Seychelles-eyjar

Repiblik Sesel
République des Seychelles
Republic of Seychelles
Fáni Seychelles-eyja Skjaldarmerki Seychelles-eyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Finis Coronat Opus
(latína: „endirinn krýnir verkið“)
Þjóðsöngur:
Koste Seselwa
Staðsetning Seychelles-eyja
Höfuðborg Viktoría
Opinbert tungumál seychellíska, enska og franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Wavel Ramkalawan[1]
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 29. júní 1976 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
181. sæti
459 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
200. sæti
98.462
214,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 2,919 millj. dala (168. sæti)
 • Á mann 30.486 dalir (54. sæti)
VÞL (2018) 0.801 (62. sæti)
Gjaldmiðill seychelles-rúpía
Tímabelti UTC+4
Þjóðarlén .sc
Landsnúmer +248

Seychelles-eyjar (eða Seychelleyjar) eru eyríki á eyjaklasa í Indlandshafi við austurmörk Sómalíuhafs. Eyjarnar eru 115 talsins. Höfuðborgin og stærsta borgin, Viktoría, er um 1500 km austan við meginland Afríku Önnur eyríki sem liggja nærri Seychelles-eyjum eru Kómoreyjar, Madagaskar, Máritíus og frönsku handanhafshéruðin Mayotte og Réunion í suðri. Maldíveyjar og Chagos-eyjar liggja austan við eyjarnar. Íbúar eyjanna eru tæplega 100.000 talsins og þær eru því fámennasta fullvalda ríkið í Afríku.

Seychelles-eyjar voru óbyggðar þegar Evrópumenn komu þangað fyrst á 16. öld. Bretar og Frakkar tókust á um yfirráð yfir þeim þar til þær komust að fullu undir breska stjórn seint á 18. öld. Síðan eyjarnar fengu sjálfstæði frá Bretum 1976 hafa þær þróast hratt frá því að byggja efnahag sinn aðallega á landbúnaði í fjölbreyttara efnahagslíf sem byggist aðallega á þjónustu. Frá 1976 til 2015 sjöfaldaðist landsframleiðsla að nafnvirði og sextánfaldaðist miðað við kaupmáttarjöfnuð. Ríkisstjórn eyjanna hefur sóst eftir að laða að erlenda fjárfestingu síðustu ár.

Í dag er verg landsframleiðsla á mann á Seychelles-eyjum sú hæsta í Afríku. Eyjarnar eru fyrsta Afríkuríkið sem nær yfir 0.800 stigum á vísitölu um þróun lífsgæða og eru því eina landið í álfunni með mjög hátt gildi. Seychelles-eyjar eru annað af tveimur Afríkuríkjum sem Heimsbankinn skilgreinir sem hátekjuland (hitt ríkið er Máritíus). Þrátt fyrir velmegun er fátækt útbreidd, enda er ójöfnuður með því mesta sem gerist á heimsvísu. Ríkjandi yfirstétt ræður yfir megninu af auðlegð landsins.

Menning Seychelles-eyja er blanda af franskri, breskri og afrískri menningu, ásamt áhrifum frá Kína og Indlandi. Landið á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Afríkusambandinu, Þróunarbandalagi sunnanverðrar Afríku og Breska samveldinu.

Heiti

Líklegt er að Seychelles-eyjar komi fyrir í arabískum heimildum frá 14. og 15. öld undir heitinu Zarin. Eftir að Vasco da Gama kom auga á eyjarnar í leiðangri sínum 1503 tóku þær að birtast á portúgölskum kortum undir ýmsum heitum, þar á meðal sem „Systurnar sjö“. Landstjóri Máritíus, Bertrand-François Mahé de La Bourdonnais, sendi þangað leiðangur 1742. Stærsta eyjan var þá nefnd Mahé og eyjaklasinn Bourdonnais-eyjar eftir honum.

Þegar Sjö ára stríðið braust út milli Bretlands og Frakklands 1754 gerðu frönsk yfirvöld á Máritíus út leiðangur til að gera formlegt tilkall til eyjanna undir stjórn Corneille Nicholas Morphey. Hann kaus að nefna stærstu eyjuna Séchelles-eyju, eftir Jean Moreau de Séchelles sem þá var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Loðvíks 15. Síðar var það heiti fært á eyjaklasann og stærsta eyjan aftur nefnd Mahé. Séchelles varð síðan Seychelles á ensku.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Seychelles-eyjum er skipt í 26 stjórnsýsluumdæmi, sem ná yfir innri eyjarnar og Úteyjar Seychelles-eyja. Síðastnefnda umdæmið var nýlega búið til vegna ferðaþjónustu. Höfuðborgin, Viktoría, skiptist í 8 umdæmi, og önnur 14 ná yfir landsbyggðina á Mahé. Tvö umdæmi eru á Praslin og eitt nær yfir La Digue og aðrar innri eyjar.

Stór-Viktoría

  • Bel Air
  • La Rivière Anglaise
  • Les Mamelles
  • Mont Buxton
  • Mont Fleuri
  • Plaisance
  • Roche Caiman
  • Saint Louis

Dreifbýli á Mahé

  • Anse aux Pins
  • Anse Boileau
  • Anse Etoile
  • Au Cap
  • Anse Royale
  • Baie Lazare
  • Beau Vallon
  • Bel Ombre
  • Cascade
  • Glacis
  • Grand'Anse Mahé
  • Pointe La Rue
  • Port Glaud
  • Takamaka

Praslin

  • Baie Sainte Anne (Anse Volbert)
  • Grand'Anse Praslin (Grande Anse)

La Digue og aðrar innri eyjar

  • La Digue (Anse Réunion)

Landfræði

Anse Lazio-ströndin á Praslin.

Seychelles-eyjar eru á austurmörkum Sómalíuhafs í Indlandshafi. Eyjarnar eru norðaustan við Madagaskar og um 1.600 km austan við Kenía. Í stjórnarskrá landsins eru 155 eyjar nefndar, en auk þeirra eru 7 manngerðar eyjar hluti af eyjaklasanum. Langflestar eyjarnar eru óbyggðar og margar eru friðlönd. Stærsta eyjan, Mahé, er í 1.344 km fjarlægð frá Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu.

44 af eyjunum (42 graníteyjar og 2 kóraleyjar) liggja í tiltölulega grunnum sjó á Seychelles-banka og kallast saman innri eyjarnar. Þær ná samanlagt yfir 244 km² landsvæði, sem er 54% af heildarlandi eyjanna. Þar búa 98% íbúa Seychelles-eyja.

Eyjarnar skiptast í eftirtalda eyjaklasa:

Það eru 42 Graníteyjar Seychelles-eyja. Þær eru, eftir stærð: Mahé, Praslin, Silhouette-eyja, La Digue, Curieuse, Félicité, Frégate, Ste-Anne, North, Cerf, Marianne, Grand Sœur, Thérèse, Aride Island, Conception, Petite Sœur, Cousin-eyja, Cousine, Long, Récif, Round (Praslin), Anonyme, Mamelles, Moyenne, Île aux Vaches Marines, L'Islette, Beacon (Île Sèche), Cachée, Cocos, Round (Mahé), L'Ilot Frégate, Booby, Chauve-Souris (Mahé), Chauve-Souris (Praslin), Île La Fouche, Hodoul, L'Ilot, Rat, Souris, St. Pierre (Praslin), Zavé, og Harrison Rocks (Grand Rocher).

Tvö kóralrif liggja norðan við graníteyjarnar á brún Seychelles-banka: Denis-eyja og Fuglaeyja.

Tvö kóralrif liggja sunnan við graníteyjarnar: Coëtivy-eyja og Platte-eyja.

Í Amirantes-eyjaklasanum eru 29 kóraleyjar: Desroches, Poivre-rif (nær yfir þrjár eyjar; Poivre, Florentin og Suðurey), Alphonse, D'Arros, St. Joseph-rif (nær yfir 14 eyjar; St. Joseph, Île aux Fouquets, Resource, Petit Carcassaye, Grand Carcassaye, Benjamin, Bancs Ferrari, Chiens, Pélicans, Vars, Île Paul, Banc de Sable, Banc aux Cocos og Île aux Poules), Marie Louise, Desnœufs, Afríkubanki (nær yfir tvær eyjar: Afríkubanka og Suðurey), Rémire, St. François, Boudeuse, Étoile, og Bijoutier.

Í Farquhar-eyjaklasanum, suð-suðvestur af Amirantes-eyjum, eru 13 kóraleyjar: Farquhar-rif (nær yfir 10 eyjar; Bancs de Sable, Déposés, Île aux Goëlettes, Lapins, Île du Milieu, Norður-Manaha, Suður-Manaha, Mið-Manaha, Norðurey og Suðurey), Providence-rif (nær yfir 2 eyjar; Providence og Bancs Providence) og St Pierre.

Í Aldabra-eyjaklasanum, vestur af Farquhar-eyjum, eru 67 upphækkuð kóralrif: Aldabra-rif (nær yfir 46 eyjar; Grande Terre, Picard, Polymnie, Malabar, Île Michel, Île Esprit, Île aux Moustiques, Ilot Parc, Ilot Émile, Ilot Yangue, Ilot Magnan, Île Lanier, Champignon des Os, Euphrate, Grand Mentor, Grand Ilot, Gros Ilot Gionnet, Gros Ilot Sésame, Héron Rock, Hide Island, Île aux Aigrettes, Île aux Cèdres, Îles Chalands, Île Fangame, Île Héron, Île Michel, Île Squacco, Île Sylvestre, Île Verte, Ilot Déder, Ilot du Sud, Ilot du Milieu, Ilot du Nord, Ilot Dubois, Ilot Macoa, Ilot Marquoix, Ilots Niçois, Ilot Salade, Middle Row Island, Noddy Rock, North Row Island, Petit Mentor, Petit Mentor Endans, Petits Ilots, Pink Rock og Table Ronde), Assumption-eyja, Astove og Cosmoledo-rif (nær yfir 19 eyjar; Menai, Île du Nord, Île Nord-Est, Île du Trou, Goélettes, Grand Polyte, Petit Polyte, Grand Île (Wizard), Pagode, Île du Sud-Ouest, Île aux Moustiques, Île Baleine, Île aux Chauve-Souris, Île aux Macaques, Île aux Rats, Île du Nord-Ouest, Île Observation, Île Sud-Est og Ilot la Croix).

Auk þessara 155 eyja eru 7 manngerðar eyjar: Ile Perseverance, Ile Aurore, Romainville, Eden Island, Eve, Ile du Port og Ile Soleil.

Suðurey og Afríkubanki hafa orðið fyrir rofi vegna ágangs sjávar. Á St Joseph-rifi hafa Banc de Sable og Pélicans líka orðið fyrir sjávarrofi, meðan Grand Carcassaye og Petit Carcassaye hafa vaxið saman og mynda nú eina eyju. Margar ónefndar eyjar eru við Aldabra, St Joseph-rif og Cosmoledo. Pti Astove var ekki talin með í stjórnarskránni af óþekktum ástæðum.

Tilvísanir

  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.