Sumarólympíuleikarnir 1984
23. sumarólympíuleikarnir | |
Bær: | Los Angeles, Bandaríkjunum |
Þátttökulönd: | 140 |
Þátttakendur: | 6.800 (5.231 karlar, 1.569 konur) |
Keppnir: | 221 í 21 greinum |
Hófust: | 28. júlí 1984 |
Lauk: | 12. ágúst 1984 |
Settir af: | Ronald Reagan forseta |
Íslenskur fánaberi: | Einar Vilhjálmsson |
Sumarólympíuleikarnir 1984 voru haldnir í Los Angeles, Kaliforníu í Bandaríkjunum 28. júlí til 12. ágúst 1984. Lukkudýr leikanna var Ólympíuörninn Sámur. Forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, setti leikana.
Vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjamanna að hunsa Ólympíuleikana í Moskvu 1980 ákváðu fjórtán lönd í Austurblokkinni og bandamenn þeirra að hunsa þessa ólympíuleika. Þar á meðal voru Sovétríkin, Austur-Þýskaland og Kúba. Íran og Líbýa hunsuðu einnig leikana, en af öðrum ástæðum. Þessi lönd skipulögðu Vináttuleikana í níu löndum Ólympíuleikunum til höfuðs.
Aðdragandi og skipulag
Hryðjuverkin á leikunum í München 1972 og gríðarlegt tap á leikunum í Montréal 1976 ollu því að borgir heims voru hikandi við að falast eftir Ólympíuleikum þegar komið var fram á seinni hluta áttunda áratugarins. Í taun bárust bara tvö boð í að halda leikana árið 1984, annað frá Los Angeles sem falast hafði eftir að halda tvær fyrri keppnir og frá Teheran, sem var talið langsótt frá upphafi. Ekki kom til þess að kjósa þyrfti á milli borganna tveggja því Íranska byltingin í upphafi árs 1978 gerði það að verkum að sjálfhætt var með umsókn Teheran. Los Angeles er því í hópi örfárra borga sem hreppt hefur Ólympíuleika án keppni.
Keppnisgreinar
Keppt var í 221 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
Einstakir afreksmenn
Bandaríkjamaðurinn Carl Lewis varð stærsta stjarna frjálsíþróttakeppninnar með fjögur gullverðlaun í hlaupum og stökkum og jafnaði þannig árangur Jesse Owens frá Berlínarleikunum 1936. Hinn 37 ára gamli Carlos Lopes vann fyrstu gullverðlaun Portúgal þegar hann kom fyrstur í mark í maraþonhlaupi á Ólympíumeti sem átti eftir að standa í 24 ár. Á þessum leikum var í fyrsta sinn keppt í maraþonhlaupi kvenna og fór heimakonan Joan Benoit með sigur af hólmi. Breski tugþrautargarpurinn Daley Thompson vann gullverðlaunin en virtist naumlega hafa misst af heimsmeti. Árið eftir endurreiknaði Alþjóðafrjálsíþróttasambandið stigatölu hans og viðurkenndi heimsmet hans afturvirkt, 8847 stig.
Eitthvað dramatískasta atvik leikanna átti sér stað í 3.000 metra hlaupi kvenna. Búist hafði verið við því að hlaupið yrði einvígi milli Bandaríkjakonunnar Mary Decker og bresk/suður-afrísku hlaupakonunnar Zolu Budd. Þær rákust hins vegar saman í miðju hlaupi þar sem Decker féll til jarðar en Maricica Puică frá Rúmeníu varð sigurvegari.
Kínverjar hlutu fyrstu gullverðlaun sín í sögunni þegar Xu Haifeng vann í skotfimi. Innan fárra ára átti Kína eftir að verða stórveldi á Ólympíuleikum. Fimleikakappinn Li Ning bætti nokkrum verðlaunum í sarpinn og varð þjóðhetja í Kína. Hann fékk síðar það hlutverk að tendra eldinn á leikunum í Beijing.
Mikla athygli vakti þegar meira en 100 þúsund manns keyptu sér miða til að sjá Frakka vinna Brasilíu í úrslitum knattspyrnukeppninnar. Þessi mikli áhugi átti eftir að ráða miklu um þá ákvörðun að fela Bandaríkjunum HM í fótbolta 1994.
Ungur Michael Jordan var í Ólympíugullliði Bandaríkjanna í körfubolta. Enn áttu þó eftir að líða átta ár þar til NBA-stjörnur þjóðarinnar fengu að keppa á leikunum.
Steve Redgrave frá Bretlandi vann til sinna fyrstu gullverðlauna í róðri og átti eftir að endurtaka afrekið á næstu fjórum leikum.
Handknattleikskeppni ÓL 1984
Vegna sniðgöngu nokkurra Austur-Evrópuríkja bauðst íslenska handknattleiksliðinu að taka þátt á leikunum. Keppt var í tveimur sex liða riðlum.
Íslenska liðið hóf keppni gegn Júgóslövum og missti góða forystu niður í jafntefli á lokasprettinum. Því næst kom stórtap gegn Rúmenum. Í kjölfarið komu góðir sigrar gegn Japönum, Alsír og Sviss. Loks tapaði íslenska liðið fyrir Svíum í leik um fimmta sætið.
Júgóslavar urðu Ólympíumeistarar eftir sigur á Vestur-Þjóðverjum í úrslitum og Rúmenar höfnuðu í þriðja sæti. Með árangri sínum tryggðu Íslendingar sér sæti á heimsmeistaramótinu í Sviss 1986.
Þátttaka Íslendinga á leikunum
Auk handknattleikslandsliðsins, sendu Íslendingar fjóra sundmenn, sjö frjálsíþróttamenn, tvo júdókappa og tvo kappsiglingarmenn á leikana.
Bjarni Friðriksson varð hetja Íslendinga á leikunum þegar hann hlaut bronsverðlaun í -95 kílógramma flokki í júdó. Voru það fyrstu verðlaun Íslands frá því í Melbourne 1956.
Einar Vilhjálmsson náði langbestum árangri frjálsíþróttafólksins. Hann varð sjötti í spjótkastskeppninni. Kringlukastarinn Vésteinn Hafsteinsson féll á lyfjaprófi og var árangur hans strikaður út.
Fjögur Íslandsmet litu dagsins ljós í sundkeppninni, þar sem Guðrún Fema Ágústsdóttir og Tryggvi Helgason slógu tvö met hvort.
Siglingamennirnir Gunnlaugur Jónasson og Jón Pétursson kepptu í siglingu á 470-tvímenningskænu og höfnuðu í 23. sæti af 28.
Verðlaunaskipting eftir löndum
Nr | Lönd | Gull | Silfur | Brons | Alls |
---|---|---|---|---|---|
1 | Bandaríkin | 83 | 61 | 30 | 174 |
2 | Rúmenía | 20 | 16 | 17 | 53 |
3 | Vestur-Þýskaland | 17 | 19 | 23 | 59 |
4 | Kína | 15 | 8 | 9 | 32 |
5 | Ítalía | 14 | 6 | 12 | 32 |
6 | Kanada | 10 | 18 | 16 | 44 |
7 | Japan | 10 | 8 | 14 | 32 |
8 | Nýja-Sjáland | 8 | 1 | 2 | 11 |
9 | Júgóslavía | 7 | 4 | 7 | 18 |
10 | Suður-Kórea | 6 | 6 | 7 | 19 |
11 | Bretland | 5 | 11 | 21 | 37 |
12 | Frakkland | 5 | 7 | 16 | 28 |
13 | Holland | 5 | 2 | 6 | 13 |
14 | Ástralía | 4 | 8 | 12 | 24 |
15 | Finnland | 4 | 2 | 6 | 12 |
16 | Svíþjóð | 2 | 11 | 6 | 19 |
17 | Mexíkó | 2 | 3 | 1 | 6 |
18 | Marokkó | 2 | 0 | 0 | 2 |
19 | Brasilía | 1 | 5 | 2 | 8 |
20 | Spánn | 1 | 2 | 2 | 5 |
21 | Belgía | 1 | 1 | 2 | 4 |
22 | Austurríki | 1 | 1 | 1 | 3 |
23 | Kenýa | 1 | 0 | 2 | 3 |
Portúgal | 1 | 0 | 2 | 3 | |
25 | Pakistan | 1 | 0 | 0 | 1 |
26 | Sviss | 0 | 4 | 4 | 8 |
27 | Danmörk | 0 | 3 | 3 | 6 |
28 | Jamæka | 0 | 1 | 2 | 3 |
Noregur | 0 | 1 | 2 | 3 | |
30 | Grikkland | 0 | 1 | 1 | 2 |
Nígería | 0 | 1 | 1 | 2 | |
Púertó Ríkó | 0 | 1 | 1 | 2 | |
33 | Kólumbía | 0 | 1 | 0 | 1 |
Fílabeinsströndin | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Egyptaland | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Írland | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Perú | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Sýrland | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Tæland | 0 | 1 | 0 | 1 | |
40 | Tyrkland | 0 | 0 | 3 | 3 |
Venesúela | 0 | 0 | 3 | 3 | |
42 | Alsír | 0 | 0 | 2 | 2 |
43 | Kamerún | 0 | 0 | 1 | 1 |
Tævan | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Dóminíska lýðveldið | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Ísland | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Sambía | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Alls | 226 | 219 | 243 | 688 |