.org
Tilvísanir
- ↑ „Josip Broz Tito“. Encyclopædia Britannica Online. Sótt 27. apríl 2010.
- ↑ Rhodri Jeffreys-Jones (13. júní 2013). In Spies We Trust: The Story of Western Intelligence. OUP Oxford. bls. 87.
- ↑ Andjelic, Neven (2003). Bosnia-Herzegovina: The End of a Legacy. Frank Cass. bls. 36.
- ↑ Shapiro, Susan; Shapiro, Ronald (2004). The Curtain Rises: Oral Histories of the Fall of Communism in Eastern Europe. McFarland.
- ↑ Melissa Katherine Bokovoy, Jill A. Irvine, Carol S. Lilly, State-society relations in Yugoslavia, 1945–1992; Palgrave Macmillan, 1997 bls. 36.
- ↑ Martha L. Cottam, Beth Dietz-Uhler, Elena Mastors, Thomas Preston, Introduction to political psychology, Psychology Press, 2009 bls. 243
- ↑ Peter Willetts, The non-aligned movement: the origins of a Third World alliance (1978) bls. xiv
- ↑ 8,0 8,1 „Menn sem settu svip á öldina: Jósef Broz Tító“. Samvinnan. 1. febrúar 1969. bls. 12–18.
- ↑ „Josip Broz Tító: Kommúnistaforingi – þjóðhetja – stjórnmálaskörungur –1892–1980“. Morgunblaðið. 6. maí 1980. bls. 18–19.
- ↑ Einar Olgeirsson (1. apríl 1980). „Tító látinn“. Réttur. bls. 72–83.
- ↑ Bremmer, Ian (2007). The J Curve: A New Way to Understand Why Nations Rise and Fall. Simon & Schuster. bls. 175.