Xi Jinping
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Xi, eiginnafnið er Jinping.
Xi Jinping | |
---|---|
习近平 | |
Aðalritari kínverska kommúnistaflokksins | |
Núverandi | |
Tók við embætti 15. nóvember 2012 | |
Forveri | Hu Jintao |
Forseti Alþýðulýðveldisins Kína | |
Núverandi | |
Tók við embætti 14. mars 2013 | |
Forsætisráðherra | Li Keqiang Li Qiang |
Varaforseti | Li Yuanchao Wang Qishan Han Zheng |
Forveri | Hu Jintao |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. júní 1953 Peking, Kína |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Kína |
Maki | Ke Lingling (g. 1979; skilin 1982) Peng Liyuan (g. 1987) |
Börn | Xi Mingze |
Foreldrar | Xi Zhongxun og Qi Xin |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Xi Jinping (einfölduð kínverska: 习近平; f. 15. júní 1953) er leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína sem aðalritari Kommúnistaflokks Kína. Hann er forseti landsins og formaður hinnar valdamiklu hernaðarnefndar Kommúnistaflokks landsins. Hann er jafnframt leiðtogi fimmtu valdakynslóðar Kína.
Sem sonur kommúnistans Xi Zhongxun þjónaði Xi Jinping að mestu leyti í Fujian-héraði í upphafi ferils síns, og var síðar skipaður flokksleiðtogi yfir Zhejiang-héraðinu, og síðar sem flokksleiðtogi Sjanghæ í kjölfar brottvikningar Chen Liangyu. Hann varð þekktur fyrir frjálslynda stefnu, en sterka andstöðu við spillingu. Hann var talsmaður umbóta í stjórnmálum og í átt til markaðshagkerfis.
Xi er talinn einn voldugasti leiðtogi Kínverja í marga áratugi; jafnvel frá dögum Maó Zedong.[1] Árið 2017 voru yfirburðir hans lögfestir í stefnuskrá kínverska kommúnistaflokksins þegar nafni hans og hugmyndafræði, „Xi Jinping-hugsun“, var bætt þar inn.[2]
Æskuár
Xi Jinping er fæddur í höfuðborginni Beijing 15. júní 1953. Rætur forfeðra hans liggja þó samkvæmt kínverskri venju í Fuping-sýslu í Shaanxi-héraði. Hann er yngsti sonur Xi Zhongxun (1913-2002), eins af stofnendum skæruliðahreyfingar kommúnista í Shaanxi-héraði í norðurhluta Kína, fyrrum varaforsætisráðherra og taldist til fyrstu valdakynslóðar Kína með Maó. Xi Zhongxun starfaði sem yfirmaður áróðursdeildar kommúnistaflokksins og síðar varaformaður þings Kommúnistaflokksins. Þegar Xi var tíu ára lenti faðir hans í „hreinsunum“ menningarbyltingar Maós Zedong og var sendur til starfa í verksmiðju í Luoyang og síðan í fangelsi árið 1968. Hann kom aftur inn í stjórnmálin, nú sem einn lærifeðra verðandi leiðtoga Kína á borð við Hu Jintao, sem síðar varð forseti, og Wen Jiabao, sem síðar varð forsætisráðherra. Að auki var það Xi Zhongxun sem lagði til og kom í framkvæmd uppbyggingu Shenzhen sem fyrsta „fríverslunarsvæðinu“ í Alþýðulýðveldinu Kína. Það varð síðan öðrum svæðum fyrirmynd.
Á meðan Xi Zhongxun var „hreinsaður“ í menningarbyltingunni naut sonurinn ekki verndar föður síns og var sendur í vinnu í Yanchuan-sýslu í Shanxi-héraði, árið 1969. Hann varð þar síðar flokksritari í framleiðsluteymi sem hann gegndi til 22 ára aldurs.
Á árunum 1975 til 1979 nam Xi Jinping efnaverkfræði við hinn virta Tsinghua-háskóla í Beijing. Það hefur vakið spurningar um fyrrum menntun hans þar sem hann hafi hvorki lokið menntaskóla. Hann lauk síðan doktorsnámi við sama háskóla árið 2002 þrátt fyrir að hafa ekki lokið meistaraprófi.
Á árunum 1979 til 1982 starfaði Xi Jinping sem ritari hans fyrir Geng Biao fyrrum undirmann föður síns. Geng Biao gegndi þá stöðu varaforsætisráðherra og framkvæmdastjóra og framkvæmdastjóra herráðsins.
Flokksframi
Xi gekk til liðs við Æskulýðshreyfingu Kommúnistaflokksins árið 1971 og í Kommúnistaflokk Kína árið 1974. Árið 1982 var hann sendur til Zhengding-sýslu í Hebei sem flokksritari. Xi starfaði síðan í fjórum héruðum á pólitískum ferli sínum: Shaanxi, Hebei, Fujian og Zhejiang.
Xi gegndi stöðu flokksleiðtoga flokksnefndar Fuzhou sveitarfélagsins og varð síðan forseti flokkskólans í Fuzhou árið 1990. Árið 1999 var hann gerður að aðstoðarríkisstjóra Fujian héraðs og ríkisstjóra þar ári síðar. Þar beitti hann sér meðal annars fyrir því að fjárfesta að frá Taívan og efla frjálsara markaðshagkerfi. Í febrúar árið 2000 sem hann og flokksritari héraðsins, Chen Mingyi, kallaðir fyrir fjóra æðstu menn í framkvæmdanefnd miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína; þá Jiang Zemin forseta, Zhu Rongji forsætisráðherra, Hu Jintao varaforseta og Wei Jianxing yfirmann aganefndar Kommúnistaflokksins til að meta Yuanhua-hneykslið, sem fjallaði um smygl, mútur og spillingu innan Xiamen-fríverslunarsvæðisins undir forystu athafnamannsins Lai Changxing.
Árið 2002 tók Xi við háttsettum stöðum á vegum ríkisins og Kommúnistaflokksins í Zhejiang héraði. Að lokum tók hann forystuhlutverk í héraðinu sem flokksleiðtogi. Hann varð síðan varamaður á 15. þingi Kommúnistaflokksins og sem aðalmaður á því sextánda. Það opnaði leið hann inn í landsmálin. Undir stjórn Xi var Zhejiang áfram eitt af auðugustu héruðum Kína og að meðaltali með 14% efnahagslegan vöxt á ári. Ferill hans í Zhejiang byggði á mjög eindreginni andstöðu gegn spilltum embættismönnum, nokkuð sem kom honum að í innlendum fjölmiðlum og vakti athygli æðstu leiðtoga Kína.
Eftir brottrekstur Chen Liangyu sem flokkleiðtoga Sjanghæ í september 2006 vegna hneykslis sem upp kom vegna lífeyrissjóðs, var Xi fluttur til Sjanghæ í mars 2007 til að taka við sem flokksleiðtogi Sjanghæ. Þessi skipun sýndi að Xi naut stuðnings flokksforystunnar. Í Sjanghæ sýndi hann varkárni í að tengjast umdeildum málum og fylgdi flokkslínum hvívetna. Hann tengdist þar engum alvarlegum hneykslismálum eða naut alvarlegar pólitískar stjórnarandstöðu.
Xi var á þessum tíma álitinn efni í leiðtoga „næstu valdakynslóð“ þessa fjölmennasta ríkis veraldar.
Forseti og flokksformaður
Valdsöfnun innan Kommúnistaflokksins
Xi Jinping var kjörinn aðalritari kínverska kommúnistaflokksins þann 15. nóvember 2012. Hann var síðan kjörinn forseti Alþýðulýðveldisins Kína í mars 2013. Xi er talinn voldugasti leiðtogi Kínverja frá dögum Deng Xiaoping og jafnvel frá dögum Maós.[3] Ólíkt Hu Jintao hefur Xi ekki stjórnað Kína í sameiningu með öðrum valdsmönnum. Hu var gjarnan talinn „fyrstur meðal jafningja“ sem forseti og flokksformaður og framkvæmdi jafnan aðeins vilja meirihlutans. Xi hefur hins vegar gerst miðpunktur allra valda í ríkisstjórn sinni. Hann var endurkjörinn leiðtogi flokksins á flokksþingi árið 2017 en enginn arftaki var valinn til að taka við völdum eftir fimm ár líkt og venjan hefur verið. Á þinginu var hugmyndafræði forsetans, „Xi Jinping-hugsun“, bætt inn í stefnuskrá flokksins og þar með stjórnarskrá lýðveldisins. Með því að festa Xi Jinping-hugsun í stefnuskrána er Xi talinn hafa gert mögulegum keppinautum ómögulegt að gagnrýna hugmyndafræði hans án þess að vera taldir andsnúnir Kommúnistaflokknum sjálfum.[4]
Hugmyndafræðin sem Xi fékk ritaða í stefnuskrá Kommúnistaflokksins felst í hugmynd hans um nýtt tímabil í sögu Alþýðulýðveldisins Kína. Samkvæmt henni voru fyrri tvö tímabilin sameiningartímabil á stjórnartíð Maós og hagsældartímabil á stjórnartíð Dengs. Nýja tímabilið, á stórnartíð Xis, á samkvæmt hugmyndafræðinni að einkennast af auknum styrk Kína á alþjóðavísu.[5]
Árið 2018 lagði kínverski kommúnistaflokkurinn fram tillögu að stjórnarskrárbreytingum þess efnis að forsetanum skyldi ekki lengur meinað að sitja lengur en tvö fimm ára kjörtímabil í embætti.[6] Samkvæmt þessum breytingum mun Xi geta setið lengur í embætti en þau tíu ár sem forverar hans, Hu Jintao og Jiang Zemin, settu fordæmi fyrir. Eftir að fréttir af tillögunni bárust gantaðist Donald Trump Bandaríkjaforseti um að Xi væri í reynd orðinn „forseti til lífstíðar“ og hrósaði honum fyrir áfangann.[7]
Í nóvember 2021 samþykkti þing kommúnistaflokksins sögulega ályktun þar sem farið var yfir afrek flokksins á þeim hundrað árum sem liðin voru frá stofnun hans. Í ályktuninni, sem var einungis sú þriðja sinnar tegundar, var Xi festur í sessi sem einn af áhrifamestu leiðtogum Kína ásamt Maó og Deng.[8] Litið var á ályktunina sem vísbendingu um viðleitni Xi til að draga úr þeirri valddreifingu sem þróast hafði í Kína á stjórnartíðum forvera hans.[9]
Xi var formlega kjörinn til þriðja kjörtímabils sem aðalritari og forseti á flokksþingi Kommúnistaflokksins í október 2022. Hann treysti völd sín jafnframt með því að koma fleiri bandamönnum sínum í ábyrgðarstöður í forystu flokksins.[10] Þriðja kjörtímabil Xi hófst þann 10. mars 2023.[11]
Bælingar á andófi
Sem forseti hefur Xi jafnan ekki brugðist vel við því að lítið sé gert úr persónu hans. Meðal því sem stjórn hans hefur gert í ritskoðunarmálum er að ritskoða barnabóka- og teiknimyndapersónuna Bangsímon í Kína. Ástæðan er sú að Kínverjar höfðu birt myndir á samfélagsmiðlum þar sem Xi var líkt við Bangsímon.[12][13] Bannið við Bangsímon er hluti af stærri ritskoðunaraðgerðum sem eiga að koma í veg fyrir að illa sé talað um forsetann.[14]
Á stjórnartíð Xi hafa kínversk stjórnvöld sætt ásökunum um kerfisbundnar ofsóknir gegn Úígúrum í Xinjiang-héraði. Gögn sem lekið hefur verið til alþjóðasamtaka blaðamanna hafa leitt í ljós að í Xinjiang sé hundruðum þúsunda Úígúra haldið föngnum í svokölluðum „þjálfunarbúðum“ og þeir látnir sæta pólitískri innrætingu.[15][16] Rannsókn sem Amnesty International birti í mars 2020 benti til þess að Úígúrar í Xinjiang sæti pólitískum ofsóknum og að kínversk stjórnvöld reyni markvisst að fá erlend stjórnvöld til að framselja sér Úígúra sem hafa flutt frá Kína.[17] Samkvæmt gögnum sem lekið var til The New York Times lagði Xi grunninn að þessum aðgerðum eftir að hann heimsótti Xinjiang árið 2014 og komst svo að orði að sýna mætti „alfarið enga miskunn“ í aðgerðum til að fyrirbyggja mögulega hryðjuverkastarfsemi eða aðskilnaðarstefnu Úígúra.[18]
Þann 1. september 2022 gaf Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna út skýrslu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að mannréttindabrot Kína gegn Úígúrum kunni að teljast alþjóðlegir glæpir, nánar tiltekið glæpir gegn mannúð.[19]
Xi hefur jafnframt hert tök Alþýðulýðveldisins á sérstjórnarhéraðinu Hong Kong. Mikil spenna hefur ríkt í sambandi Hong Kong við meginlandið síðustu ár sem lýsti sér meðal annars í fjöldamótmælum árin 2019 og 2020. Í maí árið 2020 var frumvarp lagt fram á kínverska Alþýðuþinginu um öryggislög sem banna uppreisnaráróður, landráð og sjálfstæðisumleitanir sérstjórnarhéraðsins.[20] Öryggislögin voru samþykkt á kínverska þinginu þann 22. maí og er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir mótmæli af sömu stærðargráðu og áður í Hong Kong.[21]
Kórónuveirufaraldurinn
Í alþjóðlega kórónuveirufaraldrinum sem hófst í lok ársins 2019 í borginni Wuhan hefur stjórn Xi viðhaldið svokallaðri „núllstefnu“ sem felur í sér harðar aðgerðir á borð við útgöngubönn í hvert skipti sem ný smitbylgja af COVID-19 gerir vart við sig.[22]
Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar, sem birtist fyrst árið 2021, hefur erfiðað núllstefnu kínverskra stjórnvalda og hefur leitt til mikillar útbreiðslu COVID-19 þrátt fyrir aðgerðir stjórnarinnar.[22] Í nóvember 2022 upphófust mótmæli gegn kínversku stjórninni sem voru talin þau stærstu í marga áratugi. Mótmælin hófust eftir að eldsvoði í íbúðablokk í borginni Urumqi varð tíu manns að bana, en samkvæmt almannarómi komu sóttvarnareglur í veg fyrir að fólkið kæmist út úr brennandi byggingunni.[23] Mótmælin leiddu til þess að kínversk stjórnvöld slökuðu á núllstefnu sinni í sóttvarnamálum undir lok ársins 2022.[24]
Fjölskylduhagir
Xi kvæntist árið 1987 Peng Liyuan, frægri söngkonu kínverskrar þjóðlagatónlistar. Það var annað hjónaband hans. Peng Liyuan er afar vel þekkt í Kína og var í raun þekktari en eiginmaður hennar áður en hann komst til valda. Vegna starfa sinna búa hjónin ekki mikið saman. Saman eiga þau dótturina Xi Mingze sem er gjarnan kölluð Xiao Muzi.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Xi Jinping“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. október 2010.
Tenglar
- Vera Illugadóttir (21. október 2017). „Bjó í helli og giftist frægri söngkonu“. RÚV. Sótt 5. janúar 2018.
Tilvísanir
- ↑ Hafliði Sævarsson (18. október 2017). „Í Kína ræður foringinn, aftur“. Kjarninn. Sótt 24. október 2018.
- ↑ Enginn augljós arftaki Xi Jinping, RÚV, 25. október 2017.
- ↑ „Reform in China: Every move you make“ (enska). The Economist. 16. nóvember 2013.
- ↑ „„Xi Jinping-hugsun" fest í stjórnarskrá Kína“. RÚV. 24. október 2017. Sótt 10. janúar 2018.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (26. október 2017). „Nýtt politburo bendir til langrar valdatíðar“. Vísir. Sótt 14. mars 2023.
- ↑ „Kommúnistaflokkurinn leggur línurnar fyrir lengri valdatíð Xi Jinping“. RÚV. 25. febrúar 2018. Sótt 6. mars 2018.
- ↑ „Trump hrósaði Xi Jinping fyrir ótakmarkaða setu í embætti: „Kannski getum við látið reyna á þetta einhvern tímann"“. Vísir. 4. mars 2018. Sótt 6. mars 2018.
- ↑ Alexander Kristjánsson (11. nóvember 2021). „Arfleifð Xi fest í sessi“. RÚV. Sótt 9. desember 2021.
- ↑ Samúel Karl Ólason (11. nóvember 2021). „Xi festir sig í sessi og setur sig á stall með Mao og Deng“. Vísir. Sótt 9. desember 2021.
- ↑ „Þriðja kjörtímabilið tryggt – algjör yfirráð“. mbl.is. 23. október 2022. Sótt 29. október 2022.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (10. mars 2023). „Þriðja kjörtímabil Xis formlega hafið“. RÚV. Sótt 11. mars 2023.
- ↑ Egill Helgason (6. ágúst 2018). „Xi Jinping vill ekki líkjast Bangsímoni“. DV. Sótt 13. desember 2018.
- ↑ Gunnar Hrafn Jónsson (16. desember 2018). „Valdamesti maður heims lætur ritskoða Bangsímon“. Stundin. Sótt 16. desember 2018.
- ↑ Pétur Gunnarsson (17. júlí 2017). „Kínverjar ritskoða Bangsímon“. Viðskiptablaðið. Sótt 13. desember 2018.
- ↑ „Heilaþvegin og haldið föngnum“. mbl.is. 24. nóvember 2019. Sótt 20. júní 2020.
- ↑ „„Menningarlegt þjóðarmorð"“. mbl.is. 4. júlí 2019. Sótt 20. júní 2020.
- ↑ „Kína: Úígúrar búsettir erlendis ofsóttir“. Amnesty International. 19. mars 2020. Sótt 20. júní 2020.
- ↑ Samúel Karl Ólason (16. nóvember 2019). „Ofsóknir gegn Úígúrum: Áttu að vera þakklát fyrir að fjölskyldumeðlimir voru færðir í fangabúðir“. Vísir. Sótt 20. október 2020.
- ↑ „Glæpir gegn mannkyninu hugsanlegir í Xinjiang“. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 1. september 2022. Sótt 15. september 2022.
- ↑ „Vilja innleiða ný öryggislög í Hong Kong“. mbl.is. 21. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.
- ↑ „Umdeild öryggislög um Hong Kong samþykkt“. mbl.is. 22. maí 2020. Sótt 1. júlí 2020.
- ↑ 22,0 22,1 Erla María Markúsdóttir (23. mars 2022). „Núllstefna kínverskra yfirvalda gegn COVID-19 virðist óhagganleg“. Kjarninn. Sótt 29. nóvember 2022.
- ↑ Kjartan Kjartansson (28. nóvember 2022). „Útbreiddustu mótmæli í Kína í rúmlega þrjátíu ár“. Vísir. Sótt 29. nóvember 2022.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (6. desember 2022). „Blinken segir brýnt að tilslökun Kínverja takist vel“. RÚV. Sótt 11. mars 2023.
Fyrirrennari: Hu Jintao |
|
Eftirmaður: Enn í embætti | |||
Fyrirrennari: Hu Jintao |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |