Hnykkhöfðar

Hnykkhöfði

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Kinorhyncha

Hnykkhöfðar (fræðiheiti: Kinorhyncha) eru fylking hryggleysingja. Hnykkhöfðar ganga oft undir enska heitinu mud dragons sem þýðir „drulludrekar“. Hnykkhöfðar eru skilgreindir sem ormlaga sjávarlífverur. Innan fylkingarinnar eru þekktar 150 tegundir dýra. Þessi dýr voru fyrst uppgötvuð undan norður strönd Frakklands. Dýrin hafa fundist allt frá nyrstu hlutum Grænlands til Suðurskautslandsins. Því verður að teljast líklegt að dýr af þessari tegund finnist við Ísland.

Dýrin lifa á sjávarbotn, á sandströndum og við árósa, og allt niður á 5000 – 8000 metra dýpi á sand-eða moldarbotnimosa og jafnvel á svampdýrum. Ekki eru til neinir steingerðir hnykkhöfðar og því er lítið vitað um þróunarsögu fylkingarinnar en talið er að hnykkhöfðar hafi þróast út frá flatormum (e. free-living primitive flatworms).

Líffræði

Hnykkhöfðar eru mjög smáir eða innan við 1 millimetri og hafa enga útlimi. Búkurinn er langur, aflíðandi og skiptist í 9 lög hjá ungviðinu en 11 lög hjá fullvaxta dýri. Búkurinn er sveigjanlegur og getur lífveran dregið hausinn inn í búkinn. Flestir hnykkhöfðar eru gulbrúnir að lit og falla oftast vel inn í umhverfið. Búkurinn hefur nokkra hryggi og hausinn samanstendur af allt að sjö hringlaga hryggjum. Hnykkhöfðar eru ósyntir en þeir nota hryggina til hreyfinga á milli staða. Hnykkhöfðar geta dregið sjó inn í höfuð sitt. Þeir nota þessa auknu þyngd til þess að halda sér við botninn og hjálpar það þeim til þess að geta skriðið. Maðkamæður (priapulida) eru systurfylking hnykkhöfða en í þeirri fylkingu má finna merkileg dýr á við typpaorminn. Hnykkhöfðar nærast á kísilþörungum og lífrænum efnum sem finnast í drullu. Lífveran er útbúin litlum burstum sem gefa henni tilfinningu fyrir snertingu.


  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.