William Cavendish, hertogi af Devonshire
Hertoginn af Devonshire | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 16. nóvember 1756 – 25. júní 1757 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 2. |
Forveri | Hertoginn af Newcastle |
Eftirmaður | Hertoginn af Newcastle |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. maí 1720 Westminster, Middlesex, Englandi |
Látinn | 2. október 1764 (44 ára) Spa, austurrísku Niðurlöndum (nú Belgíu) |
Stjórnmálaflokkur | Viggar |
Maki | Charlotte Elizabeth Boyle, barónessa af Clifford (g. 1754, d. 1754) |
Undirskrift |
William Cavendish, fjórði hertoginn af Devonshire, (8. maí 1720 – 2. október 1764) kallaður Cavendish lávarður frá 1729 til 1755 og markgreifinn af Hartington frá 1729 til 1755, var breskur stjórnmálamaður úr röð Vigga sem var í stuttan tíma forsætisráðherra Bretlands (1756-1757)[1] og landstjóri Írlands (1755-1757).
Æviágrip
William Cavendish var sonur Williams Cavendish, þriðja hertogans af Devonshire, og konu hans, Catherine Hoskins. Þegar faðir hans varð hertogi árið 1729 hlaut William yngri heiðurstitilinn markgreifi af Hartington.
William Cavendish var kjörinn á neðri deild breska þingsins fyrir Derbyshire-kjördæmi árin 1741 og 1747 en árið 1751 gekk hann á lávarðadeild þingsins og gerðist meðlimur í breska leyndarráðinu sem Cavendish barón.[2] Hann varð landstjóri Írlands þann 2. apríl 1755 og gegndi því embætti til 2. janúar 1757.
Eftir að Cavendish erfði aðalsnafnbætur föður síns (þá helst titilinn hertogi af Devonshire) var hann gerður riddari Sokkabandsorðunnar og síðan útnefndur fyrsti lávarður fjárhirslunnar (First Lord of the Treasury) í nóvember 1756. Flestir sagnfræðingar líta svo á að Devonshire hafi verið forsætisráðherra Bretlands samkvæmt venju á meðan hann var fyrsti lávarður fjárhirslunnar. Hann gegndi embættinu til ársins 1757 en á þessum tíma fór William Pitt eldri með flest eiginleg völd ríkisstjórnarleiðtoga. Árið 1762 gekk Devonshire í írska leyndarráðið.
Devonshire giftist Charlotte Elizabeth Boyle, barónessu af Clifford, dóttur og erfingja Richards Boyle, þriðja greifans af Burlington, sem var frægur arkitekt og listsafnari. Móðir hennar var Dorothy Davile Boyle, málari og listunnandi. Með hjónabandi þeirra erfðu síðari hertogar af Devonshire Chiswick- og Burlington-húsin í London, Bolton-kirkjuna og Londesborough-setrið í Yorkshire og Lismore-kastala á Írlandi. Devonshire réð arkitektinn Capability Brown til að fegra garðinn á helsta aðsetri sínu, Chatsworth-húsi í Derbyshire.
Tilvísanir
- ↑ Duke of Devonshire Geymt 8 september 2008 í Archive.today, No10.gov.uk, accessed July 2009 - Note the picture on the No10 site is wrong - it was painted after this Duke's death - it is his son
- ↑ Peter D. Brown og Karl W. Schweizer (ritstj.), The Devonshire Diary. William Cavendish, Fourth Duke of Devonshire. Memoranda on State Affairs. 1759-1762 (London: Butler & Tanner Ltd, 1982), bls. 5.
Fyrirrennari: Hertoginn af Newcastle |
|
Eftirmaður: Hertoginn af Newcastle |