Sumarólympíuleikarnir 1928
9. sumarólympíuleikarnir | |
Bær: | Amsterdam, Hollandi |
Þátttökulönd: | 46 |
Þátttakendur: | 2.883 (2.606 karlar, 277 konur) |
Keppnir: | 109 í 14 greinum |
Hófust: | 28. júlí 1928 |
Lauk: | 12. ágúst 1928 |
Settir af: | Hinriki prins |
Sumarólympíuleikarnir 1928 voru haldnir í Amsterdam í Hollandi á tímabilinu 28. júlí til 12. ágúst. Leikarnir voru minni í sniðum en oft áður, en þóttu þó takast ágætlega. Þýskaland tók á ný þátt í Ólympíuleikum eftir nokkurra ára útlegð.
Aðdragandi og skipulagning
Amsterdam hafði sóst eftir að halda Ólympíuleikana árin 1920 og 1924, en ekki fengið. Að þessu sinni hreppti borgin hins vegar hnossið eftir baráttu við Los Angeles.
Reistur var Ólympíuleikvangur í miðri borginni. Höfundur hans var arkitektinn Jan Wils, einn kunnasti boðberi nýtistefnunnar í hollenskri byggingarlist. Wils var meðal frumkvölða De Stijl-hreyfingarinnar ásamt myndlistarmanninum Piet Mondrian.
Helsta einkenni leikvangsins var hinn hái Maraþon-turn, en á toppi hans logaði Ólympíueldurinn meðan á leikunum stóð. Á turninum héngu jafnframt voldugir hátalarar til að bera áhorfendum úrslit og fréttir af gangi mála. Var það nýjung á íþróttavöllum.
Keppnisgreinar
Keppt var í 109 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
Einstakir afreksmenn
Yfirburðir Finna í langhlaupum voru rækilega staðfestir á leikunum. Finnsku hlaupararnir sigruðu í 1.500, 5.000 og 10.000 metra hlaupunum og unnu þrefalt í 3000 metra hindrunarhlaupi. Paavo Nurmi vann sín níundu Ólympíugullverðlaun á ferlinum í 10.000 metra hlaupinu.
Konur tóku í fyrsta sinn þátt í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna. Lengsta hlaupagreinin í kvennaflokki var 800 metra hlaup sem Þjóðverjinn Lina Radke vann. Hlaupið var við erfiðar aðstæður og sumir keppendanna, sem voru í misgóðri æfingu, örmögnuðust á leiðinni. Það varð til þess að greinin var tekin af dagskrá Ólympíuleikanna til ársins 1960 og hafði hlaupið skaðleg áhrif á framgöngu kvennaíþrótta á leikunum.
Bandaríski táningurinn Betty Robinson sigraði í 100 metra hlaupi kvenna. Hún var sextán ára gömul og hafði einungis keppt þrisvar í greininni áður en til Amsterdam var komið.
Mikio Oda frá Japan sigraði í þrístökkskeppninni, með stökki upp á 15,21 metra. Hann varð þar með fyrsti Asíubúinn til að sigra í einstaklingskeppni á Ólympíuleikum.
Bandaríkjamaðurinn Johnny Weissmuller vann til tvennra gullverðlauna í sundi, til viðbótar við gullin sín þrjú frá leikunum 1924. Hann varð síðar heimsfrægur á hvíta tjaldinu í hlutverki Tarzans apabróður.
Lið Indlands sigraði í hokkíkeppni leikanna. Besti leikmaður þeirra var Dhyan Chand, einn kunnasti hokkíleikmaður fyrr og síðar. Hann skoraði 14 af 29 mörkum liðsins í keppninni. Indverjar fengu ekkert mark á sig í leikjunum fimm, sem er fágætt í hokkí.
Knattspyrnukeppni ÓL 1928
Líkt og í París fjórum árum fyrr, var litið á knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna sem óopinbera heimsmeistarakeppni í íþróttinni. Sautján lið tóku þátt í keppninni, þar af þrjú frá Suður-Ameríku: Chile, Argentína og Úrúgvæ. Voru síðarnefndu tvö liðin talin sigurstranglegust ásamt Ítölum, sterkasta evrópska liðinu.
Þessar þrjár þjóðir reyndust í sérflokki og komust fyrirhafnarlítið í undanúrslitin. Þar mættust Úrúgvæ og Ítalía í hörkuleik sem Suður-Ameríkumennirnir unnu með þremur mörkum gegn tveimur. Úrúgvæ og Argentína tókust því á í draumaúrslitaleik knattspyrnuáhugamanna á troðfullum Ólympíuleikvanginum. Völlurinn tók um 28.000 áhorfendur, en skipuleggjendur Ólympíuleikanna fengu óskir um 250.000 miða á leikinn. Úrslitaleiknum lauk með 1:1 jafntefli og þurftu liðin því að mætast að nýju þremur dögum síðar. Þar hafði Úrúgvæ betur, 2:1 með sigurmarki frá Héctor Scarone.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hélt þing sitt í Amsterdam samhliða Ólympíuleikunum. Þar var ákveðið að efna til heimsmeistarakeppni í knattspyrnu árið 1930. Árið 1929 var svo ákveðið að mótið skyldi haldið í Úrúgvæ og hafði Ólympíumeistaratitillinn mikið með þá ákvörðun að gera. Upp frá því varð HM í knattspyrnu aðalkeppni landsliða, en Ólympíukeppnin varð miklu lægra skrifuð. Kappliðin á Ólympíuleikunum voru lengi vel skipuð áhugamönnum, en síðar yngri leikmönnum.
Þátttaka Íslendinga á leikunum
Íþróttasamband Íslands efndi til fjársöfnunar með sölu á íþróttamerkjum til að standa undir kostnaði við að senda fulltrúa á leikana í Amsterdam. Salan gekk illa og þegar fregnir bárust af því að ekki yrði unnt að koma Íslensku glímunni að sem sýningargrein, var hætt við þátttöku.
Verðlaunaskipting eftir löndum
Nr. | Land | Gull | Silfur | Brons | Samtals |
---|---|---|---|---|---|
1 | Bandaríkin | 22 | 18 | 16 | 56 |
2 | Þýskaland | 10 | 7 | 14 | 31 |
3 | Finnland | 8 | 8 | 9 | 25 |
4 | Svíþjóð | 7 | 6 | 12 | 25 |
5 | Ítalía | 7 | 5 | 7 | 19 |
6 | Sviss | 7 | 4 | 4 | 15 |
7 | Frakkland | 6 | 10 | 5 | 21 |
8 | Holland | 6 | 9 | 4 | 19 |
9 | Ungverjaland | 4 | 5 | 0 | 9 |
10 | Kanada | 4 | 4 | 7 | 15 |
11 | Bretland | 3 | 10 | 7 | 20 |
12 | Argentína | 3 | 3 | 1 | 7 |
13 | Danmörk | 3 | 1 | 2 | 6 |
14 | Tékkóslóvakía | 2 | 5 | 2 | 9 |
15 | Japan | 2 | 2 | 1 | 5 |
16 | Eistland | 2 | 1 | 2 | 5 |
17 | Egyptaland | 2 | 1 | 1 | 4 |
18 | Austurríki | 2 | 0 | 1 | 3 |
19 | Ástralía | 1 | 2 | 1 | 4 |
Noregur | 1 | 2 | 1 | 4 | |
21 | Pólland | 1 | 1 | 3 | 5 |
Júgóslavía | 1 | 1 | 3 | 5 | |
23 | Suður-Afríka | 1 | 0 | 2 | 3 |
24 | Indland | 1 | 0 | 0 | 1 |
Írland | 1 | 0 | 0 | 1 | |
Nýja Sjáland | 1 | 0 | 0 | 1 | |
Spánn | 1 | 0 | 0 | 1 | |
Úrúgvæ | 1 | 0 | 0 | 1 | |
29 | Belgía | 0 | 1 | 2 | 3 |
30 | Chile | 0 | 1 | 0 | 1 |
Haiti | 0 | 1 | 0 | 1 | |
32 | Filippseyjar | 0 | 0 | 1 | 1 |
Portúgal | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Alls | 110 | 108 | 109 | 327 |