Olof Palme
Olof Palme | |
---|---|
Forsætisráðherra Svíþjóðar | |
Í embætti 14. október 1969 – 8. október 1976 | |
Þjóðhöfðingi | Gústaf 6. Adólf Karl 16. Gústaf |
Forveri | Tage Erlander |
Eftirmaður | Thorbjörn Fälldin |
Í embætti 8. október 1982 – 28. febrúar 1986 | |
Þjóðhöfðingi | Karl 16. Gústaf |
Forveri | Thorbjörn Fälldin |
Eftirmaður | Ingvar Carlsson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. janúar 1927 Stokkhólmi, Svíþjóð |
Látinn | 28. febrúar 1986 (59 ára) Stokkhólmi, Svíþjóð |
Þjóðerni | Sænskur |
Stjórnmálaflokkur | Jafnaðarmannaflokkurinn |
Maki | Jelena Rennerova (g. 1948; sk. 1952) Lisbeth Palme (g. 1956) |
Börn | 3 |
Háskóli | Stokkhólmsháskóli Kenyon-háskóli |
Undirskrift |
Sven Olof Joachim Palme (30. janúar 1927 – 28. febrúar 1986) var forsætisráðherra Svíþjóðar. Hann var úr röðum sósíaldemókrata.
Að kvöldi 28. febrúar 1986 voru Palme og eiginkona hans, Lisbeth Palme, á heimleið úr kvikmyndahúsi í miðborg Stokkhólms, þegar ókunnur maður laumaðist aftan að þeim og hleypti af skammbyssu á hjónin af stuttu færi. Eitt skot fór gegnum bakið á Olof Palme, og dró hann til dauða á leiðinni á spítala. Lisbeth Palme fékk skot í öxlina, en slapp með skrámur. Árásarmaðurinn komst undan og hefur ekki fundist þrátt fyrir viðamikla leit.
Árið 2020 komust sænskir saksóknarar að þeirri niðurstöðu að líklegur morðingi Palme hafi verið Stig Engström, sem hafði lengi verið bendlaður við málið og gekk undir nafninu „Skandía-maðurinn“ í blaðaumfjöllun um rannsóknina. Engström hafði fyrirfarið sér árið 2000 og því var ekki ákæra lögð fram gegn honum og rannsókninni á morðinu hætt.[1]
Æviágrip
Olof Palme fæddist þann 30. janúar árið 1927 í Stokkhólmi og var kominn úr íhaldssamri yfirstéttarfjölskyldu. Afi hans hafði setið á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn og móðir hans, sem var dóttir þýsk-eistnesks landeiganda, starfaði mikið fyrir sænska Íhaldsflokkinn. Faðir Olofs, sem var einnig meðlimur í Íhaldsflokknum, lést þegar Olof var sex ára. Olof var heilsuveill sem barn en þótti mjög greindur.[2]
Palme hóf grunnskólanám í hinum einkarekna Beskow-skóla þegar hann var fimm ára og gekk síðan í heimavistarskóla í Sigtuna. Hann útskrifaðist úr menntaskólanámi og mannkynssögu árið 1944 og gerðist kadet í sænska hernum. Þegar hann var í hléum frá herþjónustu vann hann jafnframt frá 1945 til 1947 sem blaðamaður hjá fréttablaðinu Svenska Dagbladet. Palme útskrifaðist sem riddaraliðsforingi með þriðju hæstu einkunn en sóttist ekki eftir frekari frama innan hersins. Að loknu herforingjanáminu sótti hann um styrk til að ganga í háskóla í Bandaríkjunum og flutti árið 1947 til náms í Kenyon-háskólanum í Ohio.[2]
Palme fór að hneigjast til jafnaðarmennsku við dvöl sína í Bandaríkjunum og gekk í sænska Jafnaðarmannaflokkinn þegar hann var 21 árs. Hann lauk BA-gráðu frá Kenyon-háskóla árið 1949 og sneri síðan aftur til Svíþjóðar og hóf lögfræðinám við Stokkhólmsháskóla. Á námsárunum þar varð Palme virkur í stúdentapólitík og gagnrýndi alþjóðlegu stúdentahreyfinguna fyrir að ganga erinda Stalíns og kommúnista. Palme lauk lögfræðinámi árið 1951 og var árið 1953 ráðinn sem starfsmaður í sænska varnarmálaráðuneytinu.[2]
Árið 1953 réð Tage Erlander forsætisráðherra Palme sem einkaritara og aðstoðarmann sinn. Erlander og Palme urðu í kjölfarið mjög nánir samstarfsmenn og Erlander fór í síauknum mæli að reiða sig á Palme. Palme tók síðan sæti á sænska þinginu árið 1957 og var þá yngsti sænski þingmaðurinn. Hann varð ráðherra án ráðuneytis í ríkisstjórn Erlanders árið 1963 og var þá orðið umtalað að Erlander vildi að hann yrði eftirmaður sinn. Sem ráðherra þótti Palme áhrifamikill í sænskri utanríkisstefnu og varð þekktur fyrir að marka sjálfstæða stefnu á milli deiluaðila í kalda stríðinu. Hann gagnrýndi Bandaríkin til dæmis harðlega fyrir Víetnamstríðið en gagnrýndi Sovétríkin einnig fyrir að ráðast inn í Tékkóslóvakíu til að binda enda á vorið í Prag árið 1968.[2]
Þann 1. október árið 1969 settist Erlander í helgan stein og Palme var kjörinn nýr leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Palme tók því við sem forsætisráðherra Svíþjóðar. Jafnaðarmenn áttu minna fylgi að fagna en áður á byrjun stjórnartíðar Palme og kosningar árið 1973 komu út í jafntefli milli sænsku vinstriflokkanna og borgaralegu hægriflokkanna. Palme sat áfram í forsætisráðherrastól en stjórn hans var framvegis mjög brothætt.[2] Árið 1976 unnu borgaralegu flokkarnir kosningasigur og rufu þar með 44 ára samfellda stjórn Jafnaðarmannaflokksins. Palme varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar á forsætisráðherratíðum Thorbjörns Fälldin og Ola Ullsten en komst aftur til valda eftir að Jafnaðarmenn unnu kosningar árið 1982.[3]
Morðið á Palme
Síðdegis föstudaginn 28. febrúar árið 1986 fór Palme ásamt eiginkonu sinni, Lisbeth, í bíó á sænsku gamanmyndina Mozart-bræður í miðbæ Stokkhólms. Hann ákvað að hafa ekki með sér tvo lífverði sem fylgdu honum jafnan. Eftir að sýningu kvikmyndarinnar lauk gengu Palme-hjónin í átt að næstu neðanjarðarlestarstöð og gengu yfir götuna Sveavägen. Um hálftíma fyrir miðnætti var gerð árás á hjónin; Olof var skotinn í bakið og Lisbeth í öxlina. Árásarmaðurinn hljóp síðan á brott og hvarf. Sjúkrabíll kom á svæðið um fjórum mínútum eftir skotárásina en Palme lést úr sárum sínum áður en komið var á sjúkrahúsið.[4]
Aðstoðarforsætisráðherrann Ingvar Carlsson tók við embætti forsætisráðherra þegar fréttist af dauða Palme. Morðið vakti heimsathygli og hleypt var af stokkunum umfangsmestu lögreglurannsókn í sögu Svíþjóðar til þess að finna morðingjann. Ýmsar samsæriskenningar um morðið voru settar fram, meðal annars að suður-afrísk stjórnvöld hafi látið myrða Palme til að þagga niður í gagnrýni hans á aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.[5] Einnig voru lengi getgátur um að aðilar tengdir Verkalýðsflokki Kúrda hefðu komið Palme fyrir kattarnef.[4] Grunur lögreglunnar beindist lengi að síbrotamanni að nafni Christer Pettersson, sem hafði verið nálægt morðstaðnum og Lisbeth Palme taldi vera árásarmanninn. Pettersson var sakfelldur fyrir morðið á Palme fyrir héraðsdómi árið 1989 en var síðar sýknaður af hæstarétti eftir áfrýjun.[4]
Þann 10. júní árið 2020 tilkynnti sænski saksóknarinn Krister Petersson að talið væri að maður að nafni Stig Engström hefði myrt Palme. Engström hafði verið kallaður „Skandia-maðurinn“ í fjölmiðlaumfjöllun um morðið og hafði oft birst í fjölmiðlum undir því dulnefni og gagnrýnt lögreglurannsóknina. Engström framdi sjálfsmorð árið 2000 og því var rannsókninni lokað án ákæru.[1] Niðurstaða saksóknarans um sekt Engströms hefur víða verið gagnrýnd og bent hefur verið á að ekki séu fyrir hendi sönnunargögn sem myndu nægja til að sakfella Engström ef hann væri á lífi.[6]
Tengt efni
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 Atli Ísleifsson (10. júní 2020). „Saksóknarar í Svíþjóð: „Skandia-maðurinn" Stig Engström myrti Olof Palme“. Vísir. Sótt 10. júní 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Jafnaðarmaður úr yfirstétt: Olof Palme“. Tíminn. 22. júní 1975. bls. 8-10.
- ↑ „Olof Palme“. Morgunblaðið. 2. mars 1986. bls. 20-21.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Atli Þór Egilsson (28. febrúar 2016). „Þrjátíu ár frá morðinu á Olof Palme“. RÚV. Sótt 10. júní 2020.
- ↑ Bjarni Pétur Jónsson (1. mars 2020). „Larsson kom lögreglu á Suðurafríkuslóðina“. RÚV. Sótt 10. júní 2020.
- ↑ Jani Pirttisalo Sallinen; Veronica Netz (12. júní 2020). „Bevisen hade fått svårt – på punkt efter punkt“ (sænska). Svenska Dagbladet. Sótt 1. júlí 2021.
Fyrirrennari: Tage Erlander |
|
Eftirmaður: Thorbjörn Fälldin | |||
Fyrirrennari: Thorbjörn Fälldin |
|
Eftirmaður: Ingvar Carlsson |