Oostende
Skjaldarmerki | Fáni |
---|---|
Upplýsingar | |
Hérað: | Vestur-Flæmingjaland |
Flatarmál: | 37,7 km² |
Mannfjöldi: | 69.732 (1. janúar 2011) |
Þéttleiki byggðar: | 1.850/km² |
Vefsíða: | [1] |
Borgarmynd | |
Oostende (franska: Ostende) er hafnarborg við Norðursjó í Vestur-Flæmingjalandi í Belgíu. Hún er jafnframt stærsta strandborgin í landinu með tæplega 70 þús íbúa. Höfnin þar er þriðja stærst í Belgíu (á eftir Antwerpen og Zeebrugge).
Lega og lýsing
Oostende liggur við Norðursjó, nokkurn veginn mitt á milli Hollands og Frakklands. Til Hollands eru 30 km, en til Frakklands 25 km. Næstu stærri borgir eru Brugge til austurs (25 km) og Dunkerque í Frakklandi til suðvesturs (50 km). Til Brussel eru 110 km. Í Oostende er höfn, sú þriðja stærsta í Belgíu. Ólíkt Zeebrugge er höfnin ekki á uppfyllingu, heldur í gamalli vík fyrir innan strandlengjuna. Þaðan liggur skipaskurður til borgarinnar Brugge.
Skjaldarmerki
Skjaldarmerkið sýnir svart öfugt v (bókstafurinn vaff) og þrír svartir lyklar á gulum grunni. Lyklarnir eru komnir frá Býsans, en Margrét af Býsans giftist greifanum af Flandri 1267. Lyklarnir eru tákn Péturs postula, sem síðan þá er verndardýrðlingur borgarinnar. Merking bókstafsins er óljós. Skjaldarmerki þetta var fyrst veitt 1819. Skjaldarberunum var bætt við 1838, en það eru hafmeyja og marbendill, ásamt öðrum táknum hafsins. Þau tákna mikilvægi hafsins í efnahagi borgarinnar. Kórónan vísar til konungsdómsins í Belgíu. Síðustu breytingar voru gerðar 1974.
Orðsifjar
Oostende merkir austurendir. Hér er ekki verið að tala um Austur-Belgíu (eða Niðurlönd), enda liggur borgin nær vestast í landinu. Á miðöldum lá þorpið Oostende austast á eyju sem hét Testerep. Aðrir staðir á eyjunni hétu Westende (Vesturendir) og Middelkerk (Miðkirkja). Eyjan er löngu horfin í dag.
Saga Oostende
Upphaf
Oostende myndaðist á 12. öld sem þorp og sjávarpláss á eyjunni Testerep nálægt mynni árinnar Yser. Það var á sömu öld sem farið var að tengja eyjuna við meginlandið, enda skildi aðeins smálæna á milli. Skömmu síðar var lænan fyllt upp og Testerep hvarf sem eyja. Þegar Margrét af Býsans giftist greifanum af Flandri, flutti hún til Niðurlanda. Hún varð greifaynja af Flæmingjalandi 1244. Þremur árum síðar, 1247, veitti hún Oostende borgarréttindi. Þeim fylgdu markaðsréttindi. Í kjölfarið varð Oostende leiðandi markaðsborg vestast í Flæmingjalandi. Náttúruöflin voru þó tíðum óblíð. Stormar og flóð brutu oft á landinu við ströndina og eyðilögðu byggingar og ræktarland. 1372 varð varnargarður úr viði lagður í milli borgar og sjávar, henni til varnar gegn vindum og vatni. Oft varð að fylla í sjávarbrotin með nýjum sandi. 1445 veitti Filippus hinn góði, greifi af Flæmingjalandi, borginni rétt til að byggja stóra höfn. En aðeins tveimur árum síðar braut stormflóð á landinu. Borgin fór í kaf og skemmdist talsvert. Engu að síður reis höfnin og Oostende varð að mikilvægri hafnarborg á Niðurlöndum.
Orrustan um Oostende
Þegar Hollendingar gerðu uppreisn gegn spænskum yfirráðum á Niðurlöndum á 16. öld, sóttu Spánverjar inn í Flæmingjaland og tókst að hrekja uppreisnarmenn burt. Spánverjar hertóku ýmsar flæmskar borgir 1590. Oostende hélst þó áfram í höndum uppreisnarmanna og var eins og eyja innan um óvininn. Hertoginn af Parma, leiðtogi Spánverja, ákvað að herja um Oostende, enda var höfnin þar mikilvæg fyrir uppreisnarmenn. Umsátrið hófst 5. júlí 1601 með 12 þús manna her. Árin áður höfðu borgarbúar reist sterk varnarvirki. Þó voru aðeins 7 þús manns undir vopnum í borginni. Bardagar drógust á langinn, enda náðu Spánverjar ekki að vinna borgina. Síðsumars 1603 kom Spinola hershöfðingi með nýtt lið til borgarinnar og var haldið áfram að herja á uppreisnarmenn. 22. ágúst 1604 gripu náttúruöflin inn í atburðarrásina. Mikið stormflóð brast á og eyðilagði það stóran hluta af varnarvirkjum borgarinnar. Strax og lægði hóf Daníel de Hertaing, foringi Niðurlendinga, að semja við Spánverja. Á meðan lét hann hundruðir af hollenskum hermönnum, Kalvínistum og spænska liðhlaupa yfirgefa borgina í gegnum höfnina. Samningar tókust 20. september. Spánverjar leyfðu þeim hermönnum sem eftir voru að yfirgefa Oostende landleiðina, og hertóku síðan borgina 22. september. Þau þrjú ár sem orrustan um Oostende stóð yfir var sú mannsskæðasta á nútíma, allt þar til Napoelon kom til sögunnar á 19. öld. Talið er að um 40 þús manns hafi fallið hjá Spánverjum. Tölur fallina í borginni eru ekki til, en trúlega féllu einnig um 40 þús þar. Fall Oostende varð þess valdandi að Spánverjar misstu allan mátt í viðleitni sinni við að endurheimta lönd uppreisnarmanna. Í kjölfarið var samið um vopnahlé, en það var upphafið að friðarsamningunum þessara aðila í frelsisstríði Hollands.
Habsborg
1698 var fyrsta skipafélag borgarinnar, sem verslaði við Indland, stofnað. Eftir að Spánverjar töpuðu í orrustunni við Ramillies í Brabant 1706 í spænska erfðastríðinu, drógu þeir herlið sitt til Oostende. Englendingar sigldu flota sínum þangað og skutu þvílíkt á borgina að hún lagðist nær því í rúst. Spánverjar gáfust upp og 6. júlí 1706 eftirlétu þeir keisara Austurríkis borgina. Í tæplega heila öld var Oostende í höndum Habsborgar. Þegar Hollendingar lokuðu firðinum Westerschelde, þannig að höfnin í Antwerpen lokaðist, varð Oostende eina hafnarborg Habsborgarlanda á Niðurlöndum (höfnin í Brugge var enn ekki til). Hún varð að mikilvægri verslunarborg. Skip þaðan sigldu til Asíu og Ameríku, og stofnuðu nýlendur. Þetta leiddi til verslunarstríðs við aðrar siglingaþjóðir. 1727 neyddu Hollendingar og Englendingar borgina til að loka Oostendse Compagnie verslunarfélaginu sem Karl IV keisari í Austurríki hafði stofnað til nokkru áður. Á síðari hluta 18. aldar var höfnin stækkuð og endurbætt. 1781 stofnaði Jósef II keisari Austurríkis fríhöfn í Oostende til að stuðla að meiri verslun.
Franski tíminn
Þegar Frakkar hertóku Niðurlönd byrjaði hafnaraðstaðan í Oostende að grotna niður. Frakkar neituðu að viðhalda mannvirkjunum, enda spiluðu þeir uppá aðrar hafnir á Niðurlöndum. Í staðinn byggðu þeir borgina upp sem herstöð. 1802 réðust Bretar á Oostende og sátu um borgina, en fengu ekki unnið hana. Napoleon, sem var tíður gestur í borginni, lét reisa tvö ný virki til varnar innrásum. Þau hlutu heitin Fort Napoleon og Fort Royal. Eftir fall Napoleons 1815 var síðara virkið að mestu rifið niður. Fort Napoleon stendur hins vegar enn.
19. öldin
1815 varð Oostende hluti af konungsríki Niðurlanda og 1830 hluti af konungsríki Belgíu. Borgin var þá eina hafnaborg landsins við Norðursjó, ásamt Antwerpen þegar Hollendingar opnuðu fyrir siglingar á Westerschelde á ný. Oostende óx og dafnaði, ekki síst er samgöngur á landi bötnuðu. Þegar borgin fékk járnbrautartengingu 1838 var hægt að flytja vörur frá höfninni miklu fljótar og í miklu meira magni en áður. 1846 hófust farþegasiglingar til Englands, en í marga áratugi sigldu ferjur til Dover og Ramsgate. Mikill uppgangur varð einnig er konungarnir Leópold I og Leópold II hófu að eyða tíma sínum á ströndinni við Oostende um miðja 19. öldina. Þar með hófust vinsældir borgarinnar sem baðstaður. Þetta átti eftir að haldast alla 20. öldina. 1865 var byrjað á að rífa niður öll varnarvirkin í borginni. Þetta skapaði gríðarlega mikið pláss og borgin óx langt út fyrir fyrri mörk sín. Jafnframt jókust fiskiveiðar í Norðursjó. 1884 kom fyrsta gufufiskiskipið í höfn og þegar heimstyrjöldin fyrri hófst 1914 voru þau orðin 29.
Nýrri tímar
1914 hertóku Þjóðverjar Oostende. Höfnina notuðu þeir fyrir kafbáta, sem fóru út á Atlantshaf til að skjóta niður skip bandamanna. Undir lok heimstyrjaldarinnar ráðgerðu Bretar að ráðast á hafnirnar í Oostende og Zeebrugge, en sú síðari var talsvert stærri. En veður hamlaði aðgerðum í tvígang. Þegar til kasta kom réðust Bretar þó aðeins á Zeebrugge vegna veðurs. Oostende slapp því við skemmdir stríðsins í það sinnið. Aðeins tveimur árum eftir stríð, 1920, voru Ólympíuleikarnir haldnir í Antwerpen. Nær allar siglingagreinarnar, sem og keppni í póló, voru þó haldnar í Oostende, sem þarmeð er Ólympíuborg. Í heimstyrjöldinni síðari hertóku Þjóðverjar borgina á nýjan leik. Í þetta sinn reistu þeir fjöldamörg varnarmannvirki á sandströndinni sem sneru að sjónum. Þetta var hluti af varnarkerfi Atlantshafs (Atlanticwall) til varnar erlendri innrás, sérílagi frá Englandi. Bandamenn gerðu tíðar loftárásir á Oostende, frá 1940 til 1945. Í þeim skemmdist borgin talsvert, sérstaklega höfnin og hverfin við ströndina. Eftir stríð hélt innrás ferðamanna og baðgesta áfram. Í dag eru vinsældirnar orðnar svo miklar að Oostende er kölluð Drottning belgískra sjávarbaðstaða. Árið 2010 var Oostende kjörin menningarborg Flæmingjalands (Kultuurstad Vlaanderen).
Viðburðir
Pálshátíðin (Paulusfeesten) er stærsta borgarhátín í Oostende. Henni var hleypt af stokkunum 1972 stendur yfir í heila viku. Á þessum tíma fara fram ýmsir tónleikar, afþreyging fyrir börn og aðrir viðburðir. Í dag er hátíðin svo vinsæl að miðborgin öll er hertekin af fólki, með viðeigandi vandamálum.
Í september ár hvert er haldin kvikmyndahátíð í borginni (Filmfestival Oostende) sem endar á því að veitt eru flæmsku kvikmyndaverðlaunin. Kvikmyndirnar koma hvaðanæva að. Sýndar eru kvikmyndir og seríur.
Vinabæir
Oostende viðheldur vinabæjatengslum við aðeins eina aðra borg:
|
Frægustu börn borgarinnar
- (1787) James Weddell, enskur sæfari og Suðurskautskönnuður
- (1829) August Beernaert, stjórnmálamaður og friðarverðlaunahafi Nóbels 1909
- (1860) James Ensor, málari
- (1905) Gustaaf Sorel, málari
Byggingar og kennileiti
- Napoleonvirkið (Fort Napoleon) er gamalt virki sem Napoleon sjálfur lét reisa 1811-14. Það átti að varna hugsanlegri enskri innrás, en Bretar höfðu ráðist á Oostende 1802. Það voru 400 spænskir stríðsfangar sem voru látnir hlaða virkið úr múrsteinum, sem myndar réttan fimmhyrning, 25 metrar hver hlið. Frökkum entist hins vegar ekki tími til að nýta virkið, enda hurfu þeir úr landi þegar Napoleon var sendur í útlegð í fyrra sinnið 1814. Þjóðverjar notuðu virkið í heimstyrjöldunum báðum, en því var breytt í safn og fundaraðstöðu árið 2000.
- Kirkja Péturs og Páls er höfuðkirkja borgarinnar. Hún var reist 1899-1908 í nýgotneskum stíl og helguð postulunum Pétri og Páli. Við víglsuna var Leópold II konungur viðstaddur, en hann var aðalhvatamaður kirkjunnar. Turninn er 72 metra hár. Glerið í gluggunum voru listaverk, en það eyðilagðist allt í loftárásum seinna stríðsins. Kirkjan er helsta kennileitið í borginni og sést víða að í strandhéraðinu.
- Pétursturninn (Sint-Pieterstoren eða bara Peperbusse) er frístandandi kirkjuturn í borginni. Kirkjan sjálf var reist 1478-84, en hún eyðilagðist í eldri 1896. Rústirnar voru fjarlægðar, en eftir stóð þá aðeins turninn, enda var ákveðið að leyfa honum að standa sem minnisvarði um liðna tíð. 1946 var hann friðaður.
- Spænska húsið (Het Spaans Huisje) er elsta nústandandi íbúðarhús í Oostende. Það var reist 1741 á Habsborgartímanum (ekki spænska tímanum þrátt fyrir heitið). Húsið er hlaðið úr steinum og hefur því staðist eyðileggingu tímans. Mörg gömul hús voru rifin eftir seinna stríð og til stóð að rífa Spænska húsið einnig, en 1981 var það friðlýst. Það var þá tekið í sundur, hver einasti steinn merktur, og endurreist 2000-2001. Slíkt er afar óvenjulegt og fátítt í Belgíu.
- Í höfninni eru tvö gömul skip sem búið er að breyta í söfn. Hið fyrra heitir Mercator og er þrímasta seglskip frá 1934. Hið síðara heitir Amandine og er gamall togari.
Gallerí
-
Loftmynd af Napoleonvirkinu
-
Pétursturninn eða Peperbusse
-
Spænska húsið
-
Safnskipið Mercator