Maquiladora
Maquiladora eða maquila er verksmiðja í Mið-Ameríku þangað sem hráefni er flutt tollfrjálst inn og unnið er úr því og fullunnin varan flutt út tollfrjálst á ný, oftast til sama lands og hráefnið kom frá. Í seinni tíð hafa sambærileg svæði, sem nefnd eru fríiðnaðarsvæði, sprottið upp víða um heim.
Aðstæðurnar í þessum maquiladora-verksmiðjum eru oftast slæmar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að eigendur reyna að koma í veg fyrir myndun verkalýðssamtaka[1][2], vegna eðlis vinnunnar - einhæf og einföld færibandavinna - eru það oftast ungar konur sem ráðast til vinnu í nokkra mánuði í senn. Oft er ekki gætt að heilsu starfsfólks og önnur réttindi fótum troðin.
Orðsifjar
Orðið maquiladora er úr spænsku, sem töluð er í Mið-Ameríku, og vísar annað hvort til þess hluta korns sem malarinn þáði sem greiðslu fyrir að mala korn fyrir fólk eða þá vélar (sp. maquina). Á ensku er orðið sweatshop stundum notað um sambærilega vinnustaði en skásta íslenska þýðingin á íslensku er þrælkunarbúðir.[3] Maquiladora er helst notað um slíka vinnustaði í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku þaðan sem flutt er út aðallega til Bandaríkjanna.
Staðsetning
Flestar maquiladora-verksmiðjurnar eru staðsettar meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Margar þessara verksmiðja hafa orðið til fyrir tilstilli Fríverslunarsamnings Norður Ameríku (NAFTA). Til dæmis eru 300 maquiladora-verksmiðjur í og við mexíkóska landamærabæinn Ciudad Juárez. Fjöldi þessara verksmiðja hefur aukist gríðarlega undanfarið. Árið 1985 voru 789 verksmiðjur, 2.747 árð 1995 og 3.508 árið 1997. Árið 1997 var áætlað að um 1 milljón manns störfuðu við þessar verksmiðjur.[4] Samkvæmt nýjustu tölum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, frá 2005, störfuðu rúmlega 1,2 milljón manns í maquiladora-verksmiðjum, 3,1 milljón ef tengd þjónustuvinna er tekin með. Samanlagt verðmæti útflutnings frá þessum verksmiðjum nam rúmlega 10,5 milljarði bandaríkjadala og er það helmingur af heildarútflutningi Mexíkó.[5]
Lagalegt umhverfi
Í orði kveðnu eiga sömu kröfur um umhverfisvernd við á maquiladora-verksmiðjunum og annarsstaðar í Mexíkó. Opinbert heilbrigðiskerfi stendur öllum til boða sem hluti launanna eiga að renna til. Hverri þeirri verksmiðju með fleiri en 100 manns í vinnu ber að hafa lækni við vinnu.
Í Mexíkó eru þrjú mismunandi lágmarkslaun eftir landssvæðum. Við landamærin í norðri eru lágmarkslaunin um 49 pesóar. Meðallaun maquiladora-vinnufólks eru ríflega tvöföld sú upphæð, um 110 pesóar sem hækkar með vinnualdri. Vinnuvikan í Mexíkó er 48 klukkustundir, á sunnudögum er greidd yfirvinna.
Skattar
- Fyrirtækjaskattur - Fyrirtækjum bjóðast þrír valmöguleikar: að greiða 6,9% af öllum eignum skráðum í Mexíkó, 6,5% af rekstrarkostnaði og útgjöldum það árið eða beita milliverðlagningu skilyrta samþykkis yfirvalda BNA og Mexíkó. Í öllum þrem tilvikum er skatturinn frádráttarbær í BNA.
- Fasteignaskattur - Varla marktækur.
- Atvinnuskattur - Maquiladora-verksmiðjum ber að greiða sérstakan atvinnuskatt sem leggst ofan á tekjuskatt starfsmanna.
- Virðisaukaskattur - Maquiladora-verksmiðjur þurfa eingöngu að greiða virðisaukaskatt af þeim vörum sem keyptar eru í Mexíkó. Hægt er að sækja um að fá hann endurgreiddan.
Tollar
Allt hráefni, vélar og aukahlutir má flytja inn til Mexíkó án þess að greitt sé af þeim tollur í 18 mánuði. Sé um vélar að ræða má framlengja um óákveðinn tíma. Hráefni og aukahlutir þarf að flytja aftur út innan þess tímaramma. Innflutningur á vöru sem er framleidd innan NAFTA er tollfrjáls sömuleiðis en af henni þarf að greiða 10% virðisaukaskatt.
Saga
Landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eru 3.169 km á lengd. Frá því á stríðsárunum eða árið 1942, þegar Bracero-samningurinn var gerður um aðgengi mexíkóskra verkamenn sem komu til árstíðarbundinna verkefna í landbúnaði, hefur samstarf tekist á milli þessara tveggja ríkisstjórna. Þeim samningi var slitið árið 1964 og Mexíkönunum gert að fara til síns heima.
Sökum þess að talsverður fjöldi Mexíkana reiddi sig á atvinnu handan landamæranna lagði mexíkanska ríkisstjórnin af stað með áætlun um iðnvæðingu landamæranna (e. Border Industrialization Program) strax árið eftir. Mexíkanar leyfðu því innflutning hráefnis án tolla og í staðinn ákváðu bandarísk yfirvöld að skattleggja aðeins virðisaukann, þ.e. andvirði vinnunnar. Þetta gerði það að verkum að vinnuaflið handan landamæranna varð ódýrara fyrir bandaríska framleiðendur. Upphaflega voru þessar maquiladora-verksmiðjur bundnar við landamærin en árið 1989 var samþykkt að leyfa framleiðendum að hafa slíkar verksmiðjur hvar sem er í Mexíkó.
Með tilkomu Fríverslunarsamnings Norður Ameríku árið 1994 var skatturinn á vinnunni sem framkvæmd er í Mexíkó afnuminn. Uppúr 2001, þegar Kína hlaut inngöngu í Alþjóða viðskiptastofnunina, leiddi aukin samkeppni til þess að mörg fyrirtæki færðu framleiðslu sína annað.
Tilvísanir
- ↑ „Questions about sweatshops“.
- ↑ „Document - Guatemala: Torture/ill-treatment / fear for safety“. 21. mars 1997.
- ↑ Beinþýðing skv. orðabók væri þrælabúðir eða þrælakista en það ýjar að nauðungarvinnu sem vinna við þessar verksmiðjur telst ekki vera.
- ↑ Naomi Klein (2001). No Logo. Flamingo. ISBN 0006530400., bls 205
- ↑ „ILO database on export processing zones (Revised)“ (pdf). apríl 2007.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Maquildora“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. mars 2008.
- „UnderstandMexico: History of the Maquiladora Program in Mexico“. 10. febrúar 2008.
Tenglar
- Maquila Solidarity Network
- Mexico Solidarity
- Opinber viðskiptagátt mexíkósku ríkisstjórnarinnar
- Maquiladora Health & Safety Support Network
- Línan, grein í Morgunblaðinu eftir Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur
- Talin í hópi "óvina ríkisins", viðtal við Marisela Ortiz Rivera
- Corpwatch: Maquiladoras at a Glance Geymt 22 febrúar 2008 í Wayback Machine