Laugavegur
Laugavegur er helsta verslunargatan í miðbæ Reykjavíkur. Hún liggur frá Bankastræti í vestri að Kringlumýrarbraut til austurs. Þar tekur Suðurlandsbrautin við. Við götuna er fjöldi verslana, næturklúbba, bara og ýmissa þjónustufyrirtækja, auk íbúða.
Saga
Lagning Laugavegar var samþykkt í bæjarstjórn árið 1885. Skyldi hann auðvelda fólki ferðir í Þvottalaugarnar sem gatan dregur nafn sitt af. Einnig skyldi þjóðvegurinn út úr bænum koma í framhaldi af Laugavegi, enda höfðu Elliðaár þá verið brúaðar nýlega. Lagning Laugavegar, austur af gamla Vegamótastíg (sem er alls ekki sá sem núna liggur milli Laugavegar og Skólavörðustígs), hófst árið 1886 og var Vegamótastígur þá gerður að hluta Laugavegar.
Kjarval og Laugavegurinn
Árið 1923 skrifaði Jóhannes Kjarval grein í Morgunblaðið sem nefndist Reykjavík og aðrar borgir. Í henni telur hann margt Reykjavík til tekna og ræðir þar og meðal um Laugaveginn. Hann segir þar:
- Laugavegurinn er svo formfull og laðandi gata, að hreinasta yndi er að ganga hana, ef hún bara væri hreinlegri en hún er og ef hún væri sléttuð og snyrtilega um hana hugsað frá Smiðjustíg alla leið inn að Rauðárlæk, má segja að gatan lokki mann og seyði. Þessi ör fíni halli, sem laðar augað og tilfinninguna inneftir - inneftir - eða niðureftir á víxl.
Hann lýkur greininni svo með því að tala um Reykjavík almennt, og spyr hvað hana vanti, og heldur áfram:
- Stórhýsin meðfram götunum munu margir segja, fagran byggingarstíl til þess að öðlast menningarbraginn. Nei, það er ekki það sem skapar menningarbrag. Það er samræmið. Það er vitandi nægjusemin byggð á útreikningi eftir ákveðnum lögum og heppni einstöku sinnum. Það er smekkur, sem skapar menningarbrag, hreinlæti - virðing fyrir sjálfum sér, og ást á einhverju, sem stendur fyrir utan einstaklinginn. Þetta sem allir eiga í sameiningu: sérkennið, þjóðarrétturinn og vísindin. [1]
Hús við Laugaveginn
- Laugavegur 1: Húsið var reist árið 1848 með veitingarekstur í huga. Ári síðar eignaðist Jón Pétursson háyfirdómari það. Þar hefur um áratugaskeið verið verslunarrekstur, þar á meðal verslunin Vísir.
- Laugavegur 2: Húsið var reist árið 1886 af Halldóri Þórðarsyni bókbindara og prentsmiðjustjóra. Byggingameistari var Guðmundur Jakobsson og var talið eitt af glæsilegustu húsum bæjarins. Húsið nefndi Halldór Maríuminni í höfuðið á eiginkonu sinni, Maríu Kristjánsdóttur.
- Laugavegur 4: Þar sem Laugavegur 4 er núna, var áður torfbær sem nefndur var Snússa. Býli þetta stóð á ofurlitlum hól og hét upphaflega Litlibær. Lárus Hallgrímsson (bróðir Séra Sveinbjarnar) byggði það upp og var það þá kallað Lárushús, en hlaut seinna nafnið Hólshús. En í daglegu tali var það kallað Snússa. Halldór bókbindari lét rífa það og byggði þar tvílyft timburhús.[2] Á árunum 1890-1915 var Félagsprentsmiðjan til húsa að Laugavegi 4. Hún var í eigu Halldórs, en hann reisti og bjó í húsinu við hliðina, á horni Laugavegar og Skólavörðustígs, þ.e. að Laugavegi 2.
- Laugavegur 6: Um 1904 var álnavöruverslun í jarðhæð hússins að Laugavegi 6. Þar var verslun Benedikts H. Sigmundssonar sem auglýsti flauel frá kr. 0,65, kjóla og svuntu-tau, sirz, hvít lérept, tvisttau, gólfteppi, smá og stór og m.fl. allt afaródýrt. Enn fremur handsápur, Chocolade, barnaleikföng o.fl., einnig með 15-20% afslætti. Í auglýsingu í Þjóðólfi sama ár stendur þetta: Frá 14. maí n.k. fæst mjög þægileg íbúð ásamt meðfylgjandi pakkhúsi og matjurtargarði á Laugavegi 6. Lysthafendur semji sem fyrst við Moritz W. Biering. Moritz þessi var kaupmaður.
- Laugavegur 11: Veitingastaðurinn Ítalía
- Laugavegur 21: Kaffi Hljómalind
- Laugavegur 31: Biskupsstofa
- Laugavegur 32: Hér bjó Halldór Laxness í bernsku sinni. Hann segir svo frá í Í túninu heima: Fróðir menn segja mér að ég muni ekki hafa fæðst í timburhúsi uppí lóðinni á Laugavegi 32 þar sem stelpan misti mig útum gluggann, heldur muni það hafa gerst í steinbænum fast við götuna þar sem kötturinn stökk uppí vögguna til að læsa klónum í andlitið á barninu meðan það svaf; og var heingdur fyrir vikið.
- Laugavegur 55: Þar var verslunin Von á fyrri hluta 20. aldar. Verslunina Von rak Gunnar Sigurðsson í þrjá og hálfan áratug og verslaði bæði með unnar og ferskar kjötvörur. Kjötbúðin Von var á sínum tíma mjög þekkt nafn í heimi viðskiptanna. Eftir að verslunin hætti var G.B. Silfurbúðin í plássinu sem Von hafði verið. Amatör, verslun með filmur og myndavélar var í vestari viðbyggingunni og einnig var Guðmundur Hannar úrsmiður um árabil með verslun og verkstæði í húsinu. Ljósmyndastofa var í mörg ár á efri hæð hússins.[3]
- Laugavegur 66: Húsið byggðu eigendur Herradeildar P & Ó, þeir Pétur Sigurðsson og Ólafur Maríusson og eigandi Kápunnar og Sigurður Egilsson (?). Þar voru reknar framangreindar verslanir um árabil auk annarra verslana t.d. Karnabær. Húsið var tekið í notkun 1970.
- Laugavegur 76: Vinnufatabúðin
- Laugavegur 90: Var um tíma aðsetur barónsins á Hvítárvöllum
- Laugavegur 96: Bandalag íslenskra leikfélaga
- Laugavegur 182: SMÁÍS
Tilvitnanir
Tenglar
- Björgum Laugaveginum frá eyðileggingu Geymt 8 október 2007 í Wayback Machine
- Þessi örfíni halli - sitthvað um Laugaveg fyrr og síðar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1987
- Ölstofur og æsandi fjör - sitthvað um Laugaveg fyrr og síðar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1987
- Rauða herbergið hans Rúts - sitthvað um Laugaveg fyrr og síðar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1987
- Blómatími smáverslana; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1987