Gunnar Thoroddsen
Gunnar Thoroddsen (fæddur í Reykjavík 29. desember 1910, látinn 25. september 1983) var íslenskur lögfræðingur og stjórnmálamaður. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 1961 - 1965 og 1974 - 1981 og forsætisráðherra Íslands fyrir flokkinn frá 1980 til 1983. Áður hafði hann verið borgarstjóri Reykjavíkur (1947-1959), fjármálaráðherra (1959-1965) og hæstaréttardómari (1970). Gunnar bauð sig fram til forseta Íslands í forsetakosningunum árið 1968 en tapaði fyrir Kristjáni Eldjárn.
Æviágrip
Foreldrar Gunnars voru Sigurður Thoroddsen verkfræðingur og yfirkennari (1863 – 1955) og kona hans, María Kristín Claessen (1880 – 1964). Gunnar stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1929 en ári áður hafði hann gegnt embætti forseta Framtíðarinnar. Hann lauk doktorsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1968.
Á árunum 1936 – 1940 stundaði Gunnar lögfræðistörf í Reykjavík ásamt störfum hjá Sjálfstæðisflokknum. Hann var meðal annars framkvæmdastjóri Varðarfélagsins, erindreki flokksins og skólastjóri í stjórnmálaskóla hans. Gunnar var prófessor við Háskóla Íslands 1940 – 1950, en fékk lausn frá kennsluskyldu fyrst um sinn 10. febr. 1947. Hann var 1947 kjörinn borgarstjóri í Reykjavík en fékk 19. nóvember 1959 leyfi frá þeim störfum og lausn 6. október 1960. Hann gegndi embætti fjármálaráðherra á árunum 1959 – 1965 en var sendiherra Íslands í Danmörku 1965 – 1969.
Gunnar starfaði sem hæstaréttardómari frá 1. janúar til 16. september 1970. Hann var 1971 skipaður prófessor við Háskóla Íslands og kenndi einkum stjórnskipunarrétt. Hann var skipaður iðnaðar- og félagsmálaráðherra 28. ágúst 1974 og gegndi því starfi til 1. september 1978. Hann var skipaður forsætisráðherra 8. febrúar 1980 en fékk lítinn stuðning til þeirrar stjórnarmyndunar frá flokki sínum, sem skipaði sér að mestu í stjórnarandstöðu undir forystu Geirs Hallgrímssonar, sem þá var formaður.
Gunnar var landskjörinn alþingismaður 1934 – 1937 (bauð sig fram í Mýrasýslu) og 1942 (úr Snæfellsnessýslu í vorkosningum það ár) en kjördæmakjörinn þingmaður úr Snæfellsnessýslu 1942 – 1949. Á árunum 1949 – 1965 og 1971 – 1983 var hann alþingismaður Reykvíkinga. Hann sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1948 – 1965 og aftur frá 1971. Hann var varaformaður flokksins 1961 – 1965 og aftur 1974-1981. Þá var hann þingflokksformaður á árunum 1973 – 1979.
Gunnar ritaði margt um lögfræði, stjórnmál og fleiri efni. Lengsta verk hans er doktorsritgerðin Fjölmæli, sem kom út 1967 og fjallar um meiðyrðalög. Einnig má nefna alllanga ritgerð á dönsku um Ólaf Halldórsson konferensráð, sem var prentuð í útgáfu Jónsbókar í Odense 1970. Þá ritaði Gunnar kver um ræðumennsku, sem var ítrekað prentað, en sjálfur þótti hann með liprustu ræðumönnum síns tíma.
Hann var meðal annars formaður í Orator félagi laganema 1930 – 1932, Heimdalli félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1935 – 1939, Sambandi ungra Sjálfstæðismanna 1940 – 1942 og Norræna félaginu á Íslandi 1954 – 1965 og aftur 1969 – 1975. Þá var hann heiðursfélagi í Tónlistarfélaginu og SÍBS.
Gunnar gekk 4. apríl 1941 að eiga Völu Ásgeirsdóttur (1921 – 2005). Börn þeirra voru: Ásgeir (f. 1942), Sigurður (f. 1944), Dóra (f. 1948) og María Kristín (f. 1954). Vala var dóttir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Gunnar bauð sig sjálfur fram til forseta 1968, en Kristján Eldjárn náði í það sinn kjöri.
Síðustu ár Gunnars
Gunnar greindist með hvítblæði undir lok ársins 1982. Tókst honum að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni og mörgum af nánustu stuðningsmönnum sínum ótrúlega lengi. Á þessum tíma voru slík veikindi mikið feimnismál og þau voru aldrei gerð opinber í tilfelli Gunnars fyrir þjóðinni með formlegum hætti á þeim mánuðum sem við tóku og urðu síðustu mánuðir Gunnars á forsætisráðherrastóli. Þrýst var mjög á Gunnar að gefa kost á sér í þingkosningunum 1983. Voru fylgismenn hans tilbúnir til sérframboðs í hans nafni og að heyja aðra kosningabaráttu á hans miklu persónulegu vinsældum, en stjórnin naut sögulega mikils fylgis lengst af valdaferli sínum og var Gunnar álitinn bjargvættur þingræðisins við stjórnarmyndunina sögulegu. En nú brast þrek Gunnars og kraftur hans. Hann tilkynnti rétt fyrir lok framboðsfrestsins í mars 1983 að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs og hætta í stjórnmálum er ríkisstjórn hans færi frá að kosningum loknum.
Gunnar lét af embætti forsætisráðherra við stjórnarskipti í maílok 1983, er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum. Gunnar var orðinn mjög markaður af veikindum sínum þetta vor og svo fór að veikindi hans spurðust út meðal almennings. Heilsu hans tók að dala hratt það sumar sem við tók og svo kom að hann komst á lokastig veikindanna. Hann lést sunnudaginn 25. september 1983. Við útför hans föstudaginn 30. september 1983 var hann kvaddur með virðulegum hætti og gamlir samherjar sem og aðrir sem höfðu unnið innan flokksins í hans tíð báru kistu hans úr kirkju.
Ítarefni
- Agnar Kl. Jónsson. Lögfræðingatal 1736 – 1963, Reykjavík 1963.
- Anders Hansen og Hreinn Loftsson: Valdatafl í Valhöll, Reykjavík 1980.
- Guðni Th. Jóhannesson: Gunnar Thoroddsen - Ævisaga, Reykjavík 2010.
- Jón Ormur Halldórsson: „Gunnar Thoroddsen", Forsætisráðherrar Íslands, Akureyri 2004.
- Ólafur Ragnarsson: Gunnar Thoroddsen, Reykjavík 1981.
- Torfi Jónsson: Æviskrár samtíðarmanna I, Hafnarfirði 1982.
- Æviágrip á vef Alþingis. Skoðað 7. október 2010.
- Glatkistan
Tengt efni
- Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens
- Átök Gunnars og Geirs
Fyrirrennari: Jóhann Möller |
|
Eftirmaður: Ásgeir Hjartarson | |||
Fyrirrennari: Kristján Guðlaugsson |
|
Eftirmaður: Jóhann Hafstein | |||
Fyrirrennari: Bjarni Benediktsson |
|
Eftirmaður: Auður Auðuns og Geir Hallgrímsson | |||
Fyrirrennari: Guðmundur Í. Guðmundsson |
|
Eftirmaður: Magnús Jónsson frá Mel | |||
Fyrirrennari: Bjarni Benediktsson |
|
Eftirmaður: Jóhann Hafstein | |||
Fyrirrennari: Magnús Jónsson frá Mel |
|
Eftirmaður: Friðrik Sophusson | |||
Fyrirrennari: Benedikt Gröndal |
|
Eftirmaður: Steingrímur Hermannsson |