Eugene O'Neill
Mynd af Eugene O'Neill eftir Alice Boughton. | |
Fæddur: | 16. október 1888 New York-borg, New York, Bandaríkjunum |
---|---|
Látinn: | 27. nóvember 1953 (65 ára) Boston, Massachusetts, Bandaríkjunum |
Starf/staða: | Leikskáld |
Þjóðerni: | Bandarískur |
Bókmenntastefna: | Módernismi |
Þekktasta verk: | Dagleiðin langa inn í nótt (1956) |
Maki/ar: | Kathleen Jenkins (g. 1909; sk. 1912) Agnes Boulton (g. 1918; sk. 1929) Carlotta Monterey (g. 1929) |
Börn: | 3 |
Undir áhrifum frá: | Anton Tsjekhov, Henrik Ibsen, August Strindberg |
Undirskrift: |
Eugene Gladstone O'Neill (16. október 1888 – 27. nóvember 1953) var bandarískt leikritaskáld. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1936 og vann fern Pulitzer-verðlaun á þriðja áratugnum og ein eftir dauða sinn árið 1957.
Æviágrip
Eugene O'Neill fæddist á Broadway í New York-borg árið 1888. Faðir hans var þekktur leikari að nafni James O'Neill. Til sjö ára aldurs var O'Neill undir umsjá skoskrar barnfóstru og ólst að mestu upp á gistiheimilum sem foreldrar hans gistu á í ferðum um Bandaríkin. O'Neill gekk í fjögur ár í skóla í Stamford í Connecticut og síðan í Princeton-háskóla í eitt ár en var rekinn þaðan fyrir ósæmilega hegðun.[1] Saga gekk af því að O'Neill hefði verið rekinn fyrir að brjóta rúðu á húsi Woodrows Wilson, rektors Princeton-háskóla, með bjórflösku, en raunin mun hafa verið sú að hann braut rúðu í húsi stöðvarstjóra með múrsteini.[2]
Eftir brottreksturinn úr Princeton hjálpaði O'Neill föður sínum í leikhússtörfum. Hann slóst einnig í för með námuverkfræðingi í gullleit til Hondúras en veiktist þar af malaríu og varð að snúa aftur til New York. Hann var ráðinn sem háseti á skipi á leið til New York og réðst síðan sem háseti á norsku skipi sem sigldi frá Boston til Búenos Aíres.[1]
Árið 1912 hóf O'Neill störf sem blaðamaður í New London en veiktist á þeim tíma og var lagður inn á berklahæli. Á meðan hann dvaldi þar skrifaði hann tvö löng leikrit og tólf smáleikrit sem hann sýndi föður sínum. Föður O'Neill leist illa á leikritin þar sem þau þóttu brjóta í bága við hefðbundna leiklist en O'Neill ákvað engu að síður að gefa þau út árið 1914 í safnriti með titlinum Thirst and Other One-Act Plays.[1]
Bókin með leikritunum vakti ekki mikla athygli, en sum leikrit O'Neill voru þó sýnd í smærri leikhúsum New York-borgar og fengu svo góðar viðtökur að árið 1919 var ákveðið að sýna leikritið Beyond the Horizon á Broadway. Leikritinu var vel tekið og O'Neill fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir besta bandaríska leikrit ársins með því. Upp frá því hóf O'Neill óslitna sigurgöngu með leikritum sem náðu miklum vinsældum bæði í Bandaríkjunum og erlendis.[1]
Síðari æviár sín var O'Neill, ásamt þriðju eiginkonu sinni, Carlottu, með annan fótinn í New York til þess að geta verið nálægt Broadway. Árið 1948 var O'Neill orðinn nær lamaður úr Parkinsonsveiki og gat því lítið skrifað eða unnið. Hjónin keyptu lítið hús í Marble Head í Massachusetts og bjuggu þar uns stuttu áður en O'Neill lést úr lungnabólgu árið 1953, en þá höfðu þau flutt til Boston.[3]
Viðfangsefni í verkum O'Neill
O'Neill skrifaði mikið um hafið og um sjómannslíf, sér í lagi í eldri verkum sínum. Fjögur af einþættum leikritum sem O'Neill birti í bókinni The Moon of the Caribees fjölluðu um átakanlegar myndir úr ævi sjómanna og í leikritinu Anne Christie notaði hann hafið sem hið ytra tákn örlaganna.[1]
O'Neill var undir áhrifum frá leikritaskáldinu August Strindberg, sem hann kallaði spakvitrasta leikritahöfund samtíma síns. Verk hans voru undir áhrifum frá kjarnsæisstefnu, sem leitaðist við því að skyggnast undir yfirborð hlutanna í leit að duldum orsökum að breytni fólks. Jafnframt einkenndust verk hans af sálrýnistefnu í anda Sigmunds Freud.[1]
Frægasta leikrit O'Neill, Dagleiðin langa inn í nótt (e. Long Day's Journey into Night) var með sjálfsævisögu ívafi þar sem persónur leikritsins kölluðust á við O'Neill sjálfan og foreldra hans.[4]
Einkahagir
Eugene O'Neill var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Kathleen Jenkins, sem hann kvæntist árið 1909 og skildi við árið 1912. Þau eignuðust einn son sem framdi sjálfsmorð árið 1950.[3]
O'Neill kvæntist annari konu sinni, Agnes Boulton, árið 1918 og eignaðist með henni tvö börn. Dóttir þeirra, Oona, giftist gamanleikaranum Charlie Chaplin áður en hún var orðin tvítug. Hjónabandið hlaut ekki náð í augum O'Neill þar sem Chaplin var 35 árum eldri en Oona. Hjónaband Oonu og Chaplin var engu að síður farsælt og þau eignuðust átta börn saman. Sjálfur skildi O'Neill við Agnesi árið 1929.[3]
Þriðja kona O'Neill var Carlotta Monterey, sem hann kvæntist sama ár og hann skildi við Agnesi. Hjónaband þeirra entist þar til O'Neill lést árið 1953 en þau eignuðust engin börn.[3]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Stefán Einarsson (1. júlí 1930). „Eugene O'Neill“. Eimreiðin. bls. 277-295.
- ↑ Halldór Þorsteinsson (1. júlí 1957). „Eugene O'Neill“. Tímarit Máls og menningar. bls. 99-120.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Stefán Einarsson (1. október 1954). „Leikritaskáldið O'Neill“. Eimreiðin. bls. 260-272.
- ↑ Sveinbjörn I. Baldvinsson (21. nóvember 1982). „Eugene O'Neill og Dagleiðin langa inn í nótt“. Morgunblaðið. bls. 52-53.