Sumarólympíuleikarnir 1904
Sumarólympíuleikarnir 1904 voru þriðju Ólympíuleikar nútímans. Þeir voru haldnir í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum á tímabilinu 1. júlí til 23. nóvember. Líkt og fjórum árum fyrr voru leikarnir haldnir samhliða heimssýningu og féllu talsvert í skuggann af henni. Framkvæmd leikanna þótti að mörgu leyti takast vel, en þó skyggði á að nær eingöngu keppendur frá Norður-Ameríku tóku þátt í þeim.
Aðdragandi og skipulagning
Ákveðið hafði verið að Ólympíuleikarnir 1904 yrðu haldnir í Chicago. Á sama tíma var hins vegar unnið að undirbúningi heimssýningar í borginni St. Louis. Aðstandendur heimssýningarinnar vildu ekki sjá neina samkeppni og hótuðu því að efna til annars íþróttamóts í tengslum við sýningarhald sitt. Niðurstaðan varð sú að Chicago gaf keppnina frá sér og annað sinn í röð urðu Ólympíuleikarnir að hliðaratburði heimssýningar.
Heimssýningin stóð í fjóran og hálfan mánuð og reyndu skipuleggjendur hennar að standa fyrir íþróttaviðburði upp á hvern einasta dag allan þann tíma. Það þýddi að boðið var upp á ýmsar óvenjulegar íþróttir og kom það síðar í hlut Alþjóðaólympíunefndarinnar að greiða úr flækjunni og ákveða hvaða verðlaunahafar skyldu teljast raunverulegir Ólympíusigurvegarar.
Hinn langi mótstími og langt ferðalag varð til þess að Evrópubúar létu varla sjá sig á leikunum. Í meirihluta keppnisgreina voru einungis bandarískir þátttakendur og í mörgum öðrum slógust nokkrir Kanadabúar í hópinn. Þannig voru Bandaríkjamenn á leikunum eitthvað á sjötta hundrað, en Þjóðverjar sendu rétt tæplega tuttugu og voru þó fjölmennasta Evrópuliðið.
Hafa ber þó í huga að áherslan á þjóðerni íþróttamanna var ekki sú sama í byrjun tuttugustu aldar og síðar varð. Litið var svo á að keppendur væru fyrst og fremst fulltrúar einstakra íþróttafélaga eða skóla. Varð mikil keppni milli bandarísku háskólanna hver þeirra hlyti flest verðlaun á leikunum.
Keppnisgreinar
Keppt var í 91 grein. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
Einstakir afreksmenn
Bandaríkjamaðurinn Archie Hahn var einhver dáðasti frjálsíþróttamaður leikanna og sigraði í spretthlaupsgreinunum þremur: 60 metrum, 100 metrum og 200 metrum.
Sú sérkennilega staða kom upp í kringlukastkeppninni að tveir efstu menn, Martin Sheridan og Ralph Rose, köstuðu nákvæmlega jafn langt: 39,28 metra. Þurfti því að grípa til aukakasts þar sem Sheridan hafði betur.
Keppt var í tugþraut í fyrsta sinn í sögu Ólympíuleikanna. Sigurvegarinn, Tom Kiely, er skráður Breti í afrekaskrá Alþjóðaólympíunefndarinnar, en var sjálfur eldheitur írskur þjóðernissinni og sagðist alla tíð keppa fyrir Írland.
Keppnin í Maraþonhlaupi var öll með miklum ólíkindablæ. Keppt var í steikjandi hita á malarvegum þar sem umferð hesta og bíla þyrlaði upp ryki. Bandaríkjamaðurinn Frederick Lordz kom fyrstur í mark og var fagnað sem hetju. Lordz hafði hins vegar gefist upp snemma hlaups og fengið bílfar drjúgan hluta leiðarinnar til baka. Hann ákvað að bregða á leik og tók þátt í fagnaðarlátunum.
Hicks fékk gullverðlaunin í kjölfarið. Hann hafði komið annar í mark, reyndar eftir að hafa örmagnast í hitanum og fengið blöndu af koníaki og örvandi efnum, sem teldust í dag ólögleg. Í fjórða sæti í keppninni varð kúbanskur betlari, Andarín Carvajal, sem hefði vísast náð enn ofar ef hann hefði ekki staðnæmst til að éta skemmd epli sem ollu honum slíkri iðrakveisu að hann þurfti að leggja sig á leiðinni.
Sex konur tóku þátt á leikunum. Þær kepptu allar í bogfimi.
Fimleikamaðurinn George L. Eyser vann til sex verðlauna á leikunum, þar af þriggja gullverðlauna. Afrek Eysers var þeim mun merkilegra í ljósi þess að hann var með tréfót, eftir að hafa misst annan fótinn í slysi á barnsaldri.
Keppt var í norður-amerísku boltaíþróttinni Lacrosse í fyrsta sinn á Ólympíuleikum. Þrjú lið tóku þátt: eitt bandarískt og tvö kanadísk. Annað kanadíska liðið var að öllu leyti skipað Mohawk-indíánum.
Galt Football Club frá Ontario í Kanada fór með sigur af hólmi í knattspyrnukeppninni, en auk þess tóku tvö félög frá St. Louis þátt í leikunum.
Verðlaunaskipting eftir löndum
Nr. | Land | Gull | Silfur | Brons | Samtals |
---|---|---|---|---|---|
1 | Bandaríkin | 78 | 82 | 79 | 239 |
2 | Þýskaland | 4 | 4 | 5 | 13 |
3 | Kúba | 4 | 2 | 3 | 9 |
4 | Kanada | 4 | 1 | 1 | 6 |
5 | Ungverjaland | 2 | 1 | 1 | 4 |
6 | Bretland | 1 | 1 | 0 | 2 |
Blandað lið | 1 | 1 | 0 | 2 | |
8 | Grikkland | 1 | 0 | 1 | 2 |
Sviss | 1 | 0 | 1 | 2 | |
10 | Austurríki | 0 | 0 | 1 | 1 |
Alls | 96 | 92 | 92 | 280 |